Keflvíkingar í VÍS bikar undanúrslitin eftir sigur á Val
Keflvíkingar eru komnir í undanúrslit í VÍS bikar karla í körfubolta eftir eins stigs sigur á Val í æsispennandi leik á Hlíðarenda. Lokatölur 93-94 fyrir Keflavík.
Leikurinn var hnífjafn allan tímann en Valsmenn voru fjórum stigum yfir þegar innan við mínúta var eftir. Mirza Bulic skoraði körfu og fékk víti að auki og minnkaði muninn í eitt stig og þannig var staðan þegar fimmtán sekúndir voru eftir. Callum Lawson jók þá muninn í tvö stig fyrir Val með einu vítaskoti. Í næstu sókn þrumaði Egor Koulechov niður þristi í miðja körfuna og kom Keflavík yfir þegar sex sekúndur voru til leiksloka. Valsmenn með Kára Jónsson í fararbroddi og með boltann í síðustu sókninni náðu ekki að jafna og bítlabæjarliðið fagnaði mögnðum sigri.
Keflavík verður því með tvö lið í undanúrslitum VÍS bikarnum, því konurnar unnu stórsigur á Haukum.
Remy Martin var aftur kominn í lið Keflavíkur en hans naut ekki við allan leikinn því hann meiddist í fjórða leikhluta, þótt ótrúlegt sé, en vonast er til að þau meiðsli séu ekki alvarleg. Þegar hann var inná var hann þó mjög ógnandi og skilaði líka 13 stigum. Benedikt Guðmundsson, fyrrverandi þjálfari og sérfræðingur í útsendingu sagði að lið Keflavíkur væri gríðar sterkt og myndi líklega verða enn sterkara þegar Remy kæmist í betri leikæfingu.
Hilmar Pétursson (24 stig), Mirza Bulic (22 stig) og Craig E. Möller (18 stig) skoruðu mest fyrir Keflavík í þessum skemmtilega leik.
Remy Martin var með Keflavík þegar liðið varð VÍS bikarmeistari 2024 og stuðningsmenn liðsins vonast til að liðið vinni einhver verðlaun á þessu ári. Hann sagði í viðtali við RÚV eftir leikinn að hann væri mjög ánægður að vera kominn til Íslands, þetta væri eins og hans annað land. „Ég hvet stuðningsmenn okkar að mæta á leikina því þeir eru okkur mikil hvatning á vellinum,“ sagði Remy.
Í undanúrslitum með Keflavík eru Stjarnan, Tindastóll og KR.
Valur-Keflavík 93-94 (27-23, 21-25, 25-23, 20-23)
Valur: Kári Jónsson 22/4 fráköst/5 stolnir, Antonio Keyshawn Woods 20, Frank Aron Booker 18/9 fráköst, Kristófer Acox 12/9 fráköst, Callum Reese Lawson 11, Lazar Nikolic 10, Hjálmar Stefánsson 0, Arnór Bjarki Halldórsson 0, Einar Marteinn Ólafsson 0, Karl Kristján Sigurðarson 0, Orri Már Svavarsson 0, Veigar Örn Svavarsson 0.
Keflavík: Hilmar Pétursson 24/6 fráköst, Mirza Bulic 22, Craig Edward Moller 18/8 fráköst, Egor Koulechov 14/6 fráköst, Remy Martin 13/7 fráköst/9 stoðsendingar, Ólafur Björn Gunnlaugsson 3, Daniel Eric Ottesen Clarke 0, Frosti Sigurðarson 0, Jaka Brodnik 0/5 fráköst, Eyþór Lár Bárðarson 0, Halldór Garðar Hermannsson 0, Valur Orri Valsson 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Bjarki Þór Davíðsson, Davíð Kristján Hreiðarsson
Áhorfendur: 411


