Reykjanes Optikk
Reykjanes Optikk

Íþróttir

Grindavík í undanúrslit VÍS-bikars kvenna eftir sigur gegn Aþenu
Laugardagur 10. janúar 2026 kl. 20:21

Grindavík í undanúrslit VÍS-bikars kvenna eftir sigur gegn Aþenu

Grindavík tók á móti Aþenu í 8-liða úrslitum VÍS-bikars kvenna og vann tiltölulega öruggan sigur í lokin en það var ekki fyrr en langt var liðið á seinni hálfleikinn sem Grindavík náði yfirhöndinni en lokatölur urðu 80-69, eftir að staðan í hálfleik hafði verið 39-35.

Eflaust áttu flestir von á öruggum sigri heimakvenna þar sem Aþena er í deild fyrir neðan þær, en lærimeyjur Brynjars Karls Sigurðssonar seldu sig dýrt til að byrja með og leiddu að loknum fyrsta leikhluta, 21-26. Grindavík rankaði við sér og unnu annan leikhlutann 18-9 og leiddu því í hálfleik, 39-35. 

Munurinn var aldrei mikill í upphafi seinni hálfleiks og það var ekki fyrr en skammt lifði þriðja leikhlutans sem Grindavík tók af skarið og leiddi að honum loknum, 64-53. Eftir það var aldrei spurning um niðurstöðuna og öruggur Grindavíkursigur í lokin, 80-69.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Abby Freeman var að vanda hlutskörpust Grindavíkurkvenna, var nálægt þrefaldri tvennu, endaði með 23 stig, 11 fráköst og 9 stoðsendingar. Ísabella Ósk Sigurðardóttir stóð líka fyrir sínu, skoraði 17 stig, tók 12 fráköst og var öflug í vörninni.

Grindavík fylgir því Keflavík í undanúrslitin og hin liðin verða Tindastóll sem vann KR í dag en Ármann og Hamar/Þór Þ mætast á morgun.

Þorleifur, þjálfari UMFG: Ólöf Rún, fyrirliði UMFG: