Fréttir

Guðný Birna vill leiða Samfylkinguna í Reykjanesbæ í kosningum í vor
Mánudagur 19. janúar 2026 kl. 13:11

Guðný Birna vill leiða Samfylkinguna í Reykjanesbæ í kosningum í vor

Guðný Birna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, hefur tekið þá ákvörðun að gefa kost á sér til að leiða lista Samfylkingar í Reykjanesbæ fyrir sveitastjórnarkosningarnar þann 16. maí næstkomandi. Þetta kemur fram í færslu Guðnýjar Birnu á samfélagsmiðlum um helgina.

Færslan er eftirfarandi:

Framsókn
Framsókn

Kæru vinir.

Í 12 ár hef ég fengið þann heiður að starfa sem bæjarfulltrúi Samfylkingar í Reykjanesbæ. Það hefur verið gjöfult að fylgjast með bænum okkar stækka og eflast eftir endurreisn hans úr skuldsettasta sveitarfélaginu (skuldaviðmið 255% árið 2013) í eitt af þeim best reknu (skuldaviðmið 109% árið 2025).

Við höfum áorkað miklu með samhentu átaki bæjarbúa en það er nóg af verkefnum fram undan.

Tækifærin eru í Reykjanesbæ, framtíðarhorfur góðar og hér er frábært að búa.

Hef ég því tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér að leiða lista Samfylkingar í Reykjanesbæ fyrir sveitastjórnarkosningarnar þann 16. maí.

Viðfangsefnin okkar fram undan eru talsverð en nefna má:

- Að halda áfram að styrkja, efla og stækka íþróttafélögin okkar og aðstöðu þeirra

- Halda áfram með eflingu tómstundaúrræða fyrir unga fólkið okkar

- Að efla lýðheilsu íbúa á öllum aldri með virku samtali og aukinni hækkun hvatastyrkja

- Að laða til okkar fleiri fyrirtæki með úthlutun lóða og áherslu á enn frekari uppbyggingu verslunar og þjónustu

- Að stuðla að uppbyggingu nýrra hverfa ásamt þéttingu víðs vegar um bæinn

- Að halda áfram að efla samgöngumál og umferðaröryggi

- Lyftum menningunni enn hærra á loft með fleiri viðburðum fyrir alla hópa. Meiri stemmningu heima í bæ

- Klárum uppbyggingu Myllubakkaskóla og Holtaskóla. Styðjum áfram við öflugt grunnskólastarf og hefjum uppbyggingu á fleiri grunnskólum

- Halda áfram uppbyggingu á fleiri leikskólum auk stækkunar á öðrum. Höldum faglegu starfi í hávegum og hlúum vel að mannauði

- Eflum tækifæri í nýsköpun og nýjum atvinnuvegum með áherslu á frumkvöðlastarf

Kæru vinir. Ég er stolt að tilheyra samfélaginu okkar, höldum áfram að gera Reykjanesbæ hátt undir höfði þar sem tækifærin rísa

Ykkar,

Guðný Birna.