Viðreisn 2026
Viðreisn 2026

Aðsent

Það er enginn  bæjarbragur án íþrótta
Laugardagur 17. janúar 2026 kl. 06:15

Það er enginn bæjarbragur án íþrótta

Reykjanesbær er íþróttastórveldi og reynslan sýnir með óyggjandi hætti hversu mikill ávinningur felst í öflugu íþrótta- og tómstundastarfi. Íþróttir, líkt og annað menningar- og tómstundastarf, skapa félagsleg tengsl sem styrkja einstaklinga, efla sjálfstraust og stuðla að virkri þátttöku í samfélaginu. Þar liggja einnig sterk forvarnaráhrif sem skipta sköpum fyrir heilsu, líðan og framtíð barna og ungmenna.

Þótt íþróttastarf sé ekki lögbundið hlutverk sveitarfélaga er það augljóslega nauðsynlegur hluti af heilbrigðu samfélagi. Öflugt íþróttalíf skapar velferð, eykur samfélagslegan kraft og byggir upp samstöðu og stolta bæjarbúa. Þetta er fjárfesting sem skilar sér margfalt, bæði félagslega og fjárhagslega, til lengri tíma.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Í því samhengi er rétt að horfast í augu við staðreyndir. Útgjöld Reykjanesbæjar til íþrótta- og tómstundamála eru mun lægri en hjá mörgum sambærilegum sveitarfélögum. Það eitt og sér skýrir hluta af þeim vanda sem blasir við: há æfingagjöld, þröng rekstrarskilyrði félaganna og aukið álag á sjálfboðaliða.

Grunnforsenda þess að ávinningur íþróttastarfs náist fram er að öll börn, óháð efnahag, hafi jafnt aðgengi að íþróttum. Aðgengi barna ræðst meðal annars af framboði íþróttastarfs, samgöngum, íþróttamannvirkjum og skipulagi. En það er engum blöðum um það að fletta að æfingagjöld og annar kostnaður vega þar þyngst. Fyrir of margar fjölskyldur er kostnaðurinn orðinn raunveruleg hindrun.

Íþróttafélögin í Reykjanesbæ sinna gríðarlega mikilvægu hlutverki af mikilli ábyrgð og eldmóði. En þau geta ekki borið þetta hlutverk ein og sér. Þau þurfa raunverulegan stuðning frá sveitarfélaginu til að halda niðri kostnaði, byggja upp starfsemi og tryggja gæði til framtíðar. Í samtölum mínum við fólk úr íþróttahreyfingunni hefur borið reglulega á góma að samvinna og samstarf af hálfu bæjaryfirvalda sé verulega ábótavant. Þessu þarf að breyta núna strax, óháð hver er í meirihluta bæjarstjórnar.

Það er brýnt að íþróttafélögin og Reykjanesbær vinni saman markvisst að því að létta byrðar af fjölskyldum, styrkja rekstrarumhverfi félaganna og tryggja að íþróttir séu raunverulega fyrir alla.

Með ábyrgari rekstri bæjarins og öflugra atvinnulífi getur Reykjanesbær komið af meiri krafti að uppbyggingu íþróttastarfs. Sameinumst um raunhæfar lausnir, stöndum vörð um jöfn tækifæri og gerum góðan bæ enn betri.

Vilhjálmur Árnason

Frambjóðandi í leiðtoga-
prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ sem fer
fram 31. janúar.

Framsókn
Framsókn