Ofurleikur hjá Keflavík gegn Íslandsmeisturum Hauka - stórsigur í VÍS bikarnum
Keflavíkurkonur sýndu mátt sinn og megin þegar þær gjörsigruðu Íslandsmeistara Hauka í 8 liða úrslitum VÍS bikarins í Blue höllinni í dag. Eftir að hafa verið sjö stigum undir í hálfleik unnu þær seinni hálfleikinn með 32 stigum. Ótrúlegar lokatölur 103-78 og Keflavík komið í undanúrslitin.
Heimakonur voru aðeins betri í fyrsta leikhluta en Haukar voru mun betri í öðrum leikhluta og leiddu í leikhlé með sjö stigum, 41-48.
Heimakonur komu gríðarlega ákveðnar í upphafi þriðja leikhluta og náðu strax miklu 16-2 upphlaupi og létu kné fylgja kviði með magnaðri frammistöðu gegn Íslandsmeisturunum, léku frábæra vörn og hittu mjög vel.
Haukakonur reyndu hvað þær gátu en Keflvíkingar gáfu ekkert eftir. Þær juku forskotið og hreinlega völtuðu yfir Haukana með frábærri frammistöðu og unnu að lokum stórsigur, 103-78.
Allir leikmenn Keflvíkinga léku vel í síðari hálfleik eftir þokkalegan fyrri hálfleik. Það var þó eins og allt annað lið mætti í síðari hálfleikinn. Hugarfarið og baráttan á öðru stigi. Vörnin var mögnuð og hittnin til fyrirmyndar. Keishana Washington, Thelma Dís Ágústsdóttir og Sara Rún Hinriksdóttir leiddu lið heimakvenna en Emelía Ósk, Anna Lára og Anna Ingunn skiluðu góðum leik. Sara hafði ekki verið áberandi í fyrri hálfleik en bætti um betur í síðari hálfeik og skoraði yfir tuttugu stig. Thelma var með 17 stig en Washington leiddi stigaskorið og skilaði 31 stigi.
Íslandsmeistarar og bikarmeistararnir frá síðustu leiktíð eru úr leik og Keflvíkingar eigja nú von að vinna bikar. En það er enn langt í slíkt þó liðið sé komið í undanúrslit. Bikarleikir bjóða upp á dramtík og það sýndi sig í þessum leik. Sérfræðingar sem lýstu leiknum hjá RÚV í beinni útsendingu voru þó á því að Keflavík væri sigurstranglegast.
Gangur leiks og tölur úr honum.





