Viðreisn 2026
Viðreisn 2026

Aðsent

Íbúaþróun og fjárfestingar í Suðurnesjabæ
Laugardagur 17. janúar 2026 kl. 11:22

Íbúaþróun og fjárfestingar í Suðurnesjabæ

Undanfarna daga og vikur hafa mér borist til eyrna sögusagnir af íbúaþróun í Suðurnesjabæ og framkvæmdum innan sveitarfélagsins frá stofnun þess. Því miður virðist farið frjálslega með sannleikann í þessari umræðu í einhverjum tilfellum.

Sem formanni bæjarráðs tel ég því að mér sé skylt að varpa ljósi á málið.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Suðurnesjabær varð til við sameiningu Sandgerðis og Garðs árið 2018. Áhugavert er að sjá hver íbúaþróun hefur verið í þessum tveimur byggðakjörnum frá sameiningu. Auðvelt er að verða sér úti um þessar upplýsingar á heimasíðu Hagstofu Íslands og hvet ég íbúa til að kynna sér það efni sem heimasíða þeirra býður upp á.

Þann 1. janúar 2018 voru íbúar í Sandgerði 1725 talsins en þann 1. janúar 2025 voru þeir orðnir 2092. Það er fjölgun um 367 íbúa, eða 21,28% fjölgun.

Þann 1. janúar 2018 voru íbúar í Garði 1582 talsins en þann 1. janúar 2025 voru þeir orðnir 1961. Þetta er fjölgun um 379 íbúa, eða 23,96% fjölgun. Um þarsíðustu áramót bjuggu því 131 fleiri íbúar í Sandgerði en í Garði, munurinn var hins vegar 143 íbúar í ársbyrjun 2018. Uppfærðar tölur fyrir árið 2025 ættu svo að birtast á heimasíðu Hagstofunnar á næstunni og þá verður áhugavert að sjá hvort þróunin sé í takt við undanfarin ár eða hvort einhver breyting hafi orðið á þróuninni.

Frá sameiningu árið 2018 og til ársloka 2024 varði sveitarfélagið um það bil 3,8 milljörðum króna í fjárfestingar.

Athyglisvert er að sjá hvernig upphæð fjárfestinga skiptist á byggðakjarnana tvo.

Til verkefna í Sandgerði hefur verið varið rúmlega 2 milljörðum króna á tímabilinu. Það gerir um 285 milljónir króna árlega. Á meðal fjárfestinga þar má nefna leikskólann Grænuborg, þar með talið húsnæði, lóð, hringtorg, aðkomuvegur og ýmis búnaður. Nýi leikskólinn er langdýrasta framkvæmdin sem sameinað sveitarfélag hefur ráðist í. Einnig má nefna hringtorg við Sandgerðiskirkju/Hlíðargötu, uppbygging Skerjahverfis, endurbygging Ásabrautar, breytingar í anddyri íþróttamiðstöðvar, sleppistæði við Sandgerðisskóla, endurbætur við húsnæði Sólborgar vegna myglu, endurbætur við umhverfismiðstöð og ýmislegt fleira.

Til verkefna í Garði hefur verið varið tæplega 1,1 milljarði króna á tímabilinu. Það gerir um 157 milljónir króna árlega. Á meðal fjárfestinga þar má nefna stækkun Gerðaskóla, endurbætur á gamla hluta skólans, frágang lóðar og uppbyggingu bílastæða. Framkvæmdin við Gerðaskóla er næstdýrasta framkvæmdin sem sameinað sveitarfélag hefur ráðist í. Einnig má nefna uppbyggingu Klappa- og Teigahverfis, stækkun leikskólans Gefnarborgar, endurbætur á búningsklefum íþróttamiðstöðvar, endurnýjun gólfefna í íþróttasal íþróttamiðstöðvar eftir tjón vegna heitavatnsleysis í kjölfar eldgoss þann 8. febrúar 2024, umhverfi og göngustígur við Útskálahús og ýmislegt fleira.

Á tímabilinu hefur því verið varið um það bil 900 milljónum króna meira í fjárfestingar í Sandgerði.

Þar munar langmestu um nýtt leikskólahúsnæði í Sandgerði. Í allra nánustu framtíð mun sveitarfélagið meðal annars þurfa að byggja nýjan leikskóla í Garði, stækka Sandgerðisskóla, byggja upp útrásir fyrir fráveitu og þá er löngu tímabært að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar svo fátt eitt sé nefnt.

Í fjárfestingar sem teljast sameiginlegar fyrir báða byggðakjarna hefur verið varið um það bil 700 milljónum króna á tímabilinu. Það eru verkefni eins og göngu- og hjólastígur á milli byggðakjarnanna, götulýsing, sjóvarnir, vélar, tæki, bílar, landakaup, ýmis búnaður og margt fleira.

Á síðastliðnu ári bættust svo við fjölmörg verkefni eins og til dæmis uppbygging heilsugæslu í Vörðunni í Sandgerði, lagfæring vegar við Garðskaga, frekari uppbygging á hverfum í báðum byggðakjörnum, lagfæringar í fráveitu og vatnsveitu og margt fleira.

Sigursveinn B. Jónsson,

oddviti S-listans og formaður bæjarráðs í Suðurnesjabæ

Framsókn
Framsókn