Miðvikudagur 28. janúar 2026 kl. 09:49

Járngerður 15. fundur 26. janúar 2026: Viðhald á Ásabraut á lokametrunum og íbúafundur til skoðunar

Rætt var um stöðu framkvæmda við grunnskólann á Ásabraut og fyrirhugaðan íbúafund á 15. upplýsingafundi Járngerðar sem haldinn var á Teams mánudaginn 26. janúar 2026.

Guðbjörg Eyjólfsdóttir, sem stýrði fundinum, sagði að hún hefði fengið þær upplýsingar að viðhald og lagfæringar við grunnskólann á Ásabraut væru „á lokametrunum“. Hún sagði framkvæmdirnar að mestu felast í viðhaldi sem hafi verið boðið út og að verkið væri í góðum gangi og á áætlun. Þá kom fram að lagfæringar á nýrri álmu væru ekki eins kostnaðarsamar og áður hafi verið talið.

Á fundinum var einnig farið yfir samskipti við Grindavíkurnefndina. Guðbjörg greindi frá því að stjórn Járngerðar hefði átt fund með nefndinni í síðustu viku og lýsti honum sem mjög góðum og hreinskiptnum. Skarphéðinn Berg Steinarsson tók undir og sagði að nefndin hefði átt fjölda funda og væri áfram að funda til að kynna sér sem flest sjónarmið.

Þá var rætt um stóran íbúafund sem hefur verið til skoðunar af hálfu bæjarins. Hjálmar Hallgrímsson sagði að engin endanleg ákvörðun hefði verið tekin en fundurinn gæti mögulega farið fram með stuttum fyrirvara. Hann sagði að málið myndi skýrast í kjölfar bæjarstjórnarfundar þar sem verið væri að ganga frá fjárhagsáætlun.

Sólveig Þorvaldsdóttir vakti athygli á því að tveggja daga fyrirvari gæti verið stuttur fyrir svona mikilvægan fund. Hjálmar sagði að það gæti verið rétt en taldi þó hægt að koma boði áleiðis með skömmum fyrirvara þegar dagskrá og helstu upplýsingar lægju fyrir.

Pétur Hafsteinn Pálsson sagði að fólk hefði búist við upplýsingum í janúar og taldi mikilvægt að miðla stöðu mála frekar en að bíða lengi eftir næstu formlegu skrefum. Hann sagði að unnið væri að því að safna saman nokkrum stuttum erindum um það sem væri í gangi, þar á meðal hvað varðaði bæinn, Þórkötlu, Járngerði og almannavarnir, þannig að íbúar fengju skýrari mynd af stöðunni.