Halldóra vill áfram leiða Framsókn
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ hefur ákveðið að gefa kost á sér að leiða flokkinn í næstu sveitarstjórnarkosningum. Hún hefur verið í framlínu bæjarfélagsins á kjörtímabilinu, sem formaður bæjarráðs og um tíma starfandi bæjarstjóri. Framsókn mun verða með rafrænt prófkjör 7. febrúar nk.
Halldóra sendi frá sér tilkynningu í morgun sem er eftirfarandi:
Ég er tilbúin að halda áfram að leiða uppbyggingu Reykjanesbæjar
Kæru vinir
Það hefur verið mikill heiður að starfa fyrir íbúa Reykjanesbæjar undanfarin ár. Í því hlutverki hef ég kynnst krafti samfélagsins okkar og séð hvað við getum gert þegar við stöndum saman með traust, samvinnu og skýra sýn í fararbroddi. Framtíð Reykjanesbæjar er björt, en hún kallar á reynslu, ábyrgð og óþreytandi vinnu.
Reykjanesbær hefur vaxið hratt og staðið frammi fyrir stórum og oft krefjandi verkefnum, en við höfum tekist á við þau saman. Með ábyrgri fjármálastjórn höfum við styrkt fjárhag sveitarfélagsins, eflt grunnþjónustu og ráðist í mikla uppbyggingu innviða sem skilar sér beint til íbúa. Enn er þó mikið verk fyrir höndum.
Fram undan eru mikilvæg verkefni sem hafa verið í undirbúningi og snerta daglegt líf okkar íbúa sem við verðum að tryggja að haldi áfram. Þau eru meðal annars: uppbygging íþróttamannvirkja, þróun Akademíureitsins og annarra spennandi svæða, bætt umferðarflæði og öryggi auk öflugrar atvinnuuppbyggingar sem skapar hundruð nýrra starfa. Aukin áhersla hefur verið lögð á stuðning við íþrótta- og tómstundastarf og nú er mikilvægt að halda þeirri vegferð áfram í nánu samstarfi við íþróttahreyfinguna.
Í samtölum mínum við íbúa finn ég skýrt hversu miklu máli skiptir að sveitarfélagið sé traust, framsýnt og mannlegt – staður þar sem fjölskyldur vilja búa, ala upp börnin sín og byggja örugga framtíð.
Með það að leiðarljósi hef ég ákveðið að gefa kost á mér til að leiða lista Framsóknar í Reykjanesbæ áfram á næsta kjörtímabili. Ég geri það af þakklæti fyrir traustið sem mér hefur verið sýnt, af stolti yfir því sem við höfum áorkað saman og af einlægum vilja til að halda áfram að byggja upp sterkt samfélag.
Rafrænt prófkjör Framsóknar í Reykjanesbæ fer fram laugardaginn 7. febrúar nk. Hægt er að skrá sig til þátttöku fyrir 31. janúar á https://framsokn.is/ganga-i-flokkinn/. Stuðningur ykkar og þátttaka skipta öllu máli.
Ég vona að ég njóti áfram trausts ykkar og óska eftir stuðningi svo við getum haldið áfram að styrkja samfélagið okkar – saman.
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir,
oddviti Framsóknar og formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar



