Er sameining sveitarfélaga alltaf skynsamleg?
Á Íslandi eru tvö stjórnsýslustig, ríki og sveitarfélög. Með þessari skipan er stuðlað að valddreifingu og því að ákvarðanir um þjónustu séu teknar sem næst íbúunum sjálfum. Sveitarfélög eru ekki aðeins rekstrareiningar heldur samfélög með ólíkar þarfir, sögu og forsendur.
Undanfarin ár hefur umræðan um sameiningu sveitarfélaga orðið sífellt háværari og virðist víða vera sett fram sem sjálfgefin lausn á áskorunum í sveitarstjórnarmálum. Í þeirri umræðu er þó hætt við að flækjustigið sé vanmetið. Sameining er ekki auðveld í sjálfu sér og hún er langt frá því að vera lausn í öllum tilvikum.
Algengt er að bent sé á að stærri sveitarfélög hafi meiri burði, bæði fjárhagslega og faglega. Þó sýnir reynslan að sameiningar eru oft kostnaðarsamar og flóknar í framkvæmd. Umskiptakostnaður, samræming kerfa og skipulags, aukinn ferðakostnaður og óljós ábyrgðarskipting geta vegið þungt. Sá sparnaður sem lofað er lætur stundum bíða eftir sér eða skilar sér alls ekki.
Í fjölkjarna sveitarfélögum bætist við sérstök áskorun. Þar getur ágreiningur milli byggðakjarna um forgangsröðun verkefna orðið þess valdandi að ákvarðanataka stöðvast. Skipulagsmál, uppbygging innviða og húsnæðis geta setið á hakanum vegna togstreitu um staðsetningu, fjárfestingar og áherslur. Í slíkum aðstæðum verður niðurstaðan ekki samlegð heldur stöðnun, þar sem sveitarfélagið nær ekki að halda áfram að vaxa og uppbyggingaráform dragast eða falla niður.
Þá ber einnig að horfa gagnrýnið á þær sameiningar sem verða fyrst og fremst á pappír. Þegar sveitarfélög eru sameinuð að nafninu til, án þess að kjörnir fulltrúar taki raunverulegt skref í að einfalda rekstur, samræma stjórnsýslu og nýta möguleg samlegðaráhrif, skapast hætta á tvöföldu kerfi innan sama sveitarfélags. Slík hálfgerð sameining skilar hvorki sparnaði né betri þjónustu, heldur getur hún aukið flækjustig, kostnað og óánægju. Slík þróun er ekki til þess fallin að efla traust eða þátttöku í sveitarstjórnarmálum.
Það er jafnframt mikilvægt að árétta að skortur á fagþekkingu eða burðum kallar ekki sjálfkrafa á sameiningu. Samvinna sveitarfélaga, þjónustusamningar og sameiginleg verkefni geta oft skilað sömu eða betri niðurstöðu án þess að sjálfstæði sveitarfélaga sé lagt af. Slíkar lausnir bjóða upp á sveigjanleika og virða jafnframt fjölbreytileika byggða.
Sameining sveitarfélaga getur í sumum tilfellum verið skynsamleg og jafnvel nauðsynleg en hún er ekki allsherjarlausn og á aldrei að vera þvinguð fram. Hver ákvörðun verður að byggjast á raunverulegu mati á aðstæðum, vilja íbúa og skýrum markmiðum um hvernig bæta eigi þjónustu og rekstur.
Sterkt sveitarstjórnarkerfi byggist á trausti, ábyrgð og raunverulegri valddreifingu. Það næst ekki endilega með stærri einingum, heldur með skynsamlegum lausnum sem taka mið af fólkinu sem býr í sveitarfélögunum — ekki aðeins stærð þeirra á korti eða íbúafjölda.
Anton Guðmundsson,
oddviti Framsóknar
í Suðurnesjabæ








