Viðreisn 2026
Viðreisn 2026

Mannlíf

„Við erum ekki að hætta“ - Freyjukonur eru menn ársins 2025 - viðtal og video
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 15. janúar 2026 kl. 12:27

„Við erum ekki að hætta“ - Freyjukonur eru menn ársins 2025 - viðtal og video

Lionskonur í Lionsklúbbnum Freyju eru Suðurnesjamenn ársins 2025 en þær hafa undanfarna áratugi unnið ómetanlegt starf í líknar- og samfélagsmálum á Suðurnesjum. Þær hafa styrkt fólk, félög og málefni og síðast núna fyrir jól seldu þær sælgætiskransa fyrir rúmar fimm milljónir króna. Freyjukonur eru flestar komnar vel á aldur og þó meðalaldurinn sé rúmlega sjötíu ár eru þær frískar og fjörugar og njóta starfsins og samverunnar í Freyju.

Sjálfboðaliðar eru hópur fólks sem er á undanhaldi og æ erfiðara er að fá fólk til starfa á vettvangi sjálfboðaliða í félögum ýmiss konar. Í Lionsklúbbnum Freyju í Keflavík starfa fjölmargar konur sem eru komnar af léttasta skeiði. Þær hittast oft yfir vetrarmánuðina, funda einu sinni í mánuði og láta gott af sér leiða. Nú fyrir jólin fjáröfluðu þær með því að selja sælgætiskransa sem þær settu saman sjálfar. Afraksturinn var yfir fimm milljónir króna. Þegar kostnaður hefur verið greiddur fer hver einasta króna sem eftir stendur til líknarmála í nærsamfélaginu á Suðurnesjum.

Framsókn
Framsókn

Þetta er í fyrsta sinn sem heill Lionsklúbbur fær útnefninguna en nokkrum sinnum hafa félög og hópar fengið þessa viðurkenningu og einu sinni áhöfn fiskiskips .

Við settumst niður með þremur Lionskonum úr fjáröflunarnefnd klúbbsins, þeim Gunnþórunni Gunnarsdóttur, Eydísi Eyjólfsdóttur og Gunnlaugu Eyfells Árnadóttur og ræddum við þær um starfið í klúbbnum og hvað starfið er að gefa þeim.

Hvað er það sem fær ykkur til að halda áfram í Lionsstarfi, þótt margar séu komnar vel á aldur?

Gunnþórunn: Þetta er bara svo skemmtilegt, fróðlegt og gefandi og gott starf.

Gunnlaug: Og samveran skiptir líka miklu. Maður hlakkar alltaf til að hitta hinar.

Eydís: Og þær sem eru orðnar eldri vinna ekkert síður en hinar.

Þið eruð margar yfir áttrætt. Er það rétt?

Eydís: Já, verður maður ekki að viðurkenna hvað maður er gamall? Ég er nýorðin 85 ára. .

Sælgætiskransarnir
– stærsta fjáröflunin

Sælgætiskransarnir eru orðnir helsta fjáröflunin hjá ykkur. Hvernig byrjaði það?

Eydís: Þetta byrjaði fyrir sirka tuttugu og fimm árum. Ein félagskona kom með hugmyndina og við fórum bara að gera þetta. Við vorum líka með sælgæti í krukkum á ýmsan hátt, en kransarnir urðu langbestir og vinsælastir. Þannig að við héldum þessu áfram.

Hversu mikið er þetta í raun?

Gunnþórunn: Við kaupum núna svona um760 kíló af sælgæti og hnýtum úr því tæplega 520 hringi.

Og þetta selst allt saman?

Gunnlaug: Þetta gengur rosalega vel. Fólk tekur manni svo vel. Það er alveg dásamlegt að fara og hitta kúnnana – margir eru bara að bíða eftir að við komum og segja: „Loksins komið þið.“

Eydís: Yfirleitt eru allir boðnir og búnir að taka á móti okkur.Sælgætiskransarnir fyrir nýliðin jól voru settir saman úr blöndu af erlendum sælgætismolum. Það kemur helst til af því að íslenski framleiðandinn Freyja er hættur að framleiða súkkulaðimolana sem Lionskonurnar hafa notað í kransagerðina. Þá hafa orðið miklar hækkanir á íslensku sælgæti, þannig að þessi leið var farin. Molarnir sem notaðir eru nú eru reyndar mjög góðir, hafa verið notaðir áður, og hafa fengið fína dóma hjá kaupendum.

Lionskonur í Freyju eru 34 talsins og taka flestar þátt í því að setja saman kransana.

Gunnþórunn: Það eru ekki alveg allar sem koma, sumar eru enn í vinnu. En við vinnum þetta yfirleitt strax eftir hádegi og líka seinnipartinn. Í um mánuð mætum við tvisvar til þrisvar í viku til að hnýta.

Hvar hittist þið og hvernig er stemningin?

Eydís: Við hittumst í Rauða kross húsinu og höfum fengið að vera þar í mörg ár.

Gunnlaug: Það er mikið fjör. Þetta er handavinna og þetta tekur á – en gott með kaffi og miklu spjalli.

Hvað eru margar að fara út að selja?

Gunnþórunn: Flestar sem geta. Við erum oft tvær og þrjár saman sem förum.

Styrkirnir – „allt fer þetta
út í samfélagið“

Þið seljið yfir 500 kransa og hver kostar 10.000 krónur, sala fyrir rúman fimm milljónir króna. Fara peningar úr þessu beint til samfélagsins?

Gunnþórunn: Já, allt fer þetta út í samfélagið þó að það sé auðvitað kostnaður líka. Við þurfum að búa þetta til og svo er ýmislegt smávegis sem þarf eins og að smíða hringina og fleira.

Eydís: Það fer heilmikið í að nýta slaufurnar líka og nokkrar konur hafa verið alveg frábærlega duglegar í því.

Hverja hafið þið styrkt núna eftir síðustu sölu?

Gunnþórunn: Við erum nú þegar búnar að borga út 1,3 milljónir af því sem kom inn núna. Við gáfum í Velferðarsjóð Suðurnesja, Rauða krossinum og styrktum líka ungan mann sem fór til lækninga til London. Svo tókum við þátt í boccia-móti með fólkinu í íþróttafélaginu Nes. Þetta er árlegt, alltaf í kringum þrettándann og við styrktum þau náttúrulega.

Hvernig veljið þið hverjir fá styrki?

Gunnþórunn: Það berast beiðnir og við förum yfir það. En við förum alltaf í kirkjuna sem heldur utanum Velferðarsjóðinn. Undanfarin ár höfum við líka gefið Rauða krossinum og þau hafa svo sett það beint yfir í velferðarsjóðinn. Svo þetta kemur til góðs fyrir jólin.

Lionshreyfingin
og samvinna klúbba

Þið vinnið líka með öðrum Lionsklúbbum?

Gunnþórunn: Já, við höfum til dæmis tekið þátt með öðrum Lionsklúbbum þegar klúbbarnir sameinast um stærri verkefni. Lionshreyfingin hefur líka í gegnum árin styrkt sjúkrahúsið mikið, meðal annars með tækjakaupum.

Ykkar fólk er komið framarlega í Lionshreyfingunni og þið hafið verið af fá gesti úr æðstu stöðum.

Gunnþórunn: Já, við eigum fulltrúa sem eru kominn framarlega í Lions á Íslandi, hún Inga Lóa Steinarsdóttir. Hún er umdæmisstjóri í umdæmi 109 og fer oft til útlanda að hitta fólk. Svo kom alþjóðaforseti Lions í fyrra og hnýtti með okkur krans. Fyrir jólin núna kom líka alþjóðaforseti, indverskur,  og honum var gefinn krans.

Fundir, félagslíf og framtíðin

Hvernig er venjulegt starf í klúbbnum, hversu oft fundið þið?

Eydís: Við fundum einu sinni í mánuði á Hótel Keflavík. Þá fáum við eitthvað til fróðleiks eða skemmtunar, fáum stundum gestu, borðum saman og leggjum drög að því sem er fram undan.

Gunnþórunn: Það er yfirleitt alltaf mjög gaman á fundunum og svo förum við árlega í ferðalög, annaðhvort til útlanda eða innanlands.

En stórviðburðir, voruð þið ekki með góugleði?

Gunnþórunn: Jú, á fyrri árum vorum við með góugleði, svona galakvöld fyrir konur. Allir hlökkuðu til. En þetta er orðið svo dýrt með skemmtikrafta og annað að þetta hefur eiginlega lagst af síðustu árin, sem er leiðinlegt, því þetta var alltaf svo skemmtilegt.

Hvernig horfið þið til framtíðar? Meðalaldurinn er sagður rétt um sjötugt.

Eydís: Við vonum bara það besta. Allar konur eru velkomnar að ganga í klúbbinn, við tökum á móti þeim með opnum örmum.

Gunnlaug: Já, við reynum að fá konur með okkur. Ungar konur eru alveg jafn velkomnar og þær sem eldri eru.

Eydís: Þetta er ekki „kerlingaklúbbur“ endilega fyrir gamlar kerlingar. En auðvitað er mikið í gangi hjá ungu fólki,  heimili og lítil börn,  og það kostar eitthvað að vera í þessu, þó ekki mikið.

Fjáröflunarnefndin 2018: Ásta Einarsdóttir, Áslaug Bergsteinsdóttir, Magnúsína Guðmundsdóttir og Hulda Guðmundsdóttir.

Hverjar eru yngstar í klúbbnum?

Gunnþórunn: Formaðurinn okkar, Jasmina Crnac, er sú yngsta, fjörutíu og fjögurra.

„Enginn getur gert allt
– en allir geta gert eitthvað“

Í lokin: hvernig er að vera eldri borgari á Suðurnesjum?

Gunnþórunn: Mér finnst það bara gott. Það hefur verið gert mikið fyrir eldri borgara. Það er hægt að fara í alls konar íþróttir, gönguhópa og ferðalög. Mér finnst mikið gert fyrir fólk hér.

Eydís: Og svo er nýbúið að opna þetta fína hjúkrunarheimili í Njarðvík, Hrafinistu, og það er mjög fallegt allt.

Gunnþórunn: Ég sá einu sinni þegar ég var á ferð í Grindavíkurskóla: „Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað.“ Þetta finnst mér svo mikilvægt. Þó að einhver geti ekki gert eitt, þá er svo margt annað í kringum þetta sem hægt er að gera.

Ætlið þið að halda áfram?

Gunnþórunn: Við erum ekki að hætta.

Eydís: Nei, nei, við hættum ekki.

Hvar geta konur sem hafa áhuga fundið ykkur?

Gunnþórunn: Það er hægt að finna okkur Facebook, Lionsklúbburinn Freyja.

Að lokum vildi Eydís segja þetta : Takk kærlega fyrir. Við þökkum ykkur á Víkurfréttum fyrir hvað þið hafið alltaf verið liðleg við okkur með auglýsingar og annað. Þetta er mikill heiður fyrir okkur í klúbbnum að fá þessa viðurkenningu og við þökkum kærlega fyrir það. Einnig viljum við þakka öllum þeim sem hafa stutt okkur í gegnum árin. Stuðningurinn er ómetanlegur.

Freyjukonur ræddu við Pál ritstjóra Víkurfrétta. Viðtalið er í myndskeiði með fréttinni.

F.v. Eydís, Gunnþórunn og Gunnlaug.

Framsókn
Framsókn