Ljósið flytur í nýtt og rýmra húsnæði á árinu
Endurhæfingarmiðstöðin Ljósið mun á árinu flytja starfsemi sína í nýtt og mun rýmra húsnæði. Flutningarnir marka mikilvægt skref í að mæta sívaxandi eftirspurn eftir þjónustu Ljóssins, en núverandi aðstaða hefur um árabil verið of lítil.
Þegar Ljósið varð formlega að sjálfseignarstofnun árið 2006 sóttu um 200 einstaklingar þjónustu endurhæfingarmiðstöðvarinnar. Á síðasta ári voru þeir um 1.500 talsins, sem endurspeglar mikla aukningu í starfseminni á undanförnum árum og þörfinni á stærra húsnæði.
Núverandi húsnæði Ljóssins er um 850 fermetrar að stærð og hefur ekki lengur staðið undir þeirri fjölbreyttu þjónustu sem veitt er. „Það skortir fleiri viðtalsherbergi, stærri rými fyrir líkamlega þjálfun, fræðslu og sálfélagslegan stuðning,“ segir Erna Magnúsdóttir, framkvæmdastýra Ljóssins.
Nýja húsnæðið, sem Ljósið fær afhent 1. febrúar næstkomandi, er 1.300 fermetrar meðmöguleika á stækkun upp í 1.700 fermetra til framtíðar. Húsið er staðsett að Gylfaflöt 5 í Grafarvogi, þar sem er gott aðgengi, næg bílastæði og grænt útivistarsvæði í næsta nágrenni.
Ráðast þarf í töluverðar breytingar á húsnæðinu og er gert ráð fyrir því að flutningar geti átt sér stað síðar á árinu.
„Þörfin fyrir starfsemina heldur áfram að vaxa. Krabbameinsgreiningum hefur fjölgað og Ljósið er eina endurhæfingarstöðin á Íslandi fyrir fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur þess. Því er afar mikilvægt að við fáum aðstöðu sem gerir okkur kleift að sinna öllum þeim sem til okkar leita,“ segir Erna Magnúsdóttir.







