Viðskipti

Arion banki og Vörður opna nýtt útibú í Reykjanesbæ í vor
Einar Hannesson mun stýra útibúi Varðar í Reykjanesbæ.
Fimmtudagur 15. janúar 2026 kl. 11:19

Arion banki og Vörður opna nýtt útibú í Reykjanesbæ í vor

Á vormánuðum 2026 opna Arion banki og Vörður nýtt útibú í Reykjanesbæ. Núverandi starfsemi Varðar í Reykjanesbæ flyst í sameiginlegt húsnæði með Arion banka sem stendur á þróunarsvæði Aðaltorgs við Reykjanesbraut. Aðgengi við Aðaltorg er einstaklega gott fyrir íbúa Suðurnesja, beint frá stofnbraut, og næg bílastæði verða fyrir utan útibúið.

Um er að ræða svokallað kjarnaútibú þar sem verður að finna fjölbreytta fjármála- og tryggingaþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Útibúið verður staðsett í þjónustukjarna á fyrstu hæð og gert er ráð fyrir að fjöldi starfsfólks verði um tólf manns til að byrja með. Ráðinn hefur verið svæðisstjóri, Einar Hannesson, og fyrir eru þrír starfsmenn Varðar í Reykjanesbæ. Störfin í Arion banka verða auglýst í janúar. 

Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs og aðstoðarbankastjóri Arion banka:
„Opnunin markar viss tímamót hjá Arion banka því að við höfum ekki opnað nýtt útibú í langan tíma, svo að þetta er virkilega spennandi verkefni. Þá er mikil gróska á þessu svæði og við viljum styðja við uppbygginguna og kröftugt atvinnulíf á svæðinu. Það eru spennandi tímar fram undan í Reykjanesbæ.“

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk
Iða Brá Benediktsdóttir framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs og aðstoðarbankastjóri Arion banka.

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Varðar:

„Við erum full tilhlökkunar fyrir opnun nýja útibúsins á Aðaltorgi við Reykjanesbraut. Vörður á sér langa sögu í Reykjanesbæ, enda höfum við verið með útibú í þessu öfluga sveitarfélagi síðan 1999. Nú færum við okkur í rýmra húsnæði með Arion banka á frábærri staðsetningu, og getum því veitt enn betri alhliða fjármálaþjónustu til íbúa Reykjanesbæjar á einum stað. Við erum til staðar fyrir Reykjanesbæ og hlökkum til að taka á móti viðskiptavinum í nýju húsnæði.“

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Varðar.

Framsókn
Framsókn