Tónlist allt um kring
„Það eru kannski einhverjir eftir. Það eru margir sem eru komnir með Súlu. Júlli bróðir er búinn að fá, Guðný mágkona, og Geimsteinn fékk sem fyrirtæki á sínum tíma. Svo á Björgvin sonur minn Súlu sem Paddy’s fékk á sínum tíma. Þannig að það eru nokkrar í fjölskyldunni,“ segir Baldur Þórir Guðmundsson þegar hann var spurður hvort hann væri síðastur í fjölskyldunni að fá Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar. Fjölskylda Baldurs hefur verið í framlínu tónlistar og menningar í Bítlabænum í áratugi og því hefur verið úr miklu að velja fyrir þá sem velja nýja Súluhafa á hverju ári. Nú var komið að eldri syni Rúnna Júll og Maríu Baldursdóttur og þegar hann tók við viðurkenningunni í Hljómahöll í nóvember, sagðist hann þurfa að þakka nokkrum sem hafa verið með honum á lífsleiðinni í tónlist og fjöri. „Ég finn að ég verð meirari með aldrinum og það er stundum stutt í tárin en vil nota tækifærið og þakka nokkrum fyrir samstarfið í gegnum tíðina,“ sagði Baldur sem settist niður með okkur í stúdíói Víkurfrétta. Við dúndruðum nokkrum spurningum á hann.
Það er freistandi að byrja spjallið á því að tengja þig við föður þinn Rúnar Júl, sem var nánast heimsfrægur á Íslandi – landsþekktur rokkari og poppari og ein af stórstjörnunum á sínum tíma. Hvenær manstu eftir þér svona nálægt tónlist og honum, og allri þessari músík?
„Það er eiginlega bara frá fyrstu tíð. Ég er frekar lánsamur að lenda sem afsprengi þeirra tveggja – pabba og mömmu. Pabbi er þekktari týpa, en mamma er ansi öflugur arfberi. Baldur afi minn var hafsjór af snilld. Hann spilaði á hljóðfæri, las engar nótur, hafði þetta bara í blóðinu. Fáir vissu kannski af því, hann var ekkert að hampa þessu við mig. Hann er sá fyrsti sem byrjar að kenna mér eitthvað á píanó. Ég elst upp á Sunnubrautinni fyrsta árið, því mamma var frekar ung þegar hún eignaðist mig og það var ekki komið heimili. En um leið og þau stofna heimili, þá er tónlist alltaf allt umlykjandi. Ég dett inn í öll þessi viðtöl. Maður á gamlar blaðaúrklippur frá því ég var fimm og sex ára. Þorsteinn Eggertsson að taka við mig viðtal af því að ég var sonur þessara hjóna.
Baldur er fæddur 1964 en á þeim tíma og næstu ár á eftir er faðir hans á hátindi ferils síns sem rokkstjarna Íslands en þetta ár var hann líka leikmaður með Íslandsmeisturum Keflavíkur í knattspyrnu.
„Já, þetta var þetta „sixties“-tímabil, og lengur reyndar. Eins og hann sagði sjálfur: hann átti aldrei „comeback“, hann fór aldrei. Stundum farinn á bak við tjöldin og stundum náði hann sér í fókus – svona er þessi bransi, hann er hverfull.
Sjálfur fór ég aldrei alla leið í það að verða bara tónlistarmaður. Það er kannski ákveðin gæfa að vera í fastri stöðu, einhverri dagvinnu, því bransinn kemur og fer. En ég hef alltaf verið að spila, alltaf haft músíkina með. Það er bara mjög gott.“
Tónlistarnám og fyrstu hljómsveitir
Manstu eftir þér ungum – 5, 6, 7 ára – byrjaður að glamra eitthvað?
„Já, já. Svo fór ég í tónlistarskóla átta ára, í Tónlistarskólann í Keflavík, og var svona af og til alveg til tvítugs, tuttugu og eitthvað. Svo kláraði ég eitt stigspróf löngu seinna. Í tónlistarskólanum var maður bara í klassíkinni. Það var ekkert verið að spila popp. Það var helst: „Þú mátt alveg spila það – en ekki hérna inni.“
Manstu hver kenndi þér fyrst?
„Þeir voru margir. Ragnar Björnsson, tónlistarskólastjórinn, kenndi mér á tímabili. Svo var spænskur kennari, mjög skemmtilegur, Antonio Corvairas. Seinna meir voru það Rögnvaldur Sigurjónsson og Guðmundur Magnússon, fleiri komu líka við sögu.
Ég gerði þetta til að halda þessu við, en hætti á tímabili og tók upp gítarinn – ætlaði að reyna fyrir mér þar. Svo heyrði ég lag eftir Elton John á græjunum, settist við píanó og pikkaði það upp, og þá ákvað ég að píanóið yrði mitt hljóðfæri.“
Baldur segir að það hafi alltaf verið hljóðfæri á heimilinu, sama hvaða heimili hann hafi komið inn á – alltaf eitthvað hljóðfæri til að leika sér á. Þetta hafi því alltaf legið beinast við.
Varstu farinn að spila með hljómsveitum ungur að árum?
„Já, já, ég byrjaði strax á því. Þegar ég var 12–13 ára spilaði ég á jólaballi með jólasveinum – Ómari frænda og Gylfa Arnbjörns, fyrrverandi forseta ASÍ. Þeir voru jólasveinar, ég var Stúfur og spilaði líklega fyrir nammipoka eða eitthvað svoleiðis.
Síðan var ég alltaf á árshátíðum og ýmsum viðburðum. Ég stofnaði nokkrar hljómsveitir bara til að geta stigið á svið. Í skólanum gekk yfir tískubóla með „hermihljómsveitum“ – við smíðuðum hljóðfærin og lékum okkur. Ég var með hljómsveitina Pödduna, eins konar „Beatles“, þó að hún spilaði nú ekki mikið.“
Hvenær kemur svo fyrsta alvöru bandið?
„Þegar ég kynnist Sigurði Sævarssyni náðum við vel saman, prófuðum okkur áfram á hljóðfærum og fórum að spila með aðeins eldri strákum – Vigga Daða og Edda trommara. Þannig verður til hljómsveitin Kjarnorkublúsararnir, fyrsta bandið sem lagði sig virkilega fram um að gera eitthvað. Við héldum meira að segja tónleika í Félagsbíói þegar ég var 16 ára.
Þannig að þetta var bara tónlist allt um kring – mjög eðlilegt fyrir mig að vera alltaf að spila og koma fram.“
Box, pönksenan og hljómsveitir í Reykjavík
Þú sagðir á afhendingu Súlunnar að þú hefðir verið að spila með hljómsveitum í Reykjavík.
„Já, það kom mjög fljótt. Ég hætti með Kjarnorkublúsurunum og við stofnuðum Box. Við gáfum út tvær plötur og vorum inni í pönksenunni – gigg hér og þar; maður spilaði hálftíma sett, svo kom næsta hljómsveit. Svo vantaði hljómsveit á árshátíð Fjölbrautaskólans og þá bjuggum við til danshljómsveit. Ein útgáfan af þeirri hljómsveit hét Coda, æfði í gamla lögregluhúsnæðinu. Þetta var Coda með C. Þegar við hættum í þessu húsnæði kom fataverslunin Koda inn í sama húsnæði – svo það passaði vel í nafnaflækjunni.“
Og þá fór að spyrjast út að það væri einhver strákur í Keflavík sem gæti spilað á hljómborð?
„Nákvæmlega. Þá var bara hringt í mig, oft einhverjir sem ég kannaðist ekkert við. Spurðu hvort ég væri til í að taka gigg næsta vetur á Klúbbnum.
Ég fór þangað, stillti upp græjunum og var af og til þann vetur á efstu hæð Klúbbsins, sem er núna Cabin hótel í Reykjavík. Við vorum í veseni með nafn – eins og allar hljómsveitir – en söngvarinn var úr Fjörefni. Þá fannst okkur sniðugt að kalla bandið Fjörorku. Það nafn entist ekki vel og var breytt yfir í Bogart seinna. Á þessum grunni hélt svo áfram að spyrjast út að ‘þarna er einhver strákur sem getur eitthvað’, og ég var farinn að spila tvítugur inni á Hótel Sögu með Magga Kjartan, að leysa Hjört heitinn Howser af.“
Þá ertu farinn að spila með gömlum félögum föður þíns úr bransanum?
„Já, já. Maggi Kjartans átti marga frasa; eitt var að hann væri bara að taka mig í uppeldi – síðan myndi pabbi launa honum með því að taka hans stráka í uppeldi seinna.“
Að spila með Rúnari Júl og gömlu dansarnir
Þið bræður, þú og Júlli, spiluðuð líka helling með pabba ykkar?
„Það kemur samt seinna. Eitt leiðir af öðru: ég fór að spila með honum upp úr tvítugu í Hollywood þegar ‘Leitin að týndu kynslóðinni’ stóð yfir. Ég var þarna sem afsprengi kynslóðarinnar að spila með gamla settinu – ákveðinn skóli út af fyrir sig.
Svo kemur áttan, „eighties“, sem var dálítið sérstök. Það fór smám saman að fjara undan hljómsveitunum; alltaf færri og færri í hverju bandi. Ég datt út og fór að spila með Mumma Hermanns á skemmtunum í smá tíma. Svo stofnaði Júlli bróðir hljómsveitir sem ég var ekkert endilega inn í, þetta var annað svið. Hann og félagar ákveða að fara til Bandaríkjanna og reyna að „meika það“. Þeir hétu þá Pandóra, en til að safna fyrir utanferðinni ákváðu þeir að „covera“ hljómsveitir og höfðu gaman af og Deep Jimi And The Zep Creams verða til. Ég var kallaður til að spila á Hammond – þeir hafa alltaf kallað mig Deep Jimi vegna þess. Síðan fóru þeir út; það er saga út af fyrir sig hvernig það endaði, en ég fór ekki með í þá ferð.
Þá datt ég inn í árshátíðarhljómsveit Birgis Gunnlaugssonar. Þar var annar skóli: ég spilaði út um allt land, á árshátíðum, þorrablótum og alls konar skemmtunum. Ég þurfti að læra gömlu dansana – einn, tveir og bingó – þannig að það skipti engu máli hvað var hent í mig, ég reyndi að spila það.“
Það hefur verið fréttnæmt: Sonur Rúnars Júl spilar gömlu dansana.
„Já, það var svolítið þannig. En þetta var það sem afi var að gera. Hermann Ragnar Stefánsson var með útvarpsþátt þar sem hann kenndi dans – eins furðulegt og það er að kenna dans í útvarpi – og afi spilaði þá danstónlist: polka, ræl, og allt þetta.“
Bítlabærinn Keflavík og heimilislífið
Hvernig upplifðirðu músíkina í kringum pabba þinn og hans hljómsveitir? Við tölum oft um Bítlabæinn Keflavík – hvernig var fyrir þig að vaxa upp þarna og síðan fara sjálfur að fikta í tónlist?
„Þetta var aldrei falið fyrir mér. Ég var tekinn með á æfingar og man eftir að hafa farið að sjá Trúbrot spila í „Faust“ hjá Leikfélagi Reykjavíkur, sem var svona undanfari Lifunar. Hvort það var æfing eða sýning man ég ekki, en ég var inni í þessu.
Ég var vinur strákanna, fór með í Saltvík um verslunarmannahelgi, man eftir að hafa hitt Pétur Kristjánsson þar. Þeir tóku mér ofboðslega vel, þannig að ég var bara hluti af genginu. Þetta var aldrei neitt vesen.
Var þetta skemmtilegt, upplifðirðu þetta sem forréttindi?
„Þetta var bara skemmtilegt. Ég upplifði þetta aldrei sem eitthvað sérstakt forréttindalíf – þetta voru bara vinir pabba og mömmu, áhugavert fólk, sumir skrítnari en aðrir.“
Þegar þú ert enn heima hjá foreldrum þínum – var umræðan á heimilinu ofboðslega mikið um tónlist? Eða líka fótbolta, þar sem pabbi þinn var nú í boltanum?
„Við ræddum líka mikið boltann. En það lágu alltaf frammi tímarit eða bækur um tónlist og alltaf var músík í gangi. Ég er enn þannig í dag – þegar Spotify sendir ársskýrslu um hvað ég hlusta mest á, þá spyr maður sig: „Hvað varstu eiginlega að hlusta á?“ Ég er alltaf að prófa eitthvað nýtt.
Pabbi var líka þannig, safnaði plötum. Músíkin var alltaf nálæg. Við ræddum líka hvað væri gott og slæmt, hvað virkaði og hvað ekki.
Pabbi var atvinnumaður í tónlist frá 19 ára aldri, í Hljómum, og fór aldrei í aðra vinnu eftir það. Hann var bara Rúnar Júlíusson.“

Stjarna, peningarnir og lífsstíllinn
Þetta hefur oft verið sagt – hann var þekktasta poppstjarna landsins, í Íslandsmeistaraliði Keflavíkur í knattspyrnu og með fegurðardrottningu Íslands, Maríu Baldursdóttur. Þetta er ágætis pakki?
„Já, það er einhver þrenna sem er ekki leikin eftir. George Best hefði kannski náð þessu í Bretlandi – nema hann gat ekkert spilað tónlist.“
Voru einhverjar dökkar hliðar á þessu tónlistarlífi fjölskyldunnar fyrir þig sem ungan mann? Upplifðirðu eitthvað neikvætt?
„Nei, ekki þannig. Þetta var eins og gerist í kringum svona bransa. Það var mikið spilað á böllum, miklu meira en núna. Fólk var að dansa og drekka, og það fylgdu eftirpartí sem voru eftirminnileg fyrir ákveðnar uppákomur. En ég held að það hafi ekki verið meira vesen en hjá meðal-Jóni.“
Voru foreldrar þínir einhvern tíma ríkir af þessu? Upplifðirðu það?
„Ég fann aldrei fyrir því, hvorki ríkidæmi né hitt – það var einhvern veginn alltaf sama ástand.
Hljómar fóru gríðarlega vel af stað og hann náði að setja pening í fasteign – húsið á Skólaveginum. Trúbrotstíminn er listrænt stór, en það streymdi ekkert inn peningur og Lifun skilaði engum auði.
Svo koma mjög mögur ár í áttunni, þetta var hark. Svo komu góð verkefni með Bubba og GCD; þá kom ágætis peningur inn. En svo var bara hark áfram. Hann breyttist aldrei: þegar hann átti pening leyfði hann sér eitthvað, þegar hann átti ekki peninga leyfði hann sér ekkert.“

Hugsaðirðu út frá þessu: „Ég ætla að tryggja mér aðra vinnu“ þegar þú varst að ákveða nám?
„Nei, ég hugsaði þetta ekki með þeim hætti. Þetta bara gerðist. Ég átti auðvelt með nám, útskrifaðist úr fjölbraut 18 ára og fór beint í háskóla, það lá beinast við. Ég sá meira að segja fyrir mér að reka hljómplötufyrirtækið. En það var ekki nógu mikil velta til að vera með framkvæmdastjóra á launum, þannig að ég fann mér önnur verkefni. Ég sé ekki eftir neinu.
Og varðandi spurninguna þína um að spila með pabba: Það kemur upp úr 2000. Þá er ég kallaður inn í nokkur verkefni með hljómsveitinni. Júlli er farinn að spila á trommur með pabba og síðustu fimm–sex árin spilaði hann eiginlega bara með okkur og fékk gítarleikara inn ef þurfti. Við fórum víða um land.“
Var það ekki skemmtilegt – feðgarnir saman á ferð?
„Jú, honum þótti gríðarlega vænt um það. Hann sagði samt oft í gamni, þegar við ætluðum að taka túr: „Agalegt að vera að fara með ykkur hérna og rífa ykkur upp.“ Þetta var ekki alltaf skemmtilegt í undirbúningi, en þegar ballið byrjaði skemmtum við okkur vel.“

Geimsteinn, Rokksafnið og Rokkheimurinn á Skólavegi
Þið hafið haldið utan um gamla Geimstein – útbúið Rokksafn Rúnars heima hjá ykkur og verið með uppákomur á Ljósanótt. Nú síðast hélduð þið upp á stórafmæli Rúnars Júl.
„Rokksafnið var upphaflega hugmynd pabba. Hann setti upp poppminjasafn fyrir Suðurnes á veitingastaðnum Glóðinni og seldi hugmyndina inn í bæjarfélagið og bæjarstjórunum – fyrst Ellerti Eiríkssyni, svo Árna Sigfússyni.
Þetta varð að veruleika eftir að hann deyr – þar til þá var þetta á teikniborðinu. Hann fékk þó vinnu hjá Reykjanesbæ í lok ævinnar við að koma safninu á koppinn og vera húskarlinn sem tók á móti fólki.
Hann tók skóflustunguna að Hljómahöll en náði ekki að klára. Þegar hann fellur frá klárum við skúrinn heima á Skólavegi 12 og setjum upp það sem til var af sýningunni á Glóðinni.
Við búum til okkar eigin sýningu og köllum þetta Rokkheim Rúnars Júlíussonar. Það er ágætis pæling – rokkheimurinn hans var eiginlega bara 350 metrum frá fæðingarheimilinu, alltaf í Keflavík. Hann hélt tryggð við bæinn þó að „Bítlabæjar-strákarnir“ færu flestir í höfuðborgina.“

Svo komu minningartónleikarnir og afmælin?
„Já. Strax eftir fráfall hans fórum við í minningartónleika í Laugardalshöll. Þeir heppnuðust gríðarlega vel og „Söngur um lífið“ varð vinsælasta lagið 2010 í flutningi Páls Óskars – upphaflega flutt í jarðarförinni.
Svo héldum við upp á 70 ára afmælið með ungum „kanónum“ eins og Stebba Jak, Valdimar Guðmunds og Sölku Sól. Þegar 80 ára afmælið kom ákváðum við að gera þetta á allt öðrum forsendum – þá sungum við bræðurnir sjálfir, með litlu, þéttu bandi, miklu meiri sögustund, myndasýningar og frásagnir af ferlinum.
Svo vildi Júlli bróðir nýta skúrinn – hann er ekki lengur safn í formlegum skilningi, en við tökum á móti smærri hópum til að segja söguna. Við fórum þá að segja sögur ekki bara af pabba heldur af fólkinu sem fór í gegnum skúrinn: Páll Óskar hóf ferilinn þar, Bjartmar Guðlaugsson, Stebbi Hilmars, Gylfi Ægis, Magnús Þór, Jói Helga, Hjálmarnir, Baggalútur og fleiri.“
Á tónleikum í Bæjarbíói. Ljósmynd: Ásta Magnúsdóttir
Voruð þið bræðurnir inni í þessu frá upphafi Geimsteins?
„Já, já. Ég tók þátt í þessu öllu frá því Geimsteinn var stofnaður ’76 – 50 ára á næsta ári, þá verða frekari veisluhöld. Ég var að pakka póstsendingum út á land í sjoppur, búa til póstkröfur, rukka í búðum eins og Víkurbæ og Kyndli. Ég var 12 ára sendur niður í bæ að rukka Árna Sam og Jósafat Arngrímsson, aðalkaupmenn bæjarins.
Svo var ég líka að skrifa bréf í Óskalagaþættina, Lög unga fólksins og Óskalög sjúklinga. Ég gat verið sjúklingur, sjómaður – allt mögulegt – bara til að biðja um lögin. Þetta var eini sénsinn til að fá spilun í útvarpi – það var bara ein útvarpsstöð og mikilvægt að fá spilun, Lög unga fólksins voru einu sinni í viku. Maður þurfti að vera kreatívur.“
Stafræn bylting, streymi og tekjur
Tímar og tækni hafa breyst gríðarlega – nú koma tónlistarmenn oft einir með playback. Hvernig finnst þér stafræna byltingin hafa breytt bransanum?
„Þetta gerist svo hratt að við verðum eiginlega bara að spila með. Vínylplatan er til en eiginlega horfin sem massamarkaðsvara. Það er gaman að sjá plötuverslanir enn til – og jafnvel að þær poppi upp aftur – en það er ekki mikill peningur í þessu.
Í dag gefur fólk ekki út tónlist til að selja plötuna. Platan er meira til að geta sagt: „Hérna er ég búinn að gera eitthvað,“ hafa hana í höndunum. Svo fer allt á streymisveitur og við köfnum í gríðarlegum fjölda titla.
Við hér á Íslandi erum lítill fiskur í mjög stórri tjörn, ekki lengur stórfiskur í lítilli tjörn eins og áður. Þannig að höfundarlaun og tekjur af streymi eru fín sem viðbót, en það heldur engum uppi. Það eru frávik sem lifa á því, en það er undantekning.
Í dag skiptir mestu máli að spila og koma fram – þar eru tekjurnar. Krakkarnir sem eru að koma upp núna eru á allt öðrum launum en þekktist áður.“
Menning, Reykjanesbær og Rokksafnið í Hljómahöll
Þú fórst ekki leið atvinnumanns í tónlist, heldur menntaðir þig og hefur starfað víða – m.a. í stjórnmálum hér í bænum. Hvernig upplifirðu sveitarfélagið sem þú býrð í í dag?
„Síðustu sjö ár hef ég unnið í Reykjavík og er aðeins búinn að missa tengsl við daglegt líf hér í Reykjanesbæ, en mér finnst bæjarfélagið hafa byggst gríðarlega hratt upp á síðustu tíu árum og því fylgja alls konar vaxtarverkir.
Það sem ég sakna helst er meira líf í bænum – meira gaman. Ég nenni ekki að veltast of mikið upp úr skuldastöðu og slíku, mér finnst miklu mikilvægara að við séum að byggja upp samfélag þar sem við getum haft gaman hvert af öðru.“
Þú vinnur nú í menningarráðuneytinu – hvernig horfir þetta við þér út frá þeirri sýn?
„Ég vinn þar núna, sem tengiliður við Evrópuráðið. Í Evrópu er sífellt meira talað um að menning skipti miklu máli fyrir samfélög – og að hún sé ekki bara í höfuðborgum. Bretar, Danir og fleiri leggja áherslu á að tryggja menningu út um allt land.
Í ráðuneytinu erum við mikið að hugsa um þetta – byggja upp menningu úti um allt land. Þess vegna skiptir það mig miklu máli að við gerum það líka héðan frá Suðurnesjum. Það verður að vera líf í bænum. Íbúakannanir sýna alltaf að leikskólar og skólar skipta miklu máli – en svo verður líka að vera menning og viðburðir, tónlist, sviðslistir. Íþróttirnar setjum við jafnvel undir sama hatt; þetta allt bindur samfélagið.“
Þú varst ósáttur við flutning og breytingu á Rokksafninu í Hljómahöll. Hvernig sérðu stöðuna í dag?
„Afstaða mín er óbreytt, mér finnst þetta hafa verið mistök. Ég hef ekkert á móti bókasafninu – það heppnaðist mjög vel – en mér finnst undarlegt að eftir að íbúum fjölgar um 50% á tíu árum sé ákveðið að skerða þjónustu Tónlistarskólans, sem var búinn að vera í húsinu í tíu ár.
Ég hefði viljað að við byggðum húsið upp sem tónlistarhús og hefðum haldið fast í arfleifð rokksins á Suðurnesjum. Við eigum fullt af íþróttahúsum, en þarna var hús sem var tileinkað tónlist – og við hefðum getað gert miklu meira úr því.
Rokksafnið fór í gegnum erfiða tíma í Covid, enginn mátti fara á söfn og viljinn til að halda því við var ekki mikill þegar út úr því var komið. Nú er verið að vinna að nýrri sýningu, í miklu minni mynd, og það hefur ekki sama aðdráttarafl og áður. En lífið heldur auðvitað áfram.“
Á afhendingu Súlunnar fékkstu nokkra fjölskyldumeðlimi með þér upp á svið – maður sá þar átta ára „Rúna Júl“ með gítarinn á lofti, söngkonur og fleiri. Eru allir í ykkar fjölskyldu með tónlist í blóðinu? Eða er þetta uppeldi – eða bæði?
„Ég held að þetta sé bæði, og að ég sé ágætis arfberi. Öll börnin mín eru mjög færir tónlistarmenn og ég gat sett saman hljómsveit bara úr þeim við afhendingu Súlunnar. Ég varð að nota Júlla bróður á trommur, en sonur hans er nú farinn að spila á trommur líka.
Við tveir bræður gátum stillt upp heilli hljómsveit á afmælistónleikunum, allar stöður mannaðar. Og þetta heldur áfram niður á afabörnin.
Elsta afabarnið, Þorbjörg Eiríka, opnaði athöfnina með því að spila ansi vel á píanó – hún er 13 ára og í Tónlistarskólanum, ekki hjá afa. Bróðir hennar, Oddþór Guðni, er að læra á gítar og er með sviðsframkomuna á tæru, með takta langafa síns. Svo er Baldur Máni, nafni minn, tveggja ára, farinn að sýna að hann ætli sér eitthvað í bransanum.
Lífið er tónlist, svolítið mikið. Maður pælir eiginlega aldrei í því – þetta er bara „true way of life“ hjá okkur.
