Keflavík í Ísbílnum
Keflvíkingurinn Guðjón Kjartansson ásamt konu sinni, Tinnu Lyngberg Andrésdóttur, keyptu í félagi með Ragnari Guðmundssyni og Svanhildi Ö. Magnúsdóttur rekstur Ísbílsins sem margir þekkja af bjölluhljómnum.
Guðjón segir í samtali við Viðskiptablaðið að bílar á vegum fyrirtækisins hafi undanfarna daga verið á ferð um landsbyggðina að selja ís til ungra sem aldna.
„Við erum með fimm bíla úti á landi en það er ákveðin hefð hjá okkur að selja ís á landsbyggðinni fyrir jólin. Bílarnir hafa verið á Vestfjörðum, Skagafirði, Borgarfirði, Reykjanesi og á Suðurlandi í kringum Hvolsvöll frá því um miðjan desember.“
Guðjón segir að rekstur Ísbílsins sé í raun tvíþættur því hann sé einnig notaður í fleiri tegundir matvæla.
„Það er Ísbíllinn eins og við borgarbörnin þekkjum hann, þar sem bjöllunni er hringt og fólk stekkur út og kaupir íspinna fyrir sig og börnin. Svo er Ísbíllinn líka þjónustufyrirtæki fyrir bændur og minni byggðir úti á landi þar sem við seljum ís og önnur frosin matvæli eins og fisk, kjöt og rækjur.“
Á bakvið Ísbílinn eru 14 bílar sem fara um landið. Guðjón segir að Ísbíllinn, sé því í raun nærri því að vera matvöruverslun á hjólum þegar kemur að landsbyggðarstarfseminni. Þá selji Ísbíllinn einnig ístegundir sem fást hvergi annars staðar, bæði úr bílnum og í gegnum netverslun.
„Fyrsta verkefnið okkar var í kringum verslunarmannahelgina og svo höfum við verið að vinna í því að koma fyrirtækinu á nýjan stað, læra inn á reksturinn, ráða inn fólk og undirbúa okkur eins vel og við getum fyrir næsta sumar,“ segir Guðjón í viðtalinu við Viðskiptablaðið.




