„Ég elska að byggja upp, tengjast fólki og hafa gaman í leiðinni“
Birgitta Ósk Helga Birgisdóttir er FKA Suðurnes kona mánaðarins í Víkurfréttum
Nafn: Birgitta Ósk Helga Birgisdóttir
Aldur: 50 ára
Menntun: Sveinn í hársnyrtiiðn (hefur þó starfað lítið við það)
Starf: Meðeigandi Bústoðar og Snúrunnar – sér um verslunina í Garðabæ, vefverslun, samfélagsmiðla og auglýsingar
Búseta: Ytri Njarðvík / Reykjanesbær (síðan febrúar 2020)
Maður: Guttormur Pálsson húsasmíðameistari.
Börn: Valmar (29), Andrea (26), Patrekur (24), Páll (19).
Áhugamál: Golf, ferðalög, laxveiði (sérstaklega í Jöklu), fjölskyldutími og austurfötin.
Birgitta Ósk Helga Birgisdóttir er 50 ára og einn af eigendum Bústoðar og Snúrunnar. Hún er með ræturnar sínar á Borgarfirði eystra en hefur búið í Ytri Njarðvík (Reykjanesbæ) síðan í febrúar 2020. Birgitta sér um verslunina í Garðabæ, heldur utan um vefverslun, samfélagsmiðla og auglýsingar og er ein af þeim konum sem nýta kraft, forvitni og tengslanet til að skapa skemmtilegt og sterkt atvinnulíf – bæði á Suðurnesjum og út fyrir þau.
Hver er Birgitta Ósk?
Ég er Birgitta Ósk Helga Birgisdóttir, 50 ára. Ég er uppalin á Borgarfirði Eystri og er elst af fjórum systkinum. Það voru algjör forréttindi að alast þar upp. Ég er líka fjölskyldumanneskja – gift Guttormi Pálssyni sem er húsasmíðameistari frá Egilsstöðum og við eigum fjögur börn: Valmar 29 ára, Andreu 26 ára, Patrek 24 ára og Pál 19 ára.
Hvað starfar þú við í dag – og hvar?
Ég er ein af eigendum Bústoðar og Snúrunnar. Ég sé um verslunina okkar í Garðabæ og sinni líka vefverslun, samfélagsmiðlum og auglýsingagerð.
Hvernig byrjaði þetta ferðalag hjá Bústoð?
Ég byrjaði að vinna hjá Bústoð vorið 2023, þegar fyrirtækið var þá nýkomið með nýja eigendur. Svo kom ég inn sem meðeigandi ári seinna. Bústoð sem allir á Suðurnesjum þekkja er 50 ára og var rekin af sömu fjölskyldunni í 48 ár – rótgróin húsgagnaverslun sem margir kannast við.
Þið opnuðuð útibú í Garðabæ – hvað breyttist með því?
Við opnuðum útibú í Garðabæ um haustið 2024. Ég er verslunarstjóri þar og „keyri brautina góðu“ á hverjum degi. Við höfum fengið frábærar viðtökur og það hefur verið mikið að gera – verslunin er líka á rosalega góðum stað.
Og svo bættist Snúran við – segðu okkur frá því.
Já, í vor keyptum við Snúruna og bættum henni við hjá okkur. Svo nú rekum við tvær verslanir undir sama þaki, bæði í Garðabæ og Keflavík. Með Snúrunni fengum við geggjaða viðbót af gjafavöru og dásamleg merki sem við erum með einkarétt á hér á landi. Snúran er líka með flotta vefverslun sem við erum alltaf að vinna í og bæta við.

Hvað er fram undan hjá ykkur – eitthvað spennandi á nýju ári?
Já, alveg klárt. Á nýju ári stefnum við á að bæta við nýjum og flottum vörum bæði í Snúruna og Bústoð. Við erum stöðugt að þróa vefverslunina og vera dugleg að koma með ferskar vörur og góða upplifun.
Menntunin þín er hársnyrtiiðn – hvernig tengist það því sem þú gerir í dag?
Ég er sveinn í hársnyrtiiðn, en hef nú minnst starfað við það. En ég held samt að allt sem maður lærir nýtist: þjónusta, smekkvísi, samskipti og að ná tengingu við fólk – það fer alveg með manni í rekstur og verslun.
Segðu aðeins frá uppvextinum á Borgarfirði eystri.
Pabbi minn var framkvæmdastjóri Álfasteins alla mína æsku og líf okkar fjölskyldunnar snerist bókstaflega um steina og grjót. Við eyddum líka ófáum stundum í fjallaferðum með mömmu og pabba. Ég reyni að fara austur eins oft og ég get – helst á Borgarfjörð til mömmu – og svo elska ég líka að vera á Egilsstöðum hjá systkinum mínum og öðrum ættingjum.
Hvernig var skólagangan þín?
Ég var í grunnskóla á Borgarfirði, fór síðan í Alþýðuskólann á Eiðum, svo í Menntaskólann á Egilsstöðum og svo iðnskólann í Reykjavík.
Þið hafið verið dugleg að „bralla“ saman, þú og Guttormur. Hvað hafið þið gert?
Við höfum brallað ýmislegt saman. Við höfum búið í Hafnarfirði, á Egilsstöðum og núna í Reykjanesbæ / Ytri Njarðvík. Við höfum rekið gistihús á Egilsstöðum, byggt hús, gert upp íbúðir og selt. Við ákváðum að flytja suður þar sem maðurinn minn var að byggja hér og það var nóg að gera.
Þú opnaðir eigin verslun – hvernig var sagan þar?
Ég opnaði verslun á Egilsstöðum 2017 sem hét Verzlunarfélagið og rak hana þar alveg þar til við fluttum á Suðurnesin árið 2020. Þá tók ég búðina með mér og opnaði hana á Hafnargötunni og rak hana þar í 3 ár. Ég átti góðan tíma á Hafnargötunni.
Þú fórst líka í miðbæjarmál – hvað kom til?
Ég fór strax að starfa fyrir miðbæjarsamtökin Betri Bær og fór í stjórn þar. Í gegnum Betri Bæ kynntist ég fullt af góðu og skemmtilegu fólki. Þar sem ég þekkti kannski fjóra í bænum þegar við fluttum hingað, þá er algjör snilld að henda sér í svona félagasamtök til að kynnast fólki – og sérstaklega frábært að fara inn í FKA

Hversu lengi hefur þú búið á Suðurnesjum?
Við höfum búið í Njarðvík síðan í febrúar 2020. Við náðum að flytja svona rétt fyrir Covid.
Hverjir eru kostirnir við að búa á Suðurnesjum?
Hvað það er stutt til útlanda… nei djók! En jú, það er bara mjög gott hérna. Fólkið er frábært og við vorum strax velkomin í bæjarfélagið. Svo eru góðir golfvellir – en það mætti alveg vera aðeins meira af logni. Að flytja frá Egilsstöðum á Suðurnesin krafðist jákvæðni gagnvart veðurfari… hahaha.
Hvernig líst þér á FKA Suðurnes?
FKA er dásamlegt félag og það er alltaf gaman að fara á fundi og á hittinga. Það er eitthvað við að hitta frábærar konur og næra sál og líkama með gleði og hlátri.
Hvað varð til þess að þú skráðir þig í FKA?
Ég gekk í félagið stuttu eftir að ég flutti suður og meðan ég rak Verzlunarfélagið. Eftir að ég lokaði búðinni hætti ég í félaginu – en ég saknaði þess alltaf. Eftir að ég byrjaði aftur í fyrirtækjarekstri skráði ég mig fljótt aftur í félagið.
Hvað finnst þér FKA gera fyrir þig?
Ég hef kynnst frábærum konum sem ég hefði aldrei kynnst ef ekki væri fyrir þennan félagsskap. Það er svo dýrmætt að mynda gott tengslanet – bæði fyrir þig sjálfa og fyrirtækið. Mig langar að vera miklu duglegri að sækja það sem er í boði og ég þarf endilega að koma mér inn í golfið með þeim, ég held að það sé stuð!
Þegar þú ert ekki að vinna – hvað finnst þér skemmtilegast að gera?
Aðaláhugamálið mitt, annað en vinnan, er golf. Það er ekkert betra en að spila með góðum vinum og fjölskyldunni. Við eigum ófáar góðar samverustundir – ég, maðurinn minn og yngsta barnið spila líka mikið með okkur. Svo finnst okkur ekkert leiðinlegt að skreppa í eina góða laxveiði, sérstaklega austur í Jöklu. Ég elska líka að ferðast – spila golf, en líka að skoða nýja og spennandi staði.
Hvað er á döfinni hjá þér næst?
Það sem er á döfinni hjá mér á næstunni er að skreppa á sýningu til Parísar í janúar. Svo förum við að sjálfsögðu austur á Borgarfjörð á þorrablót – það er alveg nauðsynlegt að komast á alvöru gamaldags sveitaþorrablót og hlæja með fjölskyldu og sveitungum.
Að lokum – ert þú með heilræði til kvenna á Suðurnesjum?
Ekki hika við að koma í FKA, alveg óháð því hvað þið eruð að gera. Mér fannst fyrst að ég ætti bara erindi þangað sem fyrirtækjaeigandi – en hafði rangt fyrir mér. Félagið er fyrir allar konur, hvað sem þær eru að gera í atvinnulífinu.
Lokaorð
„Elsku FKA-konur, gleðilega hátíð og takk fyrir liðið ár. Hlakka til að gera svo miklu meira með ykkur á nýju ári. Ást og friður.“




