Salóme Kristín íþróttamaður Suðurnesjabæjar 2025
Salóme Kristín Róbertsdóttir hefur verið kjörin íþróttamaður Suðurnesjabæjar 2025. Salóme Kristín er knattspyrnukona sem spilar með meistaraflokki Keflavíkur. Árið 2025 var frábært ár hjá henni, hún spilaði alla leiki Keflavíkur í Lengjudeildinni í sumar, var eins og klettur í hjarta varnarinnar og þrátt fyrir ungan aldur frábær leiðtogi liðsins. Salóme var valin í U19 ára landsliðið fyrir þrjú verkefni árið 2025, meðal annars undankeppni fyrir EM sem haldið var í Portúgal í apríl. Salóme endaði svo knattspyrnusumarið á að vera valinn besti leikmaður meistaraflokks kvenna hjá Keflavík.
Alls voru sex íþróttamenn og konur tilnefnd í kjörinu. Þau eru Ástvaldur Ragnar Bjarnason, Hilda Rún Hafsteinsdóttir, Hlynur Jóhannsson, Orfeus Andreou, Ólafur Darri Sigurjónsson og Salóme Kristín Róbertsdóttir, sem að lokum var kjörin íþróttamaður ársins 2025 í Suðurnesjabæ.
Við athöfnina í gær var jafnframt tilkynnt um kjör á sjálfboðaliða ársins 2025. Að þessu sinni fékk Sigríður Þórhalla Þorleifsdóttir kjörin. Sigríður Þórhalla, eða Sigga, hefur verið ómetanlegur sjálfboðaliði hjá Víði frá árinu 1998. Í gegnum árin hefur hún sinnt fjölbreyttum og krefjandi verkefnum af mikilli alúð, ábyrgð og ósérhlífni. Hún hefur lagt mikið af mörkum í Barna- og unglingaráði, foreldraráði og hefur einnig setið í aðalstjórn Víðis í um það bil fimm ár sem meðstjórnandi og nú sem varaformaður félagsins. Sigríður hefur ávallt sýnt einstakan dugnað, mikla vinnusemi og elju og er sannarlega fyrirmynd annarra sjálfboðaliða. Hún er óstöðvandi og ávallt reiðubúin að leggja sitt af mörkum. Framlag hennar hefur svo sannarlega haft góð áhrif á starfsemi Víðis og samfélagið í heild. Hún er sannarlega verðug viðurkenningar sem Sjálfboðaliði ársins.
Hér er rökstuðningur með þeim tilnefningum sem bárust:
Ástvaldur Ragnar Bjarnason
Ástvaldur er góð fyrirmynd innan og utan vallar hjá NES. Hann lenti í öðru sæti í Íslandsmótinu í Boccia í einliðaleik og varð einnig í öðru sæti í Íslandsmótinu í liðakeppni í Boccia. Ástvaldur Ragnar var einnig valinn til að spila fyrir Íslands hönd á Norðurlandamótinu í Boccia þar sem hann stóð sig með prýði. Það má með sanni segja að Ástvaldur sé góður liðsfélagi og hvatning fyrir aðra innan sem utan vallarins.
Hilda Rún Hafsteinsdóttir
Hilda Rún er bráðefnileg knattspyrnustelpa fædd árið 2009. Hilda spilar með lengjudeildarliði Keflavíkur og spilaði 16 leiki með liðinu í sumar og skoraði 1 mark. Þrátt fyrir ungan aldur er Hilda að klára sitt annað tímabil með meistaraflokki. Hilda var svo valin efnilegasti leikmaður meistaraflokks kvenna í sumarlok.
Hlynur Jóhannsson
Óhætt er að segja að Hlynur hafi átt ansi gott sumar árið 2025, hann þræddi hvert golfmótið á fætur öðru bæði innan Golfklúbbs Sandgerðis sem og öll mót á vegum landssambands eldri kylfinga. Hlynur fór einnig fyrir hönd klúbbsins og spilaði í Íslandsmóti golfklúbba bæði með A-sveit og sveit eldri kylfinga þar sem hann var einnig liðstjóri. Toppurinn á sumrinu hjá Hlyni var svo klúbbmeistaratitillinn sem hann vann annað árið í röð eftir hörkukeppni.
Orfeus Andreou
Æfir og spilar handbolta með Víði Garði. Hann er brautryðjandi og endurreisti handboltadeild Víðis og hefur drifið deildina áfram af mikilli alúð og dugnaði. Hann hefur verið meðal bestu leikmanna í deildinni og var langmarkahæstur árið 2025. Hann er mikil fyrirmynd fyrir yngri iðkendur, æfir vel og kemur alltaf vel fram.
Ólafur Darri Sigurjónsson
Ólafur Darri knattspyrnumaður úr Reyni skellti sér heldur betur í markaskóna í sumar og stóð sig frábærlega. Ólafur spilaði 21 leik með Reynismönnum í sumar og skoraði í þeim leikjum 21 mark, þokkalegt record það. Ólafur endaði sumarið sem markakóngur 3. deildar. Ólafur er ekki bara markaskorari heldur einnig frábær leiðtogi og góð fyrimynd fyrir alla yngri knattspyrnuiðkendur.
Salóme Kristín Róbertsdóttir
Salóme Kristín er knattspyrnukona sem spilar með meistaraflokki Keflavíkur. Árið 2025 var frábært ár hjá henni, hún spilaði alla leiki Keflavíkur í lengjudeildinni í sumar, var eins og klettur í hjarta varnarinnar og þrátt fyrir ungan aldur frábær leiðtogi liðsins. Salóme var valin í U19 ára landsliðið fyrir 3 verkefni árið 2025, meðal annars undankeppni fyrir EM sem haldið var í Portúgal í apríl. Salóme endaði svo knattspyrnusumarið á að vera valinn besti leikmaður meistaraflokks kvenna hjá Keflavík.
Sigríður Þórhalla Þorleifsdóttir (Sjálfboðaliði ársins)
Sigga hefur verið ómetanlegur sjálfboðaliði hjá Víði frá árinu 1998. Í gegnum árin hefur hún sinnt fjölbreyttum og krefjandi verkefnum af mikilli alúð, ábyrgð og ósérhlífni. Hún hefur lagt mikið af mörkum í Barna- og unglingaráði, foreldraráðum og einnig setið í aðalstjórn Víðis í um það bil fimm ár sem meðstjórnandi og nú sem varaformaður félagsins. Sigríður hefur ávallt sýnt einstakan dugnað, mikla vinnusemi og elju og er sannarlega fyrirmynd annarra sjálfboðaliða. Hún er óstöðvandi og ávallt reiðubúin að leggja sitt af mörkum. Framlag hennar hefur svo sannarlega haft góð áhrif á starfsemi Víðis og samfélagið í heild. Hún er sannarlega verðug viðurkenningar sem Sjálfboðaliði ársins.




