Fréttir

Fjölbrautaskóli Suðurnesja bætist við í hóp UNESCO-skóla
Sigrún Svafa Ólafsdóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Reykjanes jarðvangi og GeoCamp Iceland, afhenti m.a. bækur og efni frá Reykjanes GeoPark sem FS mun nýta. Guðbjörg Rúna Vilhjálmsdóttir og Davíð Ásgeirsson sem hafa haldið utan um þetta verkefni fyrir hönd skólans  tóku við gjöfunum ásamt Kristjáni Ásmundssyni skólameistara og Guðlaugu Pálsdóttur aðstoðarskólameistara.
Mánudagur 19. janúar 2026 kl. 06:45

Fjölbrautaskóli Suðurnesja bætist við í hóp UNESCO-skóla

Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur fengið fengið viðurkenningu sem UNESCO-skóli. Þar með eru 4 skólar innan Reykjanes jarðvangs orðnir UNESCO-skólar; Stóru-Vogaskóli í Vogum var fyrstur til að hljóta þessa viðurkenningu vorið 2025, Háaleitisskóli á Ásbrú fylgdi þar fast á eftir í lok sumars og Leikskólinn Gimli í Reykjanesbæ fékk sína viðurkenningu í október 2025.

Af þessu tilefni afhenti Sigrún Svafa Ólafsdóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Reykjanes jarðvangi, öllum nýjum UNESCO-skólum innan jarðvangsins, bækurnar Reykjanes I og II, ásamt öðru útgefnu efni jarðvangsins sem getur nýst í verkefnavinnu um náttúru og menningu í nærumhverfinu.

Framsókn
Framsókn

Frá fyrsta kynningarfundi verkefnisins í september 2024 hafa um 18 leik-, grunn- og framhaldsskólar unnið að UNESCO-skólaumsókn innan Reykjanes jarðvangs. Ferlið hófst að frumkvæði Suðurnesjavettvangs og verkefnastjóri fræðslumála hjá Reykjanes jarðvangi hefur haldið utan um verkefnið, sinnt stuðningi við skólana og verið tengiliður við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

UNESCO hefur starfrækt samstarfsnet skóla á alþjóðavísu frá árinu 1953 undir nafninu UNESCO Associated Schools Project Network (ASPnet). Þeir eru nú um 10.000 talsins og starfa í 180 löndum. Skólarnir eru á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi og hafa allir skuldbundið sig til að flétta þemu Sameinuðu þjóðanna og vinnu með Heimsmarkmiðin 17 um sjálfbæra þróun inn í sitt daglega skólastarf.

Markmiðið með því að hvetja sem flesta skóla innan jarðvangsins til að fara þessa leið og gerast UNESCO-skólar var í upphafi hugsað til að auðvelda skólum að vinna með heimsmarkmiðin og auka aðgengi að sniðugum verkefnum, en ávinningurinn hefur einnig verið sá að auka tengingu skólanna við jarðvanginn ásamt því að skapa lifandi samvinnuvettvang fyrir skólafólk þvert á skólabyggingar, skólastig og sveitarfélög.