Móeiður með The End of the Tunnels
Söngkonan landsþekkta Móeiður Júníusdóttir eða Móa sendir frá sér nýtt lag. Í laginu sameinar hún krafta sína á ný með lagahöfundinum Gunnari Inga Guðmundssyni og Bjarka Jónssyni sem vann með henni að sólóplötu hennar sem kom út hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Tommy Boy Records rétt fyrir aldamótin 2000.
Útkoman er lagið „The End of the Tunnels“ sem ber með sér keim af nostalgísku rafpoppi í hljóðheimi en andlegum undirtón í textasmíð Móu.
Upptökustjórn var í höndum Stefáns Arnar Gunnlaugssonar.
Gunnar Ingi segir samstarfið hafa gengið mjög vel.
„Þetta hófst allt saman árið 2024 þegar Ég hafði samband við Móeiði í gegnum Facebook-skilaboð og spurði hvort hún vildi vinna með mér að lagi sem ég var þá með í vinnslu og sem var lagið Crazy Lover sem fékk góða spilun á Rás 2 en í þessu nýja lagi, sem ber heitið The End of the Tunnels, kveður á við nýjan tón. Við fórum með þetta lag í hraðari tempo og útfærðum hljóðheim lagsins meira út í retro og er útkoman elektrónískt danslag í retro-stíl í anda Yazoo og Dephence Mode, sem er mjög skemmtilegt,“ segir Gunnar Ingi.
Lagið er nú aðgengilegt á helstu streymisveitum Apple music, Tidal og Spotify.




