Heklan
Heklan

Pistlar

Desember byrjar rólega
Mánudagur 15. desember 2025 kl. 11:49

Desember byrjar rólega

Þá er desembermánuður kominn af stað og enn þá er töluverður fjöldi báta, og þá sérstaklega línubáta, við veiðar við Norður- og Austurland. Stakkavíkurbátarnir eru allir á Skagaströnd, nema Guðbjörg GK, og þar er líka hinn stálbáturinn sem Stakkavík ehf á.

Það er báturinn Katrín GK 266. Sá bátur hefur legið við bryggju á Skagaströnd síðan í janúar á þessu ári, en báturinn hefur einungis farið í þrjá róðra allt þetta ár. Ef við horfum á fiskveiðiárið, sem var frá 1. september 2024 til 31. ágúst 2025, þá fór báturinn aðeins í 11 róðra, alla frá Skagaströnd.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Þar á undan hafði báturinn verið í Sandgerði. Reyndar var bara ein löndun, sem var í apríl.

Þannig að þessi flotti bátur, sem minnir ansi mikið á gamla tíma, hefur bara verið hálfgert bryggjublóm á Skagaströnd núna í hátt í eitt og hálft ár. Það minnir á gamla tíma, af hverju segi ég það. Jú, í bátnum er Caterpillar-vél sem hefur verið í bátnum frá því hann var smíðaður á Ísafirði árið 1988, og það er ansi mikið og hávært hljóð í bátnum þegar hann er á siglingu og sérstaklega þegar hann er að leggja að bryggju.

Báturinn hefur verið í eigu Stakkavíkur núna í um 13 ár og hét fyrst Una GK en fékk síðan nafnið Katrín GK.

Fyrst ég er kominn til Skagastrandar þá er best að líta á bátana sem þar eru sem tengjast Suðurnesjunum. Hópsnes GK er komið með 12,4 tonn í 3 róðrum og mest 4,9 tonn. Óli á Stað GK er með 22 tonn í 5 róðrum og mest 5,5 tonn. Hinir bátarnir sem eru á Skagaströnd eru Hemmi á Stað GK og Geirfugl GK.

Einhamars-bátarnir eru fyrir austan. Gísli Súrsson GK er með 12,3 tonn í 2 róðrum, Auður Vésteins SU er með 36 tonn í 4 róðrum og mest 13,5 tonn í einni löndun, og Vésteinn GK er með 10,2 tonn í einni löndun.

Hérna á Suðurnesjunum hefur aflinn hjá línubátunum verið nokkuð góður. Fjölnir GK er kominn með 34 tonn í 7 róðrum og mest 7,3 tonn, mestallt landað í Sandgerði. Margrét GK er með 27 tonn í 4 róðrum og mest 12,3 tonn, landað í Sandgerði. Dúddi Gísla GK er með 14,4 tonn í 3 róðrum, landað bæði í Grindavík og Sandgerði. Guðbjörg GK, nýjasti báturinn í flota Stakkavíkur og eins og kemur fram að ofan, annar stálbáturinn sem Stakkavík ehf gerir út, er kominn með 17 tonn í 3 róðrum og mest 7,3 tonn.

Reyndar hef ég skrifað um það að ofan að Stakkavík gerir út tvo stálbáta, en fyrirtækið á í raun og veru þrjá stálbáta, því þriðji báturinn er Þórkatla GK 4. Sá bátur er óyfirbyggður, frambyggður stálbátur sem lengst af var í eigu fyrirtækisins og hét Rán GK 91.

Reyndar undir þessu nafni, Þórkatla GK, hefur báturinn ekkert róið. Síðan 1. september 2024 hefur báturinn aðeins farið í tvo róðra og landað alls um 3 tonnum. Eitt er samt sem áður merkilegt við Þórkötlu GK, að báturinn er útbúinn til netaveiða, en Stakkavík gerir einungis út línubáta. Ef Þórkatla GK verður gerð út á netin þá þarf að fara töluvert aftur í tímann til þess að finna hvenær Stakkavík ehf gerði síðast út netabát, en þá þarf að fara aftur til áranna 2000 til 2002. Þá gerði fyrirtækið út Óla á Stað GK sem síðar meir varð Erling KE, en sá bátur var 40 metra langur á meðan Þórkatla GK er aðeins um tæpir 14 metra langur.

En hver veit? Aldrei að vita nema að Þórkötlu GK, netabátnum, verði hent á netaveiðar á vertíðinni 2026.

VF jól 25
VF jól 25