Arion
Arion

Fréttir

ÍAV byggir 500 metra brimvarnargarð í Njarðvíkurhöfn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 20. janúar 2026 kl. 11:03

ÍAV byggir 500 metra brimvarnargarð í Njarðvíkurhöfn

Íslenskir aðalverktakar hf. munu sjá um uppbyggingu á tæplega 500 metra löngum brimvarnargarði á suðursvæði Njarðvíkurhafnar en samningur um verkið var undirritaður síðasta föstudag af forráðamönnum ÍAV og Reykjaneshafnar.

Á 303. fundi atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar sem fram fór 11. desember sl. var samþykkt að taka tilboði Íslenskra aðalverktaka í byggingu á 470 metra löngum brimvarnargarði sunnan við Njarðvíkurhöfn. Þessi samþykkt var síðan staðfest á 709. fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem fram fór þann 16. desember.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Þessi brimvarnargarður verður byggður til að mynda skjól fyrir núverandi hafnarmannvirki. Er þetta annar áfangi af tveimur í endurbótum á hafnaraðstöðu Njarðvíkurhafnar, en fyrri áfanginn fólst í að dýpa innsiglingu hafnarinnar og innan hafnarsvæðis. Þeim áfanga lauk á haustmánuðum 2025 en framkvæmdatími þess áfanga var um 16 mánuðir með hléum. Framkvæmdatími núverandi áfanga er áætlaður 18 mánuðir en gæti orðið mun styttri. Þegar honum lýkur mun Njarðvíkurhöfn verða ein af skjólbetri höfnum landsins með öruggri innsiglingu í hvaða veðrum sem er.

Breyttar hafnaraðstæður í Njarðvíkurhöfn bæta aðstöðu til uppbyggingar á ýmiss konar hafntengdri starfsemi þar í framtíðinni. Þar hefur m.a. verið nefnd uppbygging í tengslum við Skipasmíðastöð Njarðvíkur og aðstaða fyrir skipastól Landhelgisgæslu Íslands. Uppbygging og endurbætur á Njarðvíkurhöfn er í samræmi við útgefna framtíðarsýn Reykjaneshafnar en þar er stefnt að Njarðvíkurhöfn verði aðalfiskiskipa- og þjónustuhöfn hafnarinnar í framtíðinni.

mynd:
Frá undirskrift samnings um byggingu brimvarnargarðsins í Njarðvík. VF/pket.