Vogar taka allt að 130 milljóna króna lán
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hefur samþykkt samhljóða að taka langtímalán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að 130 milljónum króna. Í kjölfarið verður lán sveitarfélagsins hjá Íslandsbanka greitt upp.
Lánið verður tekið samkvæmt þeim lánaskilmálum sem í boði eru þegar lántakan fer fram og er ætlað til að fjármagna framkvæmdir ársins og endurfjármagna afborganir eldri lána. Jafnframt fékk Guðrún P. Ólafsdóttir bæjarstjóri umboð til að undirrita lánssamning og ganga frá tilheyrandi gögnum.



