Af atvinnuleysi á Suðurnesjum
Atvinnuleysi er enn og aftur komið í sína árstíðabundnu sveiflu. Það er þó hærra nú en áður sem má meðal annars rekja til falls Play air og taps á beinum og afleiddum störfum því tengdu.
Þessi öfgakennda sveifla bitnar verulega á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi er tvöfalt hærra en meðaltalið yfir landið. Í október var atvinnuleysi á landinu öllu 3,9% en hækkaði í 4,4% í desember. Á Suðurnesjum var atvinnuleysið 7,1% í október og 8,9% í desember. Þetta eru miklar sveiflur milli mánaða.
Við vonum að næsta ferðasumar verði farsælt og fari snemma af stað en það sem við getum gert er að halda áfram að laða til okkar ný verkefni og fyrirtæki. Reykjanesbær býr ekki til fyrirtækin, það er ekki okkar hlutverk, en við búum til aðlaðandi umhverfi, tækifæri, atvinnulóðir, húsnæði til að búa í, frábæra leik- og grunnskóla og þannig sköpum við aðstæður til vaxtar.
Of tíðar sveiflur
Það er erfitt fyrir hvaða samfélag sem er að upplifa tíðar efnahagssveiflur sem koma fyrst og fremst niður á atvinnuvegum eins og ferðaþjónustu. Undanfarin sex ár höfum við séð tæplega 9% atvinnuleysi árið 2019 eftir fall WOW air, eftir COVID-19 faraldurinn árið 2020 var atvinnuleysi í Reykjanesbæ 28% og nú sjáum við 9% atvinnuleysi eftir fall Play air og árstíðarsveiflu ferðaþjónustunnar. Við verðum að tryggja að sveiflurnar hafi ekki svona mikil áhrif á samfélagið okkar.
Reykjanesbær hefur unnið að því að fjölga atvinnutækifærum á meðan við höldum vissulega ferðaþjónustunni okkar í hávegum. Nýtt landeldi Samherja er í uppbyggingu sem mun skapa 100 ný störf auk afleiddra starfa, alls 45 milljarða verkefni. Reykjanesbær var einnig að undirrita samning vegna uppbyggingar mannvirkja í Helguvík við Atlantshafsbandalagið fyrir 10 milljarða.
Reykjanesbær hefur einnig einblínt á uppbyggingu verslunar og þjónustu, en á árinu opnaði Krónan eina stærstu verslun sína á Fitjabraut, stærsta verslun Gæludýr.is á landinu opnaði auk BYKO-verslunar. Þarna skapaði Reykjanesbær aðstöðu og tækifæri og fyrirtæki komu í kjölfarið. Þetta er í takt við okkar nýju atvinnustefnu sem kom út 2025 og var unnin af atvinnu- og hafnarráði Reykjanesbæjar.
Úrræði til framtíðar
Það sem við sem samfélag getum gert núna er að biðla til fyrirtækja á Suðurnesjum, auk sveitarfélaganna, um hvort hægt sé að ráða inn starfsfólk í verkefni þó ekki sé nema tímabundið. Vil ég sérstaklega benda á valmöguleikann sem Vinnumálastofnun býður upp á sem er ráðningastyrkur í allt að sex mánuði með mótframlagi. Þannig geta fyrirtæki fengið til sín starfskraft tímabundið með ráðningastyrk fyrir 430 þúsund á mánuði auk mótframlags í lífeyrissjóð. Höfuðatriðið er að halda fólki í virkni, atvinnuleysi er ekki gott fyrir neinn.
Það helsta sem Reykjanesbær getur gert er að laða að okkur fleiri fyrirtæki og efla möguleika á rekstri með lóðaframboði og húsnæði. Meirihluti bæjarstjórnar hefur því tengdu lækkað álagningu C-skatts atvinnuhúsnæðis undanfarin ár, úr 1,65% í 1,45%. Auk þess hafa álögur A-skatts íbúahúsnæðis lækkað úr 0,36% í 0,25% en þannig höfum við mildað þá miklu hækkun sem hefur verið á fasteignamati undanfarin ár.
Að lokum má nefna atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar sem er í umsagnarferli en gert er ráð fyrir að leggja stefnuna fram í byrjun árs 2026 ásamt aðgerðaáætlun. Þar kemur meðal annars fram:
„Ríkið mun vinna skipulega að þróun nýrra kjölfestuverkefna á landsbyggðinni til að treysta byggð og atvinnulíf um allt land. Þannig beita stjórnvöld sér með virkum hætti til að stuðla að blómlegri atvinnuþróun um land allt.“
Ég bíð spennt eftir að atvinnustefna ríkisins og aðgerðaáætlunin verði lögð fram í byrjun árs 2026 og hlakka til að taka samtalið við ríkisstjórnina um framtíðar tækifæri í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum. Við höfum upp á allt að bjóða, erum í örum vexti og hér er frábært að búa.
Guðný Birna,
forseti bæjarstjórnar
Reykjanesbæjar.





