Morðið í móanum
Grípandi titill, ekki satt, sem myndi þó sóma sér betur á skáldsögu eftir Stellu Blómkvist en í stuttri aðsendri grein í bæjarblaði. En tilefnið er ærið.
Í júní sl. voru samþykktar breytingar á aðal- og deiliskipulagi á því opna, græna mólendi í kringum vatnstankinn ofan Eyjabyggðar, sem nú, allt í einu, hefur verið gefið örnefnið Aðaltorg. Eflaust hefur það einhvern tímann komið fram í aðal- og deiliskipulagsauglýsingum en hver les svoleiðis? Hvaða svæði dettur þér í hug, kæri lesandi, þegar rætt er um Aðaltorg? Væntanlega ekki mólendið í kringum vatnstankinn fyrir ofan Eyjabyggðina
Það hefur ekki verið venjan að tala um morð þegar átt er við náttúruna eða dýr en það sem hér er verið að leyfa og samþykkja er í raun ekkert annað, morð á náttúrunni og því dýralífi sem þar er að finna.
Ég ætla mér ekki að fara í efnisatriði málsins hér en bendi áhugasömum á frábæra grein mína sem birtist í 4. tölublaði Víkurfrétta og á vf.is þann 25. janúar á þessu ári sem heitir Bara mói?
Endurtek þó hér mína hörðu gagnrýni á bæjaryfirvöld, bæjarfulltrúa sem og Umhverfis- og skipulagsráð. Þetta hefði átt að vinna betur. Kjörnir fulltrúar sýndu þeim íbúum sem málið snertir fádæma vanvirðingu og dónaskap. Enginn þeirra gerði svo lítið sem að kynna sér málið og afstöðu íbúanna, efa að nokkur þeirra hafi lesið þær umsagnir sem sendar voru inn. Ekki fengu íbúarnir prinsessuviðtal í umhverfis- og skipulagsráði eins og jarlinn af Aðaltorgi.
Matsskýrslan, pöntuð af Aðaltorgi ehf., er svo kapítuli út af fyrir sig. Full af rangfærslum, blekkingum, hálfkveðnum vísum sem og ókveðnum ef það er nú hægt á annað borð, en þeim tókst það. Hvernig dettur mönnum í hug að áhrif af íbúðafjölda og byggingarmagni, sem jafnast á við lítið sveitarfélag, séu smávægileg á þá byggð sem fyrir er?
Nei sko, hvað svo?
Annar grípandi titill en í þetta skiptið eftir snillingana í Spilverki þjóðanna.
Er nema von að spurt sé. Stórvirkar vinnuvélar eru þegar mættar á svæðið og þegar búkolla sjálf er komin líka er ljóst að hér stefnir í stórframkvæmdir.
Hvað er s.s. hægt að gera þegar allir kjörnir fulltrúar, og allir meðlimir Umhverfis-og skipulagsráðs, eru hlynntir þessari framkvæmd og því miður heyrðist ekki neitt í þeim íbúum sem verða fyrir langmestum áhrifum. Held ég hafi verið eini íbúinn sem sendi inn umsögn þó að nokkrir hafi sett inn mótmæli.
Ég gerði það sem ég gat en það er erfitt að takast einn á við báknið. Ég get því lagst á koddann með mína samvisku í lagi og sofið mínum kæfisvefni í sátt við sjálfan mig. Alla vega þangað til náttúran kallar um miðja nótt.
Á meðan brosir jarlinn sínu breiðasta og allir virðast sáttir.
Að lokum þetta:
Brosið leikur breitt um kinn
breiðir yfir karlinn.
Mikinn rakar arðinn inn
Aðaltorgsins jarlinn.
Brynjar Huldu Harðarson,
Íbúi við móa, ennþá alla vega.





