Kílómetragjaldið bitnar á fiskflutningum Suðurnesja
Jólahátíðin er gengin í garð og allur báta- og togaraflotinn orðinn stopp. Það verða þá helst dagróðrabátarnir sem róa á milli hátíða ef veður leyfir.
Skipstjórinn á frystitogaranum Tómasi Þorvaldssyni GK setti ansi flotta jólakveðju inn. Þeir voru búnir að liggja undir Hafnarbergi að þrífa og ganga frá togaranum fyrir jólastopp og teiknuðu jólatré í trakkinu, ansi flott.
Annars hefur veiðin fyrir jólin verið nokkuð góð. Sigurfari GK hefur átt mjög góðan desembermánuð og þegar þetta er skrifað hefur báturinn landað tæpum 160 tonnum í 10 róðrum og er eini dragnótabáturinn á landinu sem hefur veitt yfir 100 tonn í desember.
Alþingi okkar Íslendinga er alltaf með svona hálfgerðan glaðning fyrir áramót. Iðulega eru það skattahækkanir en nú tókst þeim að troða kílómetragjaldinu inn í lög, sem verður að veruleika 1. janúar 2026.
Reyndar á olían að lækka eitthvað á móti, þótt tölurnar séu mismunandi eftir því sem maður hefur lesið, allt frá 50 upp í 90 krónur á lítra. Af hverju minnist ég á þetta í aflafréttapistli um Suðurnesin? Jú, ansi mikið af bátaflota Suðurnesja hefur verið við veiðar við Austur- og Norðurland og síðan er aflanum ekið suður til vinnslu.
Tökum dæmi. Á Djúpavogi landa Vísisbátarnir oft og er aflanum þá ekið suður. Vegalengdin þaðan til Grindavíkur er 578 kílómetrar, eða 1156 kílómetrar fram og til baka. Þegar stóru línubátarnir landa þar eru þeir oft með um og yfir 100 tonna afla og það þýðir að minnsta kosti fjórir trukkar þurfa til að keyra fiskinn suður.
Gjaldið á kílómetra á trukkana er 45,17 krónur og það þýðir að fyrir fjóra trukka þarf að greiða um 209 þúsund krónur í kílómetragjald fyrir að sækja fiskinn á Djúpavog.
Þessir trukkar eyða um 40 lítrum á hundrað og það þýðir að ef olían lækkar um 90 krónur þá verður olíukostnaður þessara fjögurra trukka um 353 þúsund krónur. Ef olían lækkar aðeins um 50 krónur verður olíukostnaðurinn um 420 þúsund krónur. Plús kílómetragjaldið, sem segir þá til um annaðhvort um 562 þúsund krónur eða um 629 þúsund krónur.
Til samanburðar er olíukostnaður trukkanna í dag miðað við þessa leið um 504 þúsund krónur, en rétt er að hafa í huga að ég miða við 300 krónur á lítra og trukkafyrirtækin eru öll með afslætti, þannig að þessar 504 þúsund krónur eru í raun töluvert lægri.
Þannig mun þetta kílómetragjald auka flutningskostnað fiskvinnslufyrirtækja á Suðurnesjum töluvert. Það er náttúrlega alls ekki góð jólagjöf frá þessu blessaða fólki sem situr á Alþingi.
Annars er þetta síðasti pistillinn fyrir áramót og vil ég óska ykkur gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það gamla.




