Viðreisn 2026
Viðreisn 2026

Aðsent

Er Reykjanesbær þess virði?
Þriðjudagur 13. janúar 2026 kl. 16:52

Er Reykjanesbær þess virði?

Undanfarna daga hafa sumir viðrað það sjónarmið að framboð Vilhjálms Árnasonar til oddvita Sjálfstæðisflokksins feli í sér missi fyrir Alþingi. Þetta eru eðlilegar vangaveltur, ekki síst í ljósi þess hve öflugan leiðtoga er um að ræða, en spurningin sem skiptir okkur í Reykjanesbæ mestu máli er einföld: Er Reykjanesbær þess virði?

Svarið í mínum huga er einfalt: Já!

Framsókn
Framsókn

Sveitarstjórnarmál snúast um framtíð fólks og daglegt líf íbúa. Þau snúast um hversu lengi foreldrar þurfa að bíða eftir leikskólaplássi, grunnskólana sem börnin okkar ganga í, skipulag byggðar og nærumhverfis, íþrótta- og tómstundastarf og velferð íbúa Það er rekstur sveitarfélags sem stýrir að miklu leyti lífsgæðum og því hversu mikið er eftir í ráðstöfunartekjum heimilanna. Þetta eru málin sem skipta fjölskyldur, eldri borgara og ungt fólk mestu máli, málin sem núverandi meirihluti í Reykjanesbæ hefur ekki staðið nægilega vel að.

Reykjanesbær stendur á krossgötum. Hér er ört vaxandi samfélag með fjölbreyttan mannauð, mikla möguleika og jafnframt raunverulegar áskoranir. Þegar þannig stendur á er ekki í boði að taka neina sénsa. Hlutirnir þurfa að breytast til hins betra og þess vegna þarf Sjálfstæðisflokkurinn að tefla fram sterkasta leiðtoganum sem völ er á. Staða sveitarfélagsins kallar á leiðtoga sem hefur reynslu, yfirvegun, mannlega innsýn og framtíðarsýn. Við þurfum leiðtoga sem getur hafið störf af festu frá fyrsta degi og látið verkin tala.

Vilhjálmur er einn af fáum stjórnmálamönnum sem njóta víðtækrar virðingar þvert á flokka. Slík staða fæst ekki nema með yfirvegun, fagmennsku og trúverðugleika til langs tíma. Hann hefur á þinginu byggt upp traust, ekki aðeins innan eigin flokks heldur einnig meðal samstarfsfólks í öðrum flokkum, ráðuneytum og lykilstofnunum ríkisins. Það er sjaldgæfur styrkleiki og nákvæmlega það sem við í Reykjanesbæ þurfum á að halda.

Hann veit hvernig kerfin virka, hvar ákvarðanir eru teknar og ekki síður hvernig á að knýja fram niðurstöður. Sú þekking skiptir sköpum þegar unnið er að stórum málum á borð við innviðauppbyggingu, samgöngum, atvinnuuppbyggingu og þjónustu við fjölskyldur

Með Vilhjálm í forystu færist þessi reynsla nær okkur sem búum í sveitarfélaginu. Í stað þess að sitja í stjórnarandstöðu á Alþingi nýtist hún beint í þágu bæjarins. Með öðrum orðum: Reykjanesbær fær ekki aðeins bæjarstjóra, heldur allt það tengslanet og þá reynslu sem Vilhjálmur hefur byggt upp í störfum sínum á landsvísu. Þessi mikla reynsla mun gera það að verkum að hann getur gengið beint til verka eftir kosningar. Hún styrkir stöðu bæjarins gagnvart ríkinu og eykur líkur á því að mál Reykjanesbæjar fái meiri þunga, meiri athygli og hraðari úrlausn en áður. Það mætti í raun kalla þetta tveir fyrir einn tilboð.

Það er eflaust lúxusvandamál fyrir frambjóðanda að helstu áhyggjur kjósenda séu hversu mikilvægur þingmaður hann er en á endanum segja þessar áhyggjur okkur aðeins hversu heppin við erum í Reykjanesbæ að hann skuli vera tilbúinn að taka slaginn fyrir sveitarfélagið sitt. Það er svo sannarlega ekki sjálfsagt og fyrir það er ég honum þakklát.

Þegar sveitarfélag fær leiðtoga með slíkan bakgrunn er það ekki að missa áhrif heldur færa áhrifin nær fólkinu. Bæjarstjóri með djúpa þekkingu á ríkisvaldinu og sterkt tengslanet innan þess getur tryggt að Reykjanesbær standi sterkari en áður í baráttunni fyrir hagsmunum íbúanna.

Nú er kominn tími til að Reykjanesbær sæki reynsluna heim. Tími til að velja leiðtoga sem getur hafið störf frá fyrsta degi, með skýra sýn, festu í ákvörðunum og reynslu sem nýtist strax.

Sjálfstæðismenn geta verið stoltir af því að bjóða fram öfluga og ólíka frambjóðendur. Vilhjálmur Árnason er leiðtogi sem þorir að taka slaginn fyrir sitt sveitarfélag. Reykjanesbær er þess virði og á skilið leiðtoga af þessari stærðargráðu, enda er Reykjanesbær stærsta sveitarfélag landsins utan höfuðborgarsvæðisins.

Berglind Ragnarsdóttir,
rekstrar-og nýsköpunarverkfræðingur og varaformaður fimleikadeildar Keflavíkur.

Framsókn
Framsókn