Þriðjudagur 20. janúar 2026 kl. 11:10

Járngerður 14. fundur 19. janúar 2026: Stór íbúafundur í bígerð

Á 14. upplýsingafundi Járngerðar á Teams mánudaginn 19. janúar 2026 kom fram að unnið sé að því að boða til stórs íbúafundar þar sem „spilin verða lögð á borðið“ um næstu skref í uppbyggingu Grindavíkur. Þar er gert ráð fyrir að bæjarstjórn taki þátt og að Þórkatla komi með og kynni áætlun sína, eftir því sem unnt er.

Guðbjörg Eyjólfsdóttir hjá Járngerði sagði að undirbúningur fundarins væri í gangi og að þrýstingur væri mikill á að íbúar fái að sjá plan Þórkötlu. „Við bindum vonir við það að Þórkatla komi bara með okkur á þennan fund og segi frá því helsta,“ sagði hún.

Örn Viðar Skúlason frá Þórkötlu sagði að vinnan snerist nú að stórum hluta um útfærslu og lagatæknileg atriði, sem væru helsta ástæða þess að ekki væri hægt að kynna áætlunina formlega strax. Hann sagði stefnt að því að vera með „betri mynd“ á þessum flækjum innan næstu tveggja vikna, en þorði ekki að fullyrða um endanlega tímasetningu.

Sólveig Þorvaldsdóttir frá Háskóla Íslands hvatti til þess að haldið yrði betur utan um lærdóm og hindranir, sérstaklega „tæknilegar“ og lagalegar skýringar á því af hverju ferlið tekur langan tíma, svo hægt verði að bregðast hraðar við ef sambærileg staða kemur upp aftur. Guðbjörg sagði í framhaldinu að slíkt myndi að sjálfsögðu gagnast, enda væri líklegt að annað sveitarfélag upplifði sambærilega stöðu síðar meir.

Þá kom fram á fundinum að Grindavíkurbær hafi gengið frá samningi um ráðgjöf við almannatengsl sem gildir út kjörtímabilið.