Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason

Aðsent

Ofbeldi gagnvart öldruðum
Frá fræðslufundinum á Nesvöllum á dögunum. VF-mynd: pket
Föstudagur 30. janúar 2026 kl. 06:36

Ofbeldi gagnvart öldruðum

Ég var svo heppin að fá að taka þátt í fræðslu um ofbeldi gagnvart eldra fólki á Nesvöllum í Reykjanesbæ og kynna Suðurhlíð miðstöð fyrir þolendur ofbeldis hér á Suðurnesjum. Af því tilefni langar mig að vekja athygli á ofbeldi gagnvart öldruðum sem virðist vera samfélagslegt vandamál sem hefur oft verið vanrækt og lítið rætt. Það getur átt sér stað á heimilum, á stofnunum eða í öðrum aðstæðum þar sem aldraðir eru háðir umönnun eða aðstoð. Ofbeldi hefur ekki aðeins áhrif á líkamlega heilsu heldur einnig andlega líðan, sjálfsvirðingu og lífsgæði eldra fólks.

Áætlað er að 16 % af fólki 60 ára og eldra hafi upplifað einhvers konar ofbeldi á síðustu 12 mánuðum. Það samsvarar um það bil 1 af hverjum 6 en þetta er ekki vitað með vissu því margt bendir til að ofbeldi gagnvart öldruðum sé mun algengara og mjög falið í samfélaginu.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Rannsóknir hér á landi benda til þess að bara lítill hluti ofbeldistilvika sé tilkynntur. Þó skortir nákvæmar tölur á Íslandi.

Af hverju segja þolendur ekki frá?

Það er margt sem getur hindrað þolendur í að segja frá ofbeldinu. Sumir finna fyrir skömm og sjálfsásökun yfir því að vera í sambandi við ofbeldisfullan einstakling. Þolandi gæti verið algjörlega háður geranda vegna aðstoðar og umönnunar.

• Menningar- og trúarleg viðhorf.

• Þolanda gæti fundist hann ógna heiðri fjölskyldunnar eða svíkja trúnað við hana ef hann greinir frá heimilisofbeldi. Ótti við áframhaldandi ofbeldi/hefnd ef gerandi ofbeldisins kemst að því að þolandinn hafi sagt frá.

• Hótanir geranda um verra ofbeldi ef þolandinn segir frá.

• Þolandinn hefur ekki vitneskju um möguleg úrræði og hjálp sem gæti staðið honum til boða.

• Sumir þolendur líta svo á að þeir búi ekki við ofbeldi og jafnvel að ofbeldið sé eðlilegt ástand, sérstaklega þegar fólk hefur búið við slíkar aðstæður í fjölda ára.

Heimilisofbeldi

„Ofbeldi í nánum samböndum, einnig stundum kallað heimilisofbeldi, er ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hálfu einhvers sem er honum nákominn, skyldur eða tengdur, eins og maki, barn, foreldri, barnsfaðir, systkini eða forráðamaður. „Maki“ getur verið núverandi eða fyrrverandi eiginmaður/eiginkona, kærasti/kærasta eða sambúðaraðili. Þolandi og gerandi þurfa hvorki að búa saman né vera gift til að ofbeldið flokkist sem ofbeldi í nánum samböndum. Ofbeldi í nánum samböndum þarf heldur ekki að vera bundið við heimili geranda eða þolanda.“

(Kvennaathvarfið).

Ofbeldi gagnvart öldruðum getur birst í ýmsum myndum:

• Líkamlegt ofbeldi: barsmíðar, hrindingar, óviðeigandi notkun lyfja eða vanræksla á

líkamlegri umönnun

• Andlegt ofbeldi: niðurlæging, hótanir, einangrun, stjórnun eða stöðug gagnrýni.

• Fjárhagslegt ofbeldi: misnotkun á fjármunum, þvingun til að skrifa undir skjöl, eða stuldur

• Kynferðislegt ofbeldi: hvers kyns óviðeigandi kynferðisleg hegðun án samþykkis.

• Vanræksla: þegar grunnþörfum eins og mat, lyfjum, hreinlæti eða félagslegum tengslum er ekki sinnt.

Það skal tekið fram að hver sem er getur orðið fyrir ofbeldi á hvaða aldri sem er en talið er að andlegt og fjárhagslegt ofbeldi sé algengasta birtingarmyndin í hópi eldra fólks.

Orsakir og áhættuþættir

Ýmsir þættir geta aukið líkur á ofbeldi gagnvart öldruðum. Þar má nefna félagslega einangrun, veikindi, fötlun eða vitræna skerðingu, sem getur gert einstaklinga berskjaldaðri. Einnig getur álag á aðstandendur eða starfsfólk í umönnun aukið líkur á ofbeldi, skortur á stuðningi og fræðslu, og neikvæð viðhorf til öldrunar geta einnig stuðlað að ofbeldi.

Afleiðingar ofbeldis

Afleiðingar ofbeldis gagnvart öldruðum geta verið alvarlegar og langvarandi. Líkamleg meiðsli, kvíði, þunglyndi, svefnvandamál og aukin hætta á veikindum eru algengar afleiðingar. Ofbeldi getur einnig leitt til þess að aldraðir missi traust á öðrum og dragi sig enn frekar í hlé frá samfélaginu.

Forvarnir og viðbrögð

Til að sporna gegn ofbeldi gagnvart öldruðum þarf samstillt átak samfélagsins. Mikilvægt er að auka fræðslu og vitund um málefnið og styðja við aðstandendur og umönnunaraðila.

Tryggja skýra verkferla og eftirlit á stofnunum. Hvetja aldraða og aðstandendur til að tilkynna grun um ofbeldi. Fagfólk í heilbrigðis- og félagsþjónustu gegnir lykilhlutverki í að greina merki ofbeldis og grípa inn í á viðeigandi hátt. Allar athuganir benda til þess að langbesta leiðin til að komast að því hvort ofbeldi eigi sér stað eða hafi átt sér stað sé að spyrja beint t.d. Ég tók eftir marblettum á þér. Hvernig gerðist það? Var einhver sem gerði þetta við þig?

Ég hef tekið eftir því að þú virðist óttast maka þinn (eða þá manneskju sem þig grunar að sé að beita ofbeldinu). Er það rétt hjá mér? Er allt í lagi?

Ef grunur er um ofbeldi er með samþykki einstaklings hægt að panta tíma fyrir hann í gegnum noona.is eða sudurhlid.is, hringja eða senda póst á [email protected] og óska eftir tíma. Hvetja einstaklinginn til að hafa samband sjálfur.

Niðurstaða

Ofbeldi gagnvart öldruðum er mannréttindabrot sem ekki má líðast. Með aukinni umræðu, fræðslu og ábyrgð getum við skapað samfélag þar sem aldraðir búa við öryggi, virðingu og reisn. Það er sameiginleg skylda okkar allra að standa vörð um réttindi og velferð eldra fólks.


Inga Dóra Jónsdóttir.

Höfundur er
teymistýra Suðurhlíðar

Unnar Sigurðsson
Unnar Sigurðsson