Pistlar

Væri það ekki gaman?
Föstudagur 2. febrúar 2024 kl. 08:26

Væri það ekki gaman?

Við hjónin, bæði komin á eftirlaun, ákváðum að fara í sjálfskipaða útlegð nú í vetur. Leiðin lá til Spánar þar sem við leigðum okkur lítið hús ofan í djúpu gili, innan um geitahjörð og aðra innfædda. Meðal íbúa þar eru tvær ungar og þróttmiklar stúlkur sem búa við hliðina á okkur. Við sjáum ekki mikið af þeim í miðri viku en þær fara sínum fram um helgar, þurfa mikið að ræða málin á milli þess sem þær leika sér af krafti.

Hér á Spáni eru allskonar dýrlingadagar sem fyrir ókunna er erfitt að henda reiður á. Nýlega voru tveir svoleiðis í röð og frí hjá stelpunum í skólanum. Ég spurði þær hvers vegna það væri frí núna. Það stóð ekki á svörum. „Kennararnir þurfu frí frá okkur í dag, við erum of duglegar. Myndir þú ekki þurfa frí frá okkur ef þú værir að kenna okkur alla daga?“ „Jú, það held ég bara,“ svaraði ég.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Börn virðast oft vera talsvert skýrari en við fullorðna fólkið og ekki fyrir það að flækja málin að óþörfu Fyrir stúlkunum lá þetta ljóst fyrir og þær sýndu kennurum sínum fullan skilning á því álagi sem þær ollu þeim. Ég fór að hugsa hvað það væri bæði gott og gaman ef við fullorðna fólkið gætum, þó ekki nema smávegis, vakið upp barnið í okkur og einfaldað okkur heimsmyndina og lífið – en það er sennilega barnaleg hugsun.

Ég heyrði nýlega sögu af tveimur sex ára strákum sem ákváðu að gera grín í kennurum sínum, láta þá ekki þekkja sig í sundur. Þeir fengu sér eins föt, greiddu sér eins og voru vissir um að hrekkurinn myndi rugla kennarana í rýminu, sérstaklega vegna þess að þeir töldu sig vera alveg eins. Það gerðist ekki, þeir höfðu ekki áttað sig á að þeir voru ekki eins á litinn þó þeir byggju í sömu húsaröð.

Þannig er þetta líka með okkur fullorðna fólkið, við erum öll eins þó litarháttur og uppruni geti verið mismunandi. Sama hvar í veröldinni við búum eigum okkar sömu vonir, sömu þrár. Þrána um að fá að lifa lífi okkar með reisn, með von um að geta verið partur af af samfélagi þar sem við leggjum okkar af mörkum.

Væri það ekki gaman ef okkur auðnaðist, svipað og stúlkunum tveimur á Spáni, að vera ekki að  þvæla hlutina – og svipað og drengirnir tveir sem voru að hefja skólagönguna, að gera ekki greinarmun á manneskjum sökum húðlitar og uppruna. Að gefa þeim sem neyta hvers færis til að koma upp á milli manna, á forsendum húðlitar, búsetu og trúabragða, frí svo við hin getum gert okkar besta við það stutta líf sem við eigum á þessari jörð. Að búa til betri heim. Það væri allavega til þess vinnandi þó um einhverjum finnist það barnaleg hugsun.