Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason

Fréttir

Línur að skýrast í bæjarpólitíkinni
Frá bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í Stapa. VF/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 30. janúar 2026 kl. 06:24

Línur að skýrast í bæjarpólitíkinni

Bæjarpólitíkin er komin á ferð og stjórnmálaflokkarnir í Reykjanesbæ og í fleiri sveitarfélögum á Suðurnesjum eru ýmist að raða upp listum, búnir að því eða boða til prófkjörs. Þá er oddvitaprófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjanesbæ næsta laugardag þar sem þrír eru í kjöri.

Samfylking í Reykjanesbæ kynnti lista sinn fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar á þriðjudagskvöld (sjá nánar á vf.is) en þar er Guðný Birna Guðmundsdóttir áfram oddviti með nýtt fólk í næstu sætum. Framsóknarflokkur og Bein leið eru í meirihlutasamstarfi með Samfylkingu í Reykjanesbæ og þannig hefur meirihlutinn verið síðustu tvö kjörtímabil.

Framsókn hefur boðað til prófkjörs og þar hefur Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir óskað eftir því að leiða listann áfram. Bjarni Páll Tryggvason sem var í 2. sæti hefur stigið upp úr stóli bæjarfulltrúa en hann hefur tekið við öðru starfi hjá Isavia og er kominn í framkvæmdastjórn félagsins eins og lesa má annars staðar í blaðinu. Prófkjör fer fram 7. febrúar og hafa sex aðilar tilkynnt þátttöku.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Bein leið mun ekki bjóða fram en oddviti hennar, Valgerður Björk Pálsdóttir, hætti í lok síðasta árs þegar hún fór til starfa í Brussel. Einn liðsmanna Beinnar leiðar, Birgir Bragason, greindi frá lokum framboðsins og hann ætlaði að bjóða krafta sína hjá Framsókn. Viðreisn kemur ný inn í og leitar nú að fólki á lista. Þar hefur Arnar Páll Guðmundsson lýst áhuga sínum á oddvitasætinu.

Umbót undir forystu Margrétar Þórarinsdóttur hefur verið í minnihluta í bæjarstjórn síðustu tvö kjörtímabil. Hún hefur staðfest að framboðið muni bjóða fram lista sem hún mun að öllum líkindum leiða. Hún sagði í stuttu spjalli að hún hafi fengið mjög mikið af áskorunum um að halda áfram og að hún hafi staðið sig mjög vel í minnihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

Ekki er komið á hreint hvort Miðflokkurinn bjóði fram en áhugi mun vera innan hans á því, sömuleiðis hjá Flokki fólksins en hann er með tvo þingmenn í Suðurkjördæmi og annar maður þar á lista, Sigurður Helgi Pálmason, er búsettur í Reykjanesbæ. Hann var kjörinn varaforseti Evrópuráðsþingsins nýlega.

Sjálfstæðismenn hafa verið áberandi síðustu daga en frambjóðendurnir þrír, Vilhjálmur Árnason, Ásgeir Elvar Garðarsson og Unnar Stefán Sigurðsson, berjast um oddvitasætið.

Þá er einnig undirbúningur í gangi í hinum sveitarfélögunum og í blaðinu má m.a. sjá auglýsingu frá Sjálfstæðisflokknum í Suðurnesjabæ þar sem óskað er eftir áhugasömu fólki. Þar á bæ hafa menn lýst yfir megnri óánægju með margt í stjórn bæjarfélagsins en deilur um gerfigrasvöll og fleira hafa verið undanfarið.

Von er á fréttum fyrr en síðar úr Grindavík, sem er í mjög sérstakri stöðu, og sömuleiðis frá Sveitarfélaginu Vogum.

Unnar Sigurðsson
Unnar Sigurðsson