Sigrar hjá Grindavík og Njarðvík í Bónusdeild karla
Grindavík tók á móti Val í 16. umferð Bónusdeildar karla í Grindavík í kvöld og unnu tiltölulega öruggan sigur, 78-67 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 42-31. Á sama tíma fengu Njarðvíkingar lið Álftaness í heimsókn og unnu sigur eftir hörku leik, 101-96.
Grindvíkingar voru betri frá fyrstu mínútu og leiddu allan tímann. 31 stig í fyrri hálfleik og 36 í seinni hálfleik segja kannski mestan hluta sögunnar, vörnin var mjög góð allan tímann og Valsmenn sáu í raun aldrei til sólar. Mestur fór munurinn í tæp tuttugu stig en Valsmenn náðu að minnka muninn niður í sex stig og nóg eftir af leiknum og ekki þarf mikinn körfuboltaspeking til að sjá að leikurinn hefði getað endað með rauðum sigri en Grindvíkingar gáfu aftur í, náðu muninum mest upp í fimmtán stig og aldrei spurning á lokamínútútunum hvoru megin sigurinn myndi enda.
Liðin voru vængbrotin, hjá Grindavík vantaði fyrirliðann Ólaf Ólafsson og hinn litskrúðuga Deandre Kane, hjá Val vantaði Kristófer Acox. Valur skartaði nýjum leikmanni sem Suðurnesjamönnum ætti að vera góðkunnungur, Igor Maric sem spilaði með Keflavík síðustu tímabil.
Khalill Shabazz var stigahæstur Grindvíkinga með 19 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Daniel Mortensen og Jordan Semple skoruðu báðir 17 stig og tóku 6 og 14 fráköst.
Hjá Njarðvík voru fjórir leikmenn með rúm tuttugu stig, Dwayne Lautier með 27, Veigar Páll og Sven Smajlagic með 22 stig og nýji leikmaðurinn, Luwane Pipkins með 20.
Grindavík heldur öruggu forystusæti sínu, er með 14 sigra og 2 töp en Njarðvíkingar eru í 9. sæti, einum sigri frá áttunda sætinu.











