Framsókn í Reykjanesbæ samþykkir rafrænt prófkjör
Félagsfundur Framsóknarfélags Reykjanesbæjar samþykkti fimmtudaginn 15. janúar tillögu stjórnar um að halda rafrænt prófkjör þann 7. febrúar um fyrsta til fjórða sæti framboðslista flokksins fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar.
„Rafrænt prófkjör tryggir lýðræðislega þátttöku allra félagsmanna og styrkir aðkomu og rödd grasrótarinnar.
Lögð er áhersla á að sem flestir félagsmenn hafi raunverulegt tækifæri til að taka þátt í mótun framboðsins og tækifæri til að bjóða sig fram. Rafrænt prófkjör er skýr yfirlýsing um jafnræði, nútímalegt lýðræði og traust til félagsmanna,“ segir í tilkynningu frá Framsókn.
Frestur til að skila inn framboðum í prófkjörið rennur út 24. janúar kl. 12:00. Allir félagsmenn sem skráðir eru í Framsóknarfélag Reykjanesbæjar þann dag eru kjörgengir.
Framboð skulu berast á netfangið [email protected]. Kosningarétt í prófkjörinu hafa þeir félagsmenn sem skráðir eru í Framsóknarfélag Reykjanesbæjar þann 31. janúar n.k.
„Með þessari ákvörðun undirstrikar Framsóknarfélag Reykjanesbæjar vilja sinn til að vera í fararbroddi þegar kemur að lýðræðislegum vinnubrögðum, virkri þátttöku og jafnræði félagsmanna.
Framsókn er leiðandi afl í Reykjanesbæ, fjórða stærsta sveitarfélagi landsins. Undir forystu Framsóknar hefur árangurinn verið gríðarlegur á öllum sviðum samfélagsins.
Framsókn framtíðarinnar byggist á kjarki, hæfileikum og dugnaði þeirra sem þora að láta verkin tala. Við í Framsókn trúum því að bestu tímar okkar í Reykjanesbæ séu framundan og hvetjum því alla félagsmenn til virkrar þátttöku í aðdraganda kosninga,“ segir jafnframt í tilkynningunni.






