Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 26. desember 2025 kl. 14:28

Mikil þróun og ný verkefni

Góður gangur hjá Skólamat sem fagnaði aldarfjórðungsafmæli í fyrra.

„Það er mikið að gerast, mikil þróun í gangi, ný verkefni og talsverðar breytingar hafa verið undanfarið hjá okkur í jákvæða átt, þannig að staðan í Skólamat er góð – bæði hjá okkur og á þessum markaði sem við störfum á,“ segir Jón Axelsson forstjóri Skólamatar en fyrirtækið er orðið eitt það stærsta og í hópi þeirra elstu á Suðurnesjum. Það fagnaði aldarfjórðungsafmæli í fyrra.

Jón segir að breytingar hafi verið á markaðnum og líka hjá fyrirtækinu innanhúss. Þá hafi fyrirtækið verið í mikilli þróun.

„Við höfum verið að bæta hjá okkur tækjakost sem auðveldar okkur að bjóða upp á aukið úrval af aðalréttum og meðlæti. Við höfum verið að bæta við tækjakost líka til að auka afköst því fyrirtækið er í vexti og við höfum verið svona að finna hvernig á að takast á við vöxtinn hjá okkur. Skólamatur hefur verið að vaxa um það bil 10% á ári í nokkuð mörg ár. Það kemur í svona þrepum hvar áskoranirnar eru í því.“

Jón segir nýjan tækjabúnað styðja við stefnu fyrirtækisins um hollustu.

„Þetta eru sérhæfðar græjur sem samt gera það að verkum að við getum fylgt þessari stefnu að bjóða alltaf upp á hollasta kostinn sem mögulegt er.“

Samanburður við útlönd sýni að Íslendingar standi sig vel.

„Það er mikill munur á því hvernig matseðlarnir eru fram settir, raðað saman og innihaldið á réttunum og við sjáum það í erlendum samanburði að við getum verið rosalega stolt af því sem við bjóðum okkar viðskiptavinum upp á. Og það er út af þessari þróun sem átt hefur sér stað á 25 árum.“

Frá 12.000 í hádeginu upp í 120 skóla og milljarða veltu

Þið hafið vaxið mikið frá því að þið voruð 20 ára fyrirtæki. Hverjar eru helstu lykiltölurnar í dag – starfsmenn, veltan, umfang?

„Þegar við voruð 20 ára fyrir, fyrir sex árum síðan, vorum við að ná 12.000 máltíðum í hádeginu og vorum að sinna 60-70 skólum og þá var það mestan part grunnskólar. Á þessu tímabili höfum við bætt við okkur gríðarlega mikið af leikskólum og það er talsverður munur á þjónustu við leik- og grunnskóla. Leikskólarnir bjóða upp á morgunmat, ávaxtanesti, hádegismat og síðdegisnesti og það eru minni einingar í hvern skóla. Þannig að við höfum nálgast það talsvert öðruvísi.“

Rekstur Skólamatar hefur aukist á flestum sviðum, í veltu, fjölda starfsmanna og umfangi en ekki er langt síðan að fyrirtækið tók í notkun nýja viðbyggingu.

„Við erum að velta 3,5 til 4 milljörðum á þessu ári og hjá okkur eru um 240 starfsmenn. Núna erum við komin upp í 120 útstöðvar, leik- og grunnskóla og það eru aðeins fleiri leikskólar heldur en grunnskólar í þeim hópi.“

Þá bætast við heilmörg verkefni í einu, eins og nýlega í Reykjavík:

„Frá 1. október vorum við að bæta við okkur í Reykjavík til dæmis 30 skólum, 25 leikskólum og fimm grunnskólum. Það hefur verið mikið verkefni að takast á við því kerfin okkar eru orðin það rútíneruð. Innviðirnir okkar hafa tekist á við þetta ágætlega.“

Suðvesturhornið – og eldað á staðnum

Ykkar starfsemi er fyrst og fremst á stór höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorninu, er það ekki?

„Starfssvæðið er Reykjanesið, Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur, Reykjavík og upp í Mosfellsbæ. Við höfum aðeins verið á Suðurlandi. Þannig að það er suðvesturhorn landsins sem er okkar starfssvæði. Það hentar alveg fyrir þetta konsept eins og það er hjá okkur, vegna þess að við erum að elda í hverjum leik- eða grunnskóla. Við erum alltaf með ofn, uppþvottavél og tæki og tól í öllum eldhúsum. Og við sjáum líka um starfsfólk í eldhúsinu, sérhæft starfsfólk.“

Jón leggur áherslu á að fólk misskilji stundum starfsemina þegar það sér bíla fyrirtækisins á ferðinni en þeir eru um tuttugu talsins.

„Margir halda að bílarnir okkar keyri á staðina með heitan og tilbúinn mat, þannig er það ekki. Við erum með mat sem er tilbúinn til eldunar sem er búið að undirbúa, magntaka og svo á lokaeldun sér stað í skólanum.“

Meginlínan sé sú að Skólamatur sjái um bæði hráefni og vinnuafl, en eldamennskan fari fram í skólunum sjálfum.

„Við erum með starfsfólkið í vinnu hjá Skólamat í leikskólanum eða grunnskólanum og það sér um matreiðsluna en fær bara tilbúinn „pakka“ sem hentar. Með þessu sparast mikið af sérhæfðu fólki sem kannski skortur er á. Með þessu þarf ekki að vera menntaður matreiðslumaður í öllum skólum. Þeir eru í miðlæga eldhúsi Skólamatar, tilbúnir í bakka upp fyrir fólkið sem vinnur í skólunum.“

Mikil sérhæfing – og stóra markmiðið

Jón segir að á bak við reksturinn sé mikil fagmennska og sérhæfing.

„Þannig að þetta starfar sem ein heild og við náum mikilli sérhæfingu. Við erum með matvælafræðing eða starfsmann með menntun í næringarfræði, nokkra matreiðslumeistara og mjög sérhæft fólk sem fylgir eftir gæðaferlum til að ná stóra markmiði Skólamatar, sem er að ná matnum sem fer á diskinn upp í munn og ofan í maga á börnunum okkar. Og það þarf að vera hollur matur, góður matur og svo margt annað.“

Stóra verkefnið sé að tryggja hollustu og gæði – og fylgjast skipulega með.

„Það er stóra verkefnið okkar sem við fylgjumst mikið með, með okkar mælitækjum, hvernig tekst til. Þannig að við erum meðal annars að þjónusta okkur foreldra, að börnin okkar borði hollan mat.“

Nýtt miðlægt eldhús – og spurning um næstu stækkun

Þið stækkuðuð nýlega húsnæði og tókuð nýtt miðlægt eldhús í notkun. Gengur það upp miðað við tíu prósenta vöxt eða þurfið þið þegar að huga að frekari stækkun?

„Við tókum í gagnið nýtt miðlægt eldhús 2023. Það var vegna þess að eldhúsið okkar var alveg sprungið. Við erum langt komin með að fylla þetta eldhús upp og við erum byrjuð að hugsa næstu skref af því að það tekur allt tíma. En við erum núna í 2.500 fermetrum í okkar húsnæði í Reykjanesbæ. Þar er sérstakt framleiðslueldhús sem framleiðir réttina okkar sem við gerum frá grunni sjálf. Við erum með sérstakt sérfræðieldhús sem er aðskilið frá öðrum, þar sem að við erum með mat fyrir þá sem eru með ofnæmi og óþol og þurfa sérþjónustu. Svo erum við með lager og starfsmannaaðstöðu og ýmislegt.

Þetta hefur nú bara tekist mjög vel, þessi framkvæmd sem við fórum í með stækkun á húsnæðinu. Við höfum auðvitað lært ýmislegt af því, en við erum mjög ánægð hvernig til tókst.“

Samt sé fyrirtækið þegar farið að horfa fram á næstu skref.

„Við erum svona á fyrstu skrefum í því að skoða hvað, hvernig maður vill stækka, hvort maður vilji bæta við núverandi húsnæði eða jafnvel að koma upp öðru eldhúsi ef að vöxturinn heldur áfram, sem maður veit aldrei. Svo þarf að taka varfærin skref í rekstri og passa að ekki sé farið of hratt og ekki of skammt heldur.“

Stór vinnuveitandi

Um þriðjungur viðskiptavina Skólamatar er á Suðurnesjum þar sem fyrirtækið er með aðsetur og því er stærri hluti viðskipta við fyrirtækið, eða tveir þriðju, utan Suðurnesja. Fyrirtækið er orðið stór atvinnuveitandi á svæðinu.

„Við erum með allan skalann, frá ómenntuðu fólki upp í hámenntað fólk með háskólagráður í okkar hópi. Stjórnunarteymið er fólk sem býr á Suðurnesjum.“

Hann bendir á að þjónustuaðilar séu líka að mestu héðan af svæðinu.

„Þetta er bara eins og atvinnulífið virkar og við finnum mikinn velvilja hér á svæðinu gagnvart okkar fyrirtæki, hjá þeim sem þjónusta okkur og við þurfum að eiga samskipti við. Það er mjög þægilegt og gott að reka þetta fyrirtæki í Reykjanesbæ, staðsett hér. Það hefur gengið vel að byggja upp húsnæði og fá pláss og aðgengi að fólki er bara mjög gott.“

Þið hljótið að teljast meðal stærstu fyrirtækja á Suðurnesjum, sérstaklega miðað við fjölda starfsmanna?

„Já, þetta er stórt hér á svæðinu og þegar ég segi 240 starfsmenn, það eru ekki mörg fyrirtæki þannig. Flugstöðin, eins og gefur að skilja, sker sig úr þar, en jú, við erum stór á Suðurnesjum.

En að matseðli dagsins hjá börnunum, hvernig er hann ákveðinn?

„Það er gert með því að hlusta,“ segir Jón og … með því að hlusta á viðskiptavinina, sem eru nemendur, starfshópar skólanna, foreldrar eða aðrir, og síðan er líka að fara eftir ráðleggingum færustu sérfræðinga hvað hollt er að bjóða upp á og kynna það, koma því í gegn.“

Jón segir að Skólamatur líti líka á sig sem þátttakanda í uppeldisstarfi.

„Við erum líka í uppeldisstarfi að kenna börnunum okkar að læra að meta ýmsar gerðir af mat. Það er ekki bara það að börnin séu að biðja um eitthvað óhollt eða eitthvað þannig, það er bara alls ekki þannig. Börnin sjálf, nemendur, hafa mikinn metnað fyrir bæði hollustu og gæðum og eru frábærir viðskiptavinir af því að þau láta skoðanir sínar í ljós.“

Hann segir að kerfisbundið sé fylgst með ánægju nemenda:

„Við fáum athugasemdir frá nemendum, en á hverjum einasta degi skráum við niður í öllum skólum sem við erum í, skráum niður ánægju með þann rétt sem var þann daginn. Og það gefur okkur mikinn mælikvarða á hvort það þurfi eitthvað að laga til næst þegar boðið er upp á þennan ákveðna rétt. Það eru margir þættir sem tekið er tillit til. Hollustuviðmið, ánægja, tíðni rétta – sumt má vera oft og sumt sjaldan – og hvernig reynslan er líka, hvað er nýtt í boði frá birgjum eða nýjar aðferðir sem við getum boðið upp á til þess að elda mat. En við mælum síðan árangurinn og förum eftir honum.“

Vinsælustu réttirnir – og ýsan

Geturðu nefnt þrjá vinsælustu réttina?

„Ég er ekki með þau fyrir framan mig en ég myndi segja kjúklingaborgari, tortilla og kannski grjónagrautur – hann er vinsæll hjá mörgum, ekki öllum. Ég ætla að skjóta á þetta,“ segir Jón og brosir.

Hvað með gömlu góðu ýsuna, er hún í boði?

„Hún er í boði og nokkuð oft en hún er ekki vinsælasti rétturinn. Það er ákveðin áskorun að bjóða upp á fisk, hvernig maður ber hann fram eða matreiðir eða hvernig hann er settur fram. Það er áskorun en við höfum náð ýmsum leiðum og þar skiptir líka samstarf við fiskbirgjana eða fiskvinnslurnar miklu máli. Þannig að það er boðið upp á ýsu, já,“ segir Jón og jánkar líka þegar hann er spurður hvort hún sé stundum steikt í raspi, sem er þekktur og vinsæll réttur á Íslandi.

Unnin matvara og gagnrýni

En hvað segirðu þá um kjúklingaborgara – myndi hann falla undir það að vera unnin matvara?

„Já, já, það, allur matur er unninn á einhvern hátt en ef við kannski skilgreinum það, unnin matvæli, þá eru þau mismikið unnin. Það sem kannski er verið svolítið að gagnrýna þar eru innihaldsefni sem eru í mat. Að vera ekki með mikið af viðbættum efnum sem eru notuð til bragðbæta eða lengja geymsluþol, til dæmis. Langt framleiðsluferli og mörg innihaldsefni eru blönduð saman í mat. Það er unnin matvara, já.

Þið fenguð gagnrýni fyrr á þessu ári frá móður í Reykjavík vegna innihaldsefna. Hvernig tókuð þið á því máli?

„Við fáum reglulega gagnrýni á matinn okkar, við köllum eftir því en þetta dæmi sem þú nefnir náði hátt í fjölmiðlum og við hlustum á það sem þessi áhugasama móðir hafði að segja.“

Hann segir að gagnrýnin snúist oft um innihaldslýsingar:

„Stundum er um það að ræða að fólk sé að lesa innihaldslýsingarnar okkar, sem eru mjög nákvæmar á netinu, og við höfum verið í fararbroddi með að birta nákvæmar innihaldslýsingar. Fólk þarf kannski skýringar á hvað hentar og ef einhverjar innihaldslýsingar eða innihald matvæla hentar ekki fyrir ákveðna einstaklinga, þá bjóðum við upp á sérfæði.“

Annars er maturinn okkar hollur og góður að mati flestra. Þannig að þegar kemur gagnrýni á innihald matarins þurfum við kannski að standa okkur betur í því hjá Skólamat að skýra hvaða innihaldsefni eru og til hvers þau eru og hvernig þetta er gert.

Við tókum þessari gagnrýni og hlustuðum eins og við gerum alltaf. Við teljum að við höfum komið á framfæri því sem þurfti og vorum í beinu sambandi við þessa konu, beint eða óbeint, og við þennan hóp. Allavega hefur umræðan dottið niður en við hvetjum til umræðu um gæði skólamáltíða af því að við höfum verið í fararbroddi við að bæta gæði skólamáltíða og munum halda því áfram.“

Hann rifjar upp að síðasti vetur hafi verið erfiður af ýmsum ástæðum.

„Veturinn í fyrra var erfiður líka vegna þess að það kom upp erfitt mál með mötuneyti í leikskóla sem við vorum ekki með. Það hafði áhrif á ímynd okkar allra gagnvart leikskólamötuneytum. Það var góð ábending um það hvað þetta er vandasamt að standa að þessu og þá þarf að vanda vel til verka. Og við fundum fyrir þeirri umræðu.“ 

Meðlætisbarinn vinsæll

Landlæknir hefur bent á að Íslendingar borði ekki nægilega mikið af grænmeti og ávöxtum. Þið hafið verið með salatbar og ávexti lengi. Hvernig gengur það?

„Við erum leiðandi í því að kenna ungu fólki að borða grænmeti og ávexti og höfum verið það í örugglega 20 ár. Það er búið að vera salatbar hjá okkur í langan tíma, mjög mörg ár.“

Jón segir að fyrirtækið hafi lært mikið um áhrif framsetningar.

„Við höfum lært mikið og þróað salatbarinn. Við sjáum að framsetning á grænmeti og ávöxtum skiptir miklu máli, hvernig það er skorið niður og hvaða grænmeti og ávextir passa með sem meðlæti. Er það forréttur eða desert?

Við höfum náð góðum árangri í að þróa meðlætisbarinn og erum í stóru átaki núna að auka úrvalið þar. Við erum að bjóða upp á bygg, salöt og svona meira úrval í meðlætisbarnum sem er nýja nafnið á salatbarnum.

Meðlætisbarinn geti líka verið valkostur fyrir börn sem eru ekki hrifin af aðalréttinum.

„Ef þú ert kannski ekki spenntur fyrir aðalréttinum er hægt að fara í meðlætisbarinn og fá sér alla vega eitthvað á móti.“

Hann nefnir sláandi dæmi um breytingu á neyslu þegar framsetningunni var breytt.

„Það var þegar við fórum úr því fyrir mörgum árum að bjóða upp á meðlætisbar þar sem hver og ein tegund var aðskilin frá annarri, ekki blandað salat í stórri skál, þá þrefaldaðist magn á hvern einasta nemanda sem hann fékk sér. Þá lærðum við að framsetningin skiptir máli og þá fórum við að þróa skurð enn betur og höfum þróað það mjög vel.“

Niðurstaða hans er skýr:

„Við teljum okkur kunna leiðir til þess að koma grænmeti og ávöxtum í börn þannig að þeim líki. Það er ekki okkar reynsla að það sé eitthvað erfitt. Það gengur bara mjög vel. Auðvitað misvel, misjafnt eftir aldri, en með því að prófa og athuga hvað virkar og hvernig, þá höfum við náð að finna leiðir til þess að koma grænmeti og ávöxtum að nemendum.“

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir – breytingin stóra

Eftir síðustu Alþingiskosningar var ákveðið að skólabörn skyldu fá ókeypis, heita máltíð í grunnskólum. Sú ákvörðun hafði áhrif á Skólamat en hvernig hefur þessi breyting – gjaldfrjálsar skólamáltíðir – komið út fyrir fyrirtækið?

„Þetta gerðist fyrir síðasta skólaár. Þannig að það kom inn heill vetur og síðan þessi vetur, reynsla á þetta og þetta gerist í samstarfi stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar. Þetta var mikil breyting fyrir okkur vegna þess að þetta var engin breyting í leikskólanum, en í grunnskólum var það þannig að foreldrar skráðu nemandann ef þau vildu fá skólamatinn og greiddu þá hluta verðsins og sveitarfélagið hluta.“

Jón segir að áður hafi skráning og greiðsla foreldra verið ákveðið „eftirlitskerfi“ í sjálfu sér.

„Ef ykkur líkaði ekki skólamaturinn þá bara skráðuð þið ekki nemandann í matinn. Við breyttum talsvert kerfunum okkar við þessa breytingu. Við þurftum að breyta hvernig nemendur voru skráðir til þess að þeir sem ekki vilja nýta sér skólamatinn geti þá haft það þannig. Þá sé ekki verið að búa til mat fyrir þá og ekki verið að rukka fyrir hann og finna leiðir til þess að minnka svo þetta verði ekki bara matarsóun.“

Lausnin sem þeir fundu felur enn í sér skráningu.

„Það er áfram skráning í grunnskólum. Foreldrar skrá nemandann þó að þau borgi ekki fyrir það. Ef nemandi mætir síðan ekki í ákveðið mikið, og nýtir sér ekki matinn nógu mikið, þá er hann strikaður út af þessum lista yfir þá nemendur sem eru með skólamat og ef hann síðan ákveður að vilja nýta sér það áfram, dettur hann inn á listann aftur. Við erum með ákveðin kerfi á þessu.

Þessi breyting var áskorun fyrir okkur en við teljum okkur hafa leyst hana vel í samstarfi við skólana. Við erum mjög stolt að segja frá því að matarsóun hefur ekki aukist við þessa breytingu, eins og við vorum hrædd um. Þannig að við höfum náð að halda utan um mætingu og kerfið virkar bara fínt.“

Heimilismatur – hugtak á hreyfingu

Getum við sagt að þetta sé heimilismatur í grunninn?

„Sko, hugtakið heimilismatur hefur verið svolítið á flökti undanfarin ár. Í huga okkar flestra er heimilismatur maturinn hjá ömmu. Þannig að við bjóðum upp á heimilismat, já, en það er bara misjafnt hvernig heimilin eru, með hvaða mat þau bjóða upp á. Yngri kynslóðir eru að breyta og við sjáum það á ýmsu að það er að minnka að heimilin geri mat frá grunni. Við erum svolítið að taka meira og meira undirbúinn mat inn á heimilið.“

En hann leggur áherslu á að grunnhugsunin sé samt sú sama:

„Þessi heimilismatur eins og við þekkjum hann er það sem virkar hjá okkur. Almennt er þetta venjulegur, góður heimilismatur.“

Mæting jókst

Hversu hátt hlutfall nemenda nýtti sér skólamat áður – og hvernig er staðan núna?

„Þetta var 80–85%. Einn til tveir nemendur sem voru ekki, af hverjum tíu. Nú er þetta komið upp í 90–95%, þannig að skráning nemenda klárlega jókst. Í þeim skólum sem við vorum í, var bara mætingin mjög mikil. Í yngstu árgöngum grunnskóla eru allir skráðir og voru allir skráðir. Í leikskóla eru allir að borða. Þegar kemur inn á fermingaraldur og unglingsárin er meiri sjálfstæður vilji. Þau vilja stundum fara að gera eitthvað annað og síðan í elstu bekkjum grunnskóla eykst mætingin aftur. Þetta eru mælingar sem við höfum séð ár eftir ár í mjög langan tíma.“

Hvernig meturðu þessa pólitísku ákvörðun – jákvætt, neikvætt eða hlutlaust?

„Við í Skólamat höfum sagt það lengi að við séum ekki pólitík. Þegar að pólitíkin er búin að taka sínar ákvarðanir gagnvart skólamat, þá mætum við og framkvæmum það þannig. Við tökum ekki afstöðu til þessa. En þetta var klárlega áskorun, okkar mælingar sýna að foreldrar eru ánægðir með þetta. Þó að þetta sé umdeilt í umræðunni, þá sjáum við það í okkar viðhorfskönnunum að foreldrar eru sáttir við þessa breytingu. Það er líka staðreynd að það eru fleiri að nýta sér skólamatinn, þannig að þetta er gott að því leyti.“

Aukinn kostnaður sveitarfélaga

Veistu til dæmis hvað þetta er að kosta Reykjanesbæ á hverju skólaári?

„Ég er ekki með það á hreinu en við sjáum það bara á umræðunni að bærinn hefur sagt, vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða hefur kostnaður okkar aukist, en það lá alveg fyrir að ef þeir ætluðu að taka á sig hlut foreldra, þá væri það viðbótarkostnaður.“

Hvernig gekk þetta áður fyrir sig?

„Bærinn var áður að borga hluta af máltíð. Þetta virkaði þannig að það var gerður þjónustusamningur sem byggði á útboði. Þá voru einingaverð fyrir hverja máltíð sem að við afhendum og þá er ekki verið að rukka á jólum og páskum og þegar þeir eru í fríi og svona. Það var ákveðið verð og síðan gaf sveitarfélagið út gjaldskrá og hún var hluti af þessu verði og mismunurinn var greiddur af sveitarfélaginu. Við breytinguna yfirtekur sveitarfélagið hlut foreldranna en þetta var umtalsverð aukning fyrir sveitarfélagið.“

Hver er framtíðarmúsíkin og helstu áskoranir hjá Skólamat á næstu árum?

„Framtíðarmúsíkin gengur út á að halda áfram að hlusta á markaðinn, hvernig hann er að þróast, hvað er að gerast í skólamat almennt, hvað markaðurinn er að biðja um, en vera leiðandi líka í að kynna nýjar lausnir,“ segir hann en eitt stærsta verkefnið sé baráttan gegn matarsóun.

„Við höfum verið í miklu átaki í matarsóunarverkefni, að þróa tölvukerfin okkar þannig að við nýtum matinn betur og minna fari í ruslið, og þar höfum við náð gríðarlegum árangri.“

Hugmynd föðurins

Í lokin er óhjákvæmilegt að spyrja um uppruna hugmyndarinnar. Axel Jónsson, faðir þinn, hóf þessa vegferð árið 1999. Hvernig kviknaði hugmyndin?

„Viðskiptahugmynd pabba míns kemur þegar einsetning grunnskólanna átti sér stað. Nemendur hætta að fara heim í hádeginu og eru allan daginn í skólanum og þá þurfa þau að borða. Þannig kemur þetta til og þá þarf að fara að finna lausnir og síðan hafa lausnirnar þróast og batnað.“

Einsetning grunnskóla varð árið 1990. Níu árum síðar stofnaði hann Skólamat.

„Hann þurfti aðeins að melta þetta, koma þessu í gang. Hann hugsaði hratt. Markaðurinn þurfti að melta hans hugmyndir. En markaðurinn er í rauninni mjög sáttur í dag. Allavega þannig að það er vöxtur í eftirspurn á okkar þjónustu. Við erum og verðum bjartsýn og tökumst á við áskoranirnar með gleði og ánægju í samstarfi við marga aðila,“ segir Jón.

Samanburður við nágrannalönd og Ísland fremst í flokki

Skólamatur hefur litið út fyrir landsteinana til að leita fyrirmynda – en niðurstaðan kom þeim sjálfum á óvart.

„Við erum búin að fara aðeins erlendis á sýningar eða skoða hjá kollegum okkar í Evrópu. Við héldum að við værum að fara að læra hvað væri hægt að gera, vorum að skoða þarna róbóta, færibönd og fleira í eldhúsum sem eru stærri en okkar. En við sáum það þegar við fórum að tala við kollega okkar að þar eru menn að færa sig úr því að vera með plastumbúðir sem eru sendar úr miðlægum eldhúsum, og síðan er umbúðunum hent, yfir í það að vera með margnota umbúðir sem við erum búin að vera með alla tíð.“

Skólamatur hafi til að mynda lengi notað margnota diska.

„Við vorum með postulínsdiska og færðum okkur síðan að mestu yfir í plastdiska sem eru léttari fyrir alla en eru margnota.“

Í matarsóunarmálum telur hann Skólamat vera skrefi á undan mörgum Evrópuríkjum.

„Kollegar okkar eru alveg á byrjunarreit gagnvart matarsóun. Þar er bara áætlað ákveðið magn og restin fer í ruslið. Við erum með kerfi sem hlustar í báðar áttir þannig að við sjáum hvað fór mikið og stillum magn sem sent er í skólann eða eldað út frá því. Og við erum líka með kerfi að ef það vantar mat, þá erum við með leiðir til þess að bæta í.

Með svona leiðum höfum við náð gríðarlega miklum árangri í matarsóun. Nú eru tveir aðilar sem bíða eftir að koma til okkar, annar frá Þýskalandi og hinn frá Frakklandi, sem vilja fá að skoða hvaða leið við hérna uppi á Íslandi erum að nota í að takast á við matarsóun, af því að menn sjá auðvitað kostnaðarsparnað, líka aukna ánægju þegar menn byggja svona tvíhliða kerfi. Þetta hefur komið okkur á óvart núna í vetur og síðastliðið vor þegar við vorum að fara út – þetta samstarf sem við höfum átt þarna – og ég sé að þetta er bara eitthvað sem er að þróast áfram og ég er mjög bjartsýnn gagnvart framtíð skólamáltíða á Íslandi.“

Komum vel út í samburði við útlönd

Hvernig er staðan í leik- og grunnskólum í nágrannalöndum okkar, til dæmis á Norðurlöndum?

„Það er mjög misjafnt,“ segir hann. „Danir til dæmis, við sjáum það á fólki sem við þekkjum í Danmörku að þar eru allir foreldrar bara að senda börnin með nesti. Og við fáum stundum svona skilaboð hérna, hvort að við getum ekki komið til Danmerkur – ‘ég er mjög leiður á að gera þrjár samlokur á dag fyrir hvert barn og þrjú börn, á hverjum degi’.“

Í Noregi eru menn eitthvað að byrja með heitar máltíðir. Í Svíþjóð er boðið upp á heitar máltíðir alls staðar og sveitarfélögin bjóða upp á það. Í Finnlandi er mikið talað um skólamáltíðir. Þar hefur það verið stór partur í góðu skólakerfi. Þar er alls staðar boðið upp á heita máltíð í leik- og grunnskóla. Í Þýskalandi er það svipað, það er boðið upp á á flestum stöðum, í Frakklandi og Bretlandi líka, þar er mikið um mötuneyti.“

Þannig að við erum bara framarlega, Íslendingar, miðað við þetta?

„Ég sé það hvað við erum mjög framarlega í að bjóða upp á, ekki bara skólamáltíðir, heldur hvaða máltíðir er boðið upp á,“ segir hann.

„Það sem boðið er upp á er að mínu mati – og það er auðvitað getur verið umdeilt og menn hafa allavega skoðanir á því – en að okkar mati í Skólamat eru gæði skólamáltíða og eldunaraðferðir sem við bjóðum upp á og samsetning matseðla mjög framarlega þegar við berum okkur saman við kollega okkar í Evrópu.“