Viðreisn 2026
Viðreisn 2026

Aðsent

Meirihlutinn virðir ekki vilja íbúa – eigum við flest að búa í blokk?
Miðvikudagur 21. janúar 2026 kl. 09:59

Meirihlutinn virðir ekki vilja íbúa – eigum við flest að búa í blokk?

Framtíðarhúsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2026–2035 var til fyrri umræðu í bæjarstjórn 20. janúar 2026 og lögðust Sjálfstæðisflokkur og Umbót gegn húsnæðisáætlun meirihlutans og greiddu atkvæði á móti.

Hún sýnir svart á hvítu að meirihluti Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar hefur engan áhuga á að hlusta á íbúa bæjarins og heldur áfram á sömu einstrengingslegu braut og hingað til.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Meirihlutinn boðar enn einhæfa uppbyggingu þar sem 86% allrar uppbyggingar til næstu tíu ára er fjölbýli, eða um 2.700 íbúðir. Á sama tíma eru einungis um 450 íbúðir í sérbýli, þ.e. einbýli, parhús, raðhús og tvíbýli, áætlaðar fyrir bæ með rúmlega 22.500 íbúa. Þetta er ekki húsnæðisstefna, þetta eru pólitískar kreddur sem þjóna ekki fjölbreyttum þörfum fólksins sem hér býr.

Samanburður við sams konar sveitarfélög undirstrikar þetta:

  • Árborg, með helmingi færri íbúa, áætlar rúmlega 1.000 sérbýli.

  • Ölfus, með aðeins 2.800 íbúa, áætlar um 650 sérbýli.

Meirihlutinn í Reykjanesbæ velur hins vegar að þrengja valmöguleika íbúa og keyra áfram nálgun sem er mótuð ofan frá og niður (e. top-down), án þess að taka mið af raunverulegum þörfum þeirra sem hér búa.

Niðurstöður könnunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ríkisins frá því í desember 2025 segja sína sögu:

  • 42% íbúa kjósa sérbýli (einbýli, par-, raðhús),

  • 22% kjósa tví-, þrí- eða fjórbýli,

  • Aðeins 34% vilja búa í fjölbýli.

Þrátt fyrir þessar óyggjandi staðreyndir kýs meirihlutinn að hunsa vilja íbúa og halda sig við stefnu sem gengur þvert á óskir og þarfir bæjarbúa.

Í fundargerð Umhverfis- og skipulagsráðs sem lá fyrir á sama bæjarstjórnarfundi viðurkennir meirihlutinn þetta sjálfur en þar segir í bókun þeirra: „Eftirspurn eftir einbýlis- og parhúsalóðum í Reykjanesbæ hefur aukist á undanförnum árum…“

Ef eftirspurn eftir sérbýli er þetta mikil; hvers vegna eru þá 86% framtíðaráætlunar meirihlutans fjölbýli?

Svarið er því miður einfalt: Þetta er pólitísk þvermóðska, ekki þjónusta við íbúa.

Reykjanesbær á að þróast á forsendum fólksins sem hér býr — ekki á kreddum meirihlutans. Það er löngu tímabært að meirihlutinn hætti að tala við sjálfan sig og fari að hlusta á vilja íbúanna. Er það virkilega til of mikils mælst?

Margrét Sanders
oddviti Sjálfstæðisflokksins

Krabbamfél Suð
Krabbamfél Suð