Þrítugur Sandgerðingur ánægður með Bústoðar-hægindastólinn úr Jólalukkunni
Magnús Jens Sigurjónsson, þrítugur Sandgerðingur, tyllti sér í glæsilegan leðurhægindastól frá Bústoð sem hann vann í Jólalukku VF en stóllinn var stærsti vinningurinn í leiknum og var dreginn út á aðfangadag.
„Ég er búinn að finna stað fyrir hann,“ sagði Magnús þegar hann tyllti sér í koníaksbrúna vinningsstólinn í verslun Bústoðar í Keflavík núna eftir jólin. Magnús hafði heppnina með sér í þriðja útdrætti Jólalukku VF.
Magnús, sem býr í foreldrahúsum nú tímabundið, segir að stóllinn, sem er að verðmæti 230 þús. kr., muni sóma sér vel í nýrri íbúð sem hann stefnir að því að kaupa en Sigurjón faðir hans lét hann hafa Jólalukkumiða sem hann hafði fengið eftir jólainnkaup í Úra- og skartgripaverslun Georgs V. Hannah fyrir jólin. „Ég skrifaði nafnið mitt á miðana og fór með þá í Nettó í Krossmóa. Mér til mikillar ánægju sá ég svo nafnið mitt á vf.is. Það var gaman því ég man ekki eftir að hafa unnið neitt í einhverju happdrætti áður,“ segir Magnús.
Góður gangur í Bústoð
Björgvin Árnason, eigandi Bústoðar, sagði eftir að hafa afhent vinningsstólinn að jólaverslun hafi verið mjög góð. Aðspurður um hvort hann hafi orðið var við einhverjar breytingar í húsgagnaverslun segir hann að tau-efni sé að koma sterkara inn og hafi verið vinsælla en leðrið í sófum og sófasettum á síðasta ári. „Við erum mjög sátt með gang mála. Það hefur komið skemmtilega á óvart að sjá meiri áhuga yngra fólks á dönsku hönnunarvörunum m.a. frá Design By Us og Dottir, sem við höfum boðið upp á. Þá er ekki langt síðan við tókum við Snúrunni en undir hennar merkjum erum við með mikið af vinsælum gjafavörum. Móttökurnar hafa verið frábærar. Við sáum möguleika á Suðurnesjum í því að bjóða upp á meira úrval af vandaðri gjafavöru og það hefur gengið eftir sem er mjög ánægjulegt,“ segir Björgvin en fyrir tveimur árum færði Bústoð líka út kvíarnar og opnaði aðra verslun undir sama nafni í Garðabæ.
Hvernig hefur það gengið?
„Það hefur gengið ótrúlega vel. Markaðurinn er augljóslega mun stærri, allt höfuðborgarsvæðið undir og að mörgu leyti öðruvísi en Suðurnesin sem þó hafa stækkað mikið á undanförnum áratug. Við töldum okkur geta unnið okkur pláss á stærri markaði og það hefur gerst. Þetta hefur komið mjög vel út. Við náum ákveðinni hagræðingu í rekstri og innkaupum og höfum stækkað markaðshópinn mjög mikið,“ segir Björgvin.
Feðgarnir Sigurjón og Magnús voru sælir með nýja stólinn.






