Hulda Björnsdóttir GK aflahæsti togarinn - aðeins beitt í Sandgerði
Ekki er nú hægt að segja að síðasta vika hafi verið eitthvað sérstök, frekar erfitt tíðarfarið og bátar komust ekki það oft út. Núna er komið nokkuð langt inn í janúarmánuð og alveg óhætt er að segja að mikið hafi breyst í útgerð, og þá aðallega varðandi báta í eigu einstaklinga eða lítilla fyrirtækja.
Það sést kannski best á því að í byrjun þessarar aldar, sem sé árið 2000, þá var ansi mikið um línubáta sem réru með balalínu, sem þýddi að það var beitt víða um Suðurnesin, til dæmis í Grindavík, við Röstina í Keflavík, í Garðinum og síðan í Sandgerði.
Í dag er þetta allt öðruvísi, því að núna er hvergi beitt nema í Sandgerði og bátarnir eru aðeins eða báturinn sem beitt er af er aðeins einn, Gulltoppur EA, sem Stakkavík ehf gerir út og landar báturinn á Skagaströnd.
Reyndar er það nú þannig að það er lítið um nýliðun í beitningafólki og yngra fólk veit varla af þessu sem heitir beitning. Eins og ég hef heyrt mikið þá gengur illa að fá fólk í beitningu og yngra fólk sækist ekki í þetta starf eða með öðrum orðum að yngra fólk nenni ekki að vinna við eitthvað fiskvinnslutengd, nema fólk fái stöðu sem gerir það að stjóra eða þess háttar. Ég tel nú reyndar að allmargir sem lesa þennan pistil hafi einhvern tímann beitt í það minnsta einn bala, þó svo það hafi tekið nokkra tíma. Fyrsti balinn er alltaf lengstur og margir gefast upp, en með þolinmæði þá klárast balinn og síðan bara næsti og næsti.
Fyrst ég minntist á Gulltopp EA þá hefur báturinn landað núna í janúar um 45 tonnum og þar af kom báturinn með 12,5 tonn í land í síðasta róðri sínum á 36 bala, sem gerir 347 kíló á bala, það er ansi góð veiði.
Aðeins úr línubölum og línuveiðum yfir í togarana. Núna þegar að árið 2025 er liðið er hægt að líta aðeins á togarana, og reyndar er það nú þannig að það eru aðeins sex togarar gerðir út frá Suðurnesjunum núna, og er ég þá að tala um ísfisktogarana, og af þessum sex togurum eru þrír 29 metra togarar. Reyndar til viðbótar við þessa sex togara eru tveir frystitogarar sem gerðir eru út frá Grindavík og einn frystitogari sem Nesfiskur gerir út.
Hjá Nesfiski eru tveir togarar, Sóley Sigurjóns GK sem var með 3241 tonna afla í 40 löndunum eða 81 tonn í löndun, togarinn var stóra hluta af árinu 2025 á rækjuveiðum og landaði þá á Siglufirði, og var þá rækjunni ekið til Hvammstanga til vinnslu og fiskinum að mestu ekið til Sandgerðis og Garðs til vinnslu.
Hinn Nesfiskstogarinn Pálína Þórunn GK, átti ansi gott ár því að hann var með 2988 tonn í 46 löndunum eða 65 tonnum í löndun. Togarinn, sem er 29 metra langur, var ekki á rækjuveiðum en árið 2024 var Pálína Þórunn GK á rækju hluta af árinu.
Í Grindavík/Grenivík er það Gjögur, og var fyrirtækið með tvo togara sem báðir eru 29 metra.
Var mestum hluta af aflanum landað í Grindavík og unninn þar og líka á Grenivík. Áskell ÞH var með 3495 tonn í 55 róðrum og 64 tonn í róðri, og Vörður ÞH var með 3523 tonn í 56 róðrum eða 63 tonn í róðri. Vísir ehf í Grindavík, sem reyndar er orðinn hluti af Síldarvinnslunni, og SVN á líka Berg Huginn í Vestmannaeyjum. Undir Vísisnafninu var togarinn Jóhanna Gísladóttir GK gerður út og Jóhönnu gekk nokkuð vel, var með 4992 tonn í 72 löndunum eða 69 tonn í löndun.
Aflahæsti togarinn á Suðurnesjunum árið 2025 var Hulda Björnsdóttir GK sem var með 6532 tonn í 47 löndunum og það gerir 139 tonn að meðaltali.






