Hildigunnur Marín ráðin verkefnastjóri miðlunar hjá SSS
Hildigunnur Marín Kristinsdóttir hefur verið ráðin í starf verkefnastjóra miðlunar hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS). Hún hefur þegar hafið störf.
Hildigunnur er fædd og uppalin í Grindavík og er búsett í Reykjanesbæ. Hún er með BA-gráðu í markaðsfræði og samskiptum frá IED og University of Westminster og er nú að ljúka MS-gráðu í markaðsfræði við Háskólann á Bifröst. Hildigunnur býr yfir reynslu af markaðs- og sölustörfum innan ferðaþjónustunnar og hefur ríkan áhuga á markvissri og áhrifaríkri markaðs- og upplýsingamiðlun. Hún kemur til starfa hjá SSS úr ferðaþjónustunni þar sem hún hefur sinnt sölu- og markaðsmálum, meðal annars hjá Courtyard by Marriott.
Í starfi sínu mun Hildigunnur sinna upplýsingamiðlun og samskiptum fyrir SSS með áherslu á stafræna miðla, efnisgerð og kynningu á verkefnum samtakanna. Hún mun jafnframt vinna náið með Markaðsstofu Reykjaness, Reykjanes jarðvang og Heklunni – atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja að miðlun á málefnum svæðisins.







