Pizzan- skipta í hinn 28. jan
Pizzan- skipta í hinn 28. jan

Aðsent

Suðurnesin sem burðarás atvinnustefnu fyrir Ísland
Miðvikudagur 28. janúar 2026 kl. 11:27

Suðurnesin sem burðarás atvinnustefnu fyrir Ísland

Lífskjör á Íslandi ráðast af árangri í útflutningi. Það er því mikilvægt að skapa umhverfi fyrir fjölbreyttar útflutnings- og þekkingargreinar með hámarksframleiðni. Þetta er meðal þess sem fram kemur í drögum að Vaxtarplaninu sem er atvinnustefna fyrir Ísland til ársins 2035.

Við hjá Kadeco fögnum drögunum og tökum undir mikilvægi þess að móta langtímasýn sem hvetur til útflutnings, framleiðni og sjálfbærrar verðmætasköpunar. Atvinnustefnan fellur mjög vel að markmiðum og aðgerðum K64 þróunaráætlunarinnar, sem Kadeco vann á grundvelli samkomulags milli fjármála- og efnahagsráðuneytis, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands í nágrenni Keflavíkurflugvallar.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Mikilvægi svæðisins

Suðurnesin eru í dag stærsta einstaka vinnusóknarsvæði landsins utan höfuðborgarsvæðisins og gegna lykilhlutverki í alþjóðlegri samkeppnishæfni Íslands. Svæðið býr að einstökum innviðum, tækifærum og gæðum eins og alþjóðlegum flugvelli, fjölbreyttum þjónustugreinum, sterkum stoðum í ferðaþjónustu, orku og nýsköpun.

K64 er stærsta heildræna þróunaráætlun Íslands á sviði atvinnuuppbyggingar fyrir næstu áratugi og getur hæglega orðið kjölfestuverkefni atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar, ekki aðeins á Suðurnesjum, heldur fyrir Ísland allt. Með framfylgd K64 skapast tækifæri til að laða að erlenda fjárfestingu svo sem á sviði matvælaiðnaðar, heilsutækni, gagnavera og nýsköpunar.

Kynning fyrir erlendum fjárfestum

Þegar fjárfestingartækifæri á Íslandi eru kynnt erlendis er best að koma fram með samræmd skilaboð fyrir landið allt, að markaðssetningin fari fram undir sameiginlegu flaggi, að upplýsingagjöf um helstu fjárfestingartækifæri á Íslandi sé samræmd og að sýnileika landsins sé gætt.

Kadeco tekur virkan þátt í slíkri kynningu fyrir Suðurnesin og Keflavíkurflugvöll og hvetur stjórnvöld til að setja slíka nálgun í forgang. Við hjá Kadeco leggjum áherslu á að gengið sé lengra í að móta heildstæða stefnu um erlenda fjárfestingu þar sem stjórnvöld og sveitarfélög vinna sameiginlega að markvissri kynningu á Íslandi.

Samgöngur

Til þess að Suðurnesin geti gegnt lykilhlutverki í samræmi við það sem atvinnustefnan kallar eftir þarf að efla tengingar við höfuðborgarsvæðið. Suðurnesin eru hluti af stórhöfuðborgarsvæðinu þar sem samgöngur eru grunnforsenda framleiðni, vinnusóknar og nýrra fjárfestinga. Það er því mikilvægt að atvinnustefnan setji samgöngur þessara svæða í forgang og styðji innleiðingu öflugra samgöngulausna.

Að lokum

Við hjá Kadeco teljum að drög að atvinnustefnu séu mikilvægt skref til framfara en jafnframt að hægt sé að ná enn meiri árangri með því að setja Suðurnes og Keflavíkurflugvöll í sérstöðu sem vaxtarsvæði landsins. Kadeco hefur því sett athugasemdir inn í samráðsgátt þar sem lögð verði sérstök áhersla á Suðurnes og Keflavíkurflugvöll og að K64 verði gert að kjölfestuverkefni í atvinnustefnunni. Þannig verði Suðurnesin burðarás atvinnustefnu Íslands til 2035.

Pálmi Freyr Randversson,
framkvæmdastjóri Kadeco

Unnar Sigurðsson
Unnar Sigurðsson