Átak hafið gegn óleyfilegri búsetu í Reykjanesbæ
Reykjanesbær hefur nú hafið sérstakt átak sem miðar að því að draga úr óleyfilegri búsetu í sveitarfélaginu en samhliða örri íbúaþróun í Reykjanesbæ hefur komið í ljós að hluti íbúa býr í húsnæði sem ekki er heimilt að nýta til búsetu samkvæmt gildandi lögum og reglum.
Upplýsingar um nákvæman fjölda einstaklinga sem búa í húsnæði sem ekki uppfyllir kröfur mannvirkjalaga liggja ekki fyrir að sögn Guðlaugs H. Sigurjónssonar, sviðsstjóra Umhverfis- og framkvæmdasviðs Reykjanesbæjar.
Talið er þó að töluverður fjöldi íbúa búi í atvinnu- eða iðnaðarhúsnæði, eða í húsnæði sem ekki hefur hlotið lögbundna öryggisúttekt. Búseta í slíku húsnæði er óheimil. Húsnæði sem ekki er ætlað til íbúðar eða hefur ekki verið metið með tilliti til öryggis getur verið ábótavant hvað varðar meðal annars brunavarnir, aðgengi að öruggum flóttaleiðum og aðrar grundvallarkröfur um öryggi.
Áhersla er lögð á öryggi íbúa og að húsnæði sé nýtt í samræmi við lög og reglur. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi starfsfólks Reykjanesbæjar, Brunavarna Suðurnesja og Lögreglunnar á Suðurnesjum.
„Markmið átaksins er að tryggja að allt húsnæði sem notað er til búsetu uppfylli viðeigandi kröfur laga og reglugerða og að aðstæður íbúa séu öruggar og viðunandi.
Íbúar sem vita af eða hafa ástæðu til að ætla að fólk búi við óviðunandi eða ólöglegar húsnæðisaðstæður eru hvattir til að senda ábendingu,“ segir Guðlaugur en ábendingar eru nýttar til að meta hvort tilefni sé til frekari skoðunar á aðstæðum. Ábendingar má senda í ábendingargátt Reykjanesbæjar.





