Mikið um að vera utan við Sandgerði
Ekki mikið eftir af janúar. Síðasta vika var nú bara nokkuð góð, þó reyndar ekki þannig að minnstu bátarnir kæmust út, því að enginn færabátur komst á sjóinn.
Það er búið að vera mjög mikið um að vera utan við Sandgerði, ekki bara bátar þaðan sem hafa verið á veiðum heldur líka þó nokkuð margir 29 metra togarar og línubáturinn Sighvatur GK sem er búinn að vera á veiðum. 29 metra togararnir voru til dæmis Drangavík VE frá Vestmannaeyjum, Þinganes SF og Steinunn SF frá Hornafirði, en þeir fóru síðan til Hafnarfjarðar til að landa aflanum.
Lítum aðeins á togarana núna það sem af er janúar:
Jóhanna Gísladóttir GK er komin með 362 tonn í 5 löndunum og hefur landað í Grindavík, Grundarfirði og Bolungarvík. Sóley Sigurjóns GK er með 274 tonn í 2 löndunum og mest 144 tonn, landað á Siglufirði og Grundarfirði.
Hulda Björnsdóttir GK 236 tonn í tveimur löndunum, báðar í Grindavík. Vörður ÞH 264 tonn í 4 löndunum og hinn Gjögurstogarinn Áskell ÞH 225 tonn í 4, báðir að landa í Grundarfirði og Hafnarfirði. Pálína Þórunn GK 189 tonn í 3, landað á Siglufirði og Hafnarfirði.
Dragnótaveiðin er búin að vera svona upp og ofan, nema hjá einum báti, Sigurfara GK sem er kominn með 145 tonn í 10 róðrum og er einn af tveimur dragnótabátum á Íslandi sem hafa náð yfir 140 tonna afla í janúar; hinn er Hildur SH frá Rifi sem er kominn með 147 tonn í 11 róðrum.
Stóru netabátarnir tveir hafa verið að flakka nokkuð með netin sín, Erling KE og Friðrik Sigurðsson ÁR, þeir hafa fylgt hvor öðrum mest allan janúar, hafa verið með netin við Garðskagavita, utan við Stafnes og Sandgerði, og núna síðast utan við Akranes. Friðrik Sigurðsson ÁR hefur landað 94 tonnum í 21 róðri og Erling KE 128 tonnum í 16, Friðrik hefur landað öllum sínum afla í Njarðvík, líka þegar hann var með netin utan við Stafnes og Sandgerði, en Erling KE hefur landað í Sandgerði og Njarðvík.
Veðrið hefur aðeins haft áhrif á sjósókn minni bátanna en þeir hafa þó eitthvað getað róið, Addi Afi GK er kominn með 39 tonn í 14 róðrum. Emma Rós KE 22 tonn í 13, Svala Dís KE 29 tonn í 13, Sunna Líf GK 19 tonn í 13 og Halldór Afi GK 22 tonn í 14 róðrum.
Allir netabátarnir nema Erling KE eru allir að veiða fyrir Hólmgrím.
Ég hef nú áður skrifað um þetta en það er ansi merkilegt hvernig komið er fyrir netaveiðum hérna á Suðurnesjunum og í raun ekki bara þar heldur um allt land, og besta dæmið um það er að á svæðinu frá Hornafirði suður með landinu alla leið að Njarðvík eru engir netabátar. Nema einn bátur í Þorlákshöfn sem rær á vertíðum og heitir sá bátur Reginn ÁR. Hann kemur reyndar nokkuð reglulega í Njarðvík í slipp.
Á þessu langa svæði voru mjög margir netabátar, mest þó í Grindavík, Þorlákshöfn og Sandgerði, og væri listinn ansi langur ef nefna ætti alla bátana, en þó má henda í nokkur nöfn, og þá aðallega frá Grindavík, Keflavík og Sandgerði: T.d Geirfugl GK, Sæborg GK, Hafberg GK, Gaukur GK, Þorsteinn GK, Stafnes KE, Bergur Vigfús GK, Hafnarberg RE, Ósk KE, Hólmsteinn GK, Gunnar Hámundarsson GK og Happasæll KE. Það mætti bæta vel og lengi við þennan lista.
Aftur á móti þá hefur veiðin glæðst ansi mikið og þá aðallega hjá línubátunum en nánar um það í næsta pistli.








