Heimildamynd um Þóri Baldursson frumsýnd
Í myndinni ferðast hann um heiminn, hittir gamla samstarfsmenn og rifjar upp tímana þegar hann var hluti af þróun diskó- og popptónlistar á sjöunda og áttunda áratugnum. Með viðtölum, tónlist og endurfundum opnast einstök sýn á manninn á bakvið tónlistina sem enn hefur áhrif á fólk víða um heim, segir í tilkynningu frá framleiðanda myndarinnar, OKTÓBER PRODCTIONS og FJÖRTÍU ÞÚSUND SJÖTÍU OG FJÓRIR KÍLÓMETRAR.
Þórir hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2011 og á nýársdag 2013 var hann sæmdur riddarakrossi fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar.
Heimildamyndin hlaut styrk úr Kvikmyndamiðstöð Íslands, einnig hefur Reykjanesbær, Kópavogsbær og Dalvíkurbyggð styrkt framgang verkefnisins.
Þórir er 81 árs gamall í dag og er að hluta til sestur í helgan stein.
Hann gerir stundum við gömul Hammondorgel í frítíma sínum ásamt því að vera virkur í tónlistarsenunni. Hann spilar enn oft með ýmsum hljómsveitum, oftast jazz. Hans ferli er lýst í heimildamyndinni. Farið er á kunnuglega staði, þar sem hljóð og stíll „DISCO“-tónlistarinnar varð til fyrir tæpum fimmtíu árum. Staldrað er við hjá gömlum vinum hans og samstarfsmönnum úr tónlistarbransanum. Við fylgjumst líka með Þóri frá unga aldri þegar hann var barn í Keflavík og byrjaði að fylgja föður sínum á staðbundnum dansleikjum, þá tíu ára gamall þar sem hann lék á píanó með föður sínum, sem lék á harmonikku, og tónlistin tók hann í faðm sinn og gerði hann að tónlistarmanni. Hann varð meðlimur í sinni fyrstu hljómsveit 12 ára gamall. Í heimildamyndinni verða bæði ný og gömul viðtöl við Þóri og gamla starfsfélaga, vini hans hér heima og erlendis auk fjölda annarra atvika allt frá 1957 til dagsins í dag. Þórir fór í mánaðarlanga vinnuferð til Finnlands í byrjun áttunda áratugarins, en örlögin höguðu því svo að hann starfaði erlendis næstu árin. Hún byrjaði á Norðurlöndum, en fór þaðan til Sviss, Þýskalands og endaði í Bandaríkjunum.
Meðal þeirra sem koma fram í heimildamyndinni og tengjast Þóri á einn eða annan hátt eru Savanna-tríóið, Dátar, Hljómar, Heiðursmenn, Ævintýri, Þrjú á palli, Gammar, Nilsmenn, Nina Lizell, Lee Hazlewood, María Baldursdóttir, Guðrún Pálsdóttir, Jóhann Helgason, Abba, Amol Duul, Frank Farian, Boney M, Rolling Stones, Georgio Moroder, Donna Summer, Twiggy, Tom Moulton, Grace Jones, Elton John, Pete Bellotte, Gaz, SalSoul Records, Les Hurdle, Björn Thoroddsen, Geir Ólafsson, Kristján Jóhannsson, Sigurður Flosason, Fúsi Óttars, Marcus Miller, lagahöfundar, útsetjarar, tónlistarframleiðendur, hljóðverseigendur, ættingjar, gamlir vinir og margir fleiri. Sýnd verður saga Þóris á bak við tónlistarefnið, fjallað verður um aðferðafræðina og hvernig galdurinn gerðist sem smellpassaði við þróun þessa tónlistartímabils sem að leiddi út frá sér Disco, síðar Break, Rap og Hip Hop tónlist. Enn í dag hefur þessi tónlist mjög mikil áhrif á fólk á skemmtilegan og tilfinningaríkan hátt um allan heim. Það verður alltaf til fólk sem vill dansa og njóta góðrar tónlistar.
OKTÓBER PRODCTIONS ehf og FJÖRTÍU ÞÚSUND SJÖTÍU OG FJÓRIR KÍLÓMETRAR, ehf eru aðalframleiðendur frá Íslandi í samvinnu við ÆGIR INVEST.
Framleiðendur; FAHAD FALUR JABALI, KSENIJA SIGMARSSON og JÓHANN SIGMARSSON, Kvikmyndataka; HÁKON SVERRISSON, BALDVIN VERNHARDSON, TUOMO HUTRI, SIGURJÓN VINSTRI HÖND, LÝÐUR ÁRNASON, EINAR SNORRI EINARSSON og BJARNI EINARSSON, Klipping; EINAR SNORRI EINARSSON, Grænstjóri; KSENIJA SIGMARSSON, Hljóðmeistari; JÓHANNES B BJARNASON, Tónlistarstjórn; VALGEIR VINSTRI FÓTUR, Framleiðslustjórn; FAHAD FALUR JABALI, Handrit og Leikstjórn; JÓHANN SIGMARSSON.





