Aukatónleikar með Magga Kjartans á trúnó
Vegna mikillar eftirspurnar og þar sem tónleikarnir sem fara fram 5. febrúar seldust upp á örskotsstundu hefur verið ákveðið að bæta við aukatónleikum með Magga Kjartans á trúnó í Bergi í Hljómahöll þann 26. febrúar og er miðasala hafin.
„Það er Hljómahöll sannur heiður að segja frá því að Maggi Kjartans kemur fram á trúnó-tónleikaröðinni í Hljómahöll en þetta verður í fyrsta sinn sem Maggi kemur fram á tónleikaröðinni,“ segir í tilkynningu frá Hljómahöll.
Magnús Jón Kjartansson er einn af áhrifamestu tónlistarmönnum íslenskrar tónlistarsögu frá upphafi. Ferill hans spannar meira en fimm áratugi. Magnús, sem fæddist í Keflavík þann 6. júlí 1951, hóf tónlistarferil sinn þegar stofnuð var drengjalúðrasveit við barnaskólann í Keflavík. Þar lék hann á trompet fyrst hjá lúðrasveitinni en síðan í Tónlistarskólanum í Keflavík. Magnús var aðeins 15 ára gamall, þegar hann fór að leika með hljómsveitum í klúbbunum á Keflavíkurflugvelli. Magnús stofnaði hljómsveitina Júdas með Finnboga bróður sínum og tveimur öðrum og lék með fjölda annarra hljómsveita svo sem Trúbrot, Brunaliðinu, Óðmönnum, HLH-flokknum o.fl. Magnús hefur verið einn afkastamesti hljóðvers tónlistarmaður landsins, stjórnað upptökum og útsett og samið tónlist fyrir eigin hljómsveitir og aðra flytjendur. Magnús hefur komið að vinnslu fjölmargra hljómplatna, þar á meðal eru sólóplötur Vilhjálms Vilhjálmssonar og margra annarra. Hann hefur starfrækt eigið hljóðver, stjórnað kórum m.a. Flugfreyjukórnum og Sönghóp Suðurnesja, samið þekkt lög, auglýsingastef og tónlist fyrir sjónvarpsþætti og kvikmyndir. Árið 2023 hlaut hann Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, fyrir framlag sitt til dægurtónlistar og tónlistarlífs samfélagsins.
Tónleikaröðin „trúnó” hefur slegið í gegn í Hljómahöll undanfarin misseri. Hugmyndin er að tjalda öllu til og bjóða upp á stórtónleika en halda þá í Bergi í Hljómahöll sem tekur aðeins um 100 gesti. Listamenn sem vanir eru að spila fyrir talsvert stærri hóp áhorfenda stíga þar á svið í nálægð við færri gesti en vanalega.
Húsið opnar kl. 19:00 og tónleikarnir hefjast kl. 20:00. Takmarkaður fjöldi miða í boði.





