Svartsengi risið um tæpan metra
Kvikusöfnun undir Svartsengi er hæg en stöðug, líkt og hún hefur verið síðustu vikurnar. Samkvæmt líkanreikningum hafa nú tæplega 20 milljónir rúmmetra af kviku safnast fyrir undir Svartsengi frá síðasta eldgosi í júlí. Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofu Íslands.
Á meðan kvikusöfnun heldur áfram og þrýstingur í kerfinu hækkar er kvikuhlaup úr Svartsengi og eldgos á Sundhnúksgígaröðinni líklegasta sviðsmyndin næstu vikurnar. Ef gýs, þá er líklegast að það verði sambærilegt atburðunum sem hafa orðið hingað til á Sundhnúksgígaröðinni.
Þegar litið er til baka frá upphafi kvikusöfnunar undir Svartsengi í nóvember 2023 þá hefur land risið um tæpan 1 metra samtals. Hraði landriss var mestur í upphafi en hefur dregist saman hægt og rólega með hverjum atburði.
Skjálftavirkni
Skjálftavirkni síðustu vikur hefur verið nokkuð stöðug og hafa skjálftar aðallega verið að mælast milli á milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells, suður af Þorbirni og á Víkum. Skjálftarnir eru flestir undir M1,5 að stærð. Skjálftavirknin á Víkum er túlkuð sem gikkskjálftar vegna spennubreytinga á svæðinu. Áfram dregur úr virkni við Kleifarvatn.
Hættumat
Hættumat Veðurstofunnar er áfram óbreytt og gildir til 3.febrúar. Veðurstofan heldur áfram að fylgjast náið með þróuninni og uppfærir hættumatið ef breytingar verða á virkninni.








