Vinnustofur í febrúar til að efla lýðræðisþátttöku innflytjenda
Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að halda vinnustofur í febrúar til að auka lýðræðislega þátttöku innflytjenda í sveitarfélaginu. Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs 18. desember 2025.
Á fundinum mætti Eydís Rós Ármannsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar, og kynnti verkefni sem miðar að því að styrkja þekkingu innflytjenda á sveitarstjórnarkosningum, hlutverki sveitarfélagsins og því hvaða áhrif kosningar hafa á nærumhverfi og þjónustu. Jafnframt verður fjallað um réttindi innflytjenda til að kjósa og bjóða sig fram, auk þess sem þátttakendum verður veittur vettvangur til að spyrja spurninga og ræða þátttöku í samfélaginu.
Markmiðið er að auka upplýsingagjöf og þátttöku, efla tengsl við samfélagið og styðja við virkt lýðræði í Reykjanesbæ.




