Ferskir vindar í Reykjanesbæ
Samfélagið okkar í Reykjanesbæ stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum á næstu misserum, með versnandi efnahagshorfum og ríkisstjórn sem er yfirlýstur andstæðingur ferðaþjónustunnar, sem eru sorgleg skilaboð til okkar bæjarbúa.
En við Suðurnesjamenn erum ekki ókunnir mótlæti, við höldum alltaf áfram, byggjum upp á okkar styrkleikum og eflum samfélagið okkar á eigin verðleikum. Við vitum að lausnirnar eru hér og þær eru að finna í mannauðinum sem er á svæðinu.
En til þess að mæta þessum áskorunum þurfum við sterka öfluga sveitastjórn, með skýra framtíðarsýn fyrir samfélagið okkar. Framtíðarsýn sem varðar leiðina, ekki aðeins næstu fjögur árin, heldur næstu áratugina. Sveitastjórn sem er yfir alla frasapólitík hafin og talar í lausnum, því hér þarf að taka erfiðar ákvarðanir, ryðja veginn, hagræða í rekstri og senda skýr skilaboð að á bakvið allar áskoranir leynast tækifæri.
Á morgun gefst sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ færi á að kjósa sér leiðtoga fyrir næstu sveitastjórnarkosningar. Verður þetta í fyrsta sinn í sögu flokksins í bænum sem slíkt prófkjör á sér stað.
Það má heyra skýrt ákall íbúa eftir breytingum og hefur leiðtogaprófkjörið vakið verðskuldaða athygli.
Nú stöndum við sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ frammi fyrir risastóru tækifæri og líka valkostum. Við getum valið á milli þess að haga seglum eftir ráðandi vindum eða þá gert, eins og íbúar í þessu sveitarfélagi hafa gert svo oft áður - að taka stjórn á okkar eigin örlögum í krafti Sjálfstæðisstefnunnar. Fyrrnefndi valkosturinn hefur ekki verið að skila neinu hvorki á landsvísu né hér í kjördæminu. En sá síðarnefndi hefur alltaf gefist íbúum Reykjanesbæjar best.
Framtíðin er svo sannarlega í Reykjanesbæ og hún verður mótuð í þessum
bæ.
Ásgeir Elvar Garðarsson
Frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins.








