Þeir sem þekkja Villa best eru ekki í vafa
Það var mér sannkallað ánægjuefni að frétta í byrjun mánaðar að Vilhjálmur Árnason, Villi Árna, góður vinur minn og traustur samstarfsmaður til margra ára, hafi ákveðið að bjóða sig fram til forystu Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þar er hann einn þriggja öflugra einstaklinga. Mannval okkar Sjálfstæðismanna er sem fyrr framúrskarandi.
Vissulega munum við í Ölfusi finna fyrir fjarveru hans á Alþingi, þar sem hann hefur reynst afar öflugur talsmaður okkar í mikilvægum málum, ekki síst þegar kemur að samgöngum og hafnamálum. Eftir sem áður tel ég ljóst að Reykjanesbær mun standa eftir sem sigurvegari. Þar fá bæjarbúar leiðtoga sem hefur bæði reynslu og kjark til að takast á við stór verkefni. Sterkur leiðtogi í sveitarstjórn er síst minni fengur en öflugur þingmaður.
Reykjanesbær stendur á tímamótum. Um er að ræða eitt stærsta og mikilvægasta sveitarfélag landsins og því skiptir sköpum að þar sé við stjórnvölinn einstaklingur sem þekkir stjórnsýsluna, hefur skýra framtíðarsýn og lætur verkin tala. Maður sem þorir og kann.
Villi er slíkur maður. Hann er framkvæmdasinnaður, lausnamiðaður og vanur því að vinna þvert á flokkslínur þegar hagsmunir samfélagsins krefjast þess. Reynslan hefur sýnt að hann gefst ekki upp við mótbyr, heldur leggur sig allan fram um að ná árangri.
Að mínu mati er Villi afar vel til þess fallinn að leiða Reykjanesbæ inn í næsta kafla. Ég þekki hann vel og veit af eigin raun að hann vinnur af heilindum, ábyrgð og einlægum metnaði fyrir samfélagið. Ég veit að þeir sem þekkja hann best eru ekki í vafa með stuðning við hann. Það eru meðmæli sem útskýra sig sjálf.
Ég hvet því flokksmenn í Reykjanesbæ eindregið til að veita Vilhjálmi Árnasyni, Villa Árna stuðning sinn í leiðtogaprófkjörinu á laugardaginn.
Elliði Vignisson
bæjarstjóri








