Reykjanesbær – öflugt bæjarfélag með öflugum leiðtoga
Það hefur verið eitthvað sérstakt í loftinu í Reykjanesbæ það sem af er ársins. Bærinn okkar hefur iðað af lífi, jákvæðri umræðu, samstöðu og áhuga á framtíð bæjarins. Íbúar hafa mætt á fundi, tekið þátt í samtölum, spurt, gagnrýnt, hrósað og lagt sitt af mörkum. Þetta er lýðræðið í sínu fegursta formi, þegar fólk lætur sig málin varða, stendur upp og tekur þátt.
Út frá mínu sjónarhorni hefur margt jákvætt gerst í prófkjörsmánuðinum. Til að mynda hef ég tekið eftir öflugum einstaklingum stíga fram, bjóða fram krafta sína og sýna að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ býr yfir mikilli breidd og styrk. Við erum flokkur fólks með ólíkan bakgrunn, hugmyndir og áherslur en um leið sameinuð í þeirri sannfæringu að hér í bænum eigum við að sækja fram, trúa á eigin styrk og byggja upp bjarta framtíð. Við eigum að vera málefnaleg, lausnamiðuð og einhuga um að setja hagsmuni bæjarbúa í forgang. Lykillinn að árangri er að geta staðið að sameiginlegri sýn eftir að atkvæði hafa verið talin og úrslit ljós. Okkur ber skylda til að sýna að við kunnum að taka lýðræðinu af reisn og að við vinnum saman, að prófkjörinu loknu þannig að bærinn okkar njóti góðs af þeirri orku sem þetta prófkjör hefur kveikt.
Við vitum öll að verkefni bæjarins eru mýmörg og áskoranirnar raunverulegar. Það sem ég hef talað fyrir á undanförnum vikum er eftirfarandi: efling atvinnulífs bæjarins með því að fjölga atvinnulóðum innan bæjarmarka og þannig skapa fjölbreytt störf. Við þurfum einnig að taka skýra og ábyrga afstöðu til skipulagsmála, sérstaklega þegar kemur að tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fitjum að Leifsstöð, og þegar kemur að húsnæðismálum, þar sem nauðsynlegt er að fjölga einbýlis-, rað- og parhúsum. Sem skólastjóri í grunnskóla veit ég hversu mikilvægt er að leik- og grunnskólastjórnendur hafi fjármagn til að hægt sé að koma til móts við alla nemendur. Ég vil efla íþrótta- og tómstundastarf bæjarins með þeim hætti að allir hafi tækifæri til að taka þátt. Listinn er langt frá því að vera tæmandi. En til að takast á við þessi verkefni, ásamt fleirum, þurfum við sterka forystu, skýra sýn og stöðugleika. Við þurfum leiðtoga sem trúir á Reykjanesbæ, talar vel um bæinn, vinnur af einlægni, leggur áherslu á samstöðu ólíkra stétta og leiðir fólkið með hjartanu.
Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í því skyni að vera slíkur leiðtogi. Ég trúi á kraft bæjarins og tel að nú sé tími til að sækja fram með jákvæða, metnaðarfulla og ábyrga stefnu. Ég vil hlusta, leiða samtal, tengja saman ólíka hópa og vinna markvisst að því að Reykjanesbær verði enn betri heimabær fyrir okkur öll. Ég er tilbúinn að axla þá ábyrgð sem fylgir því að leiða Sjálfstæðisflokkinn í næstu bæjarstjórnarkosningum. Ég tel mig vera þann leiðtoga sem sameinar allar stéttir bæjarfélagsins og leiðir Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í vor. Reykjanesbær á skilið sterkan leiðtoga sem talar vel um bæinn sinn, hlustar á íbúa, leitar lausna og setur hagsmuni heildarinnar í forgang.
Að lokum vil ég þakka fyrir góðar móttökur á prófkjörstímanum. Það hefur verið mér mikill heiður að taka þátt í prófkjöri sjálfstæðismanna, hitta, hlusta og ræða við ykkur um málefni bæjarins. Ég er sannfærður um að saman getum við haldið áfram að gera góðan bæ enn betri.
Unnar Stefán Sigurðsson








