Unnar Sigurðsson
Unnar Sigurðsson

Pistlar

Fyrsta sætið
Föstudagur 30. janúar 2026 kl. 06:40

Fyrsta sætið

Nei, ansans vesen. Fall er fararheill og allt það... en að vakna á nýársdagsmorgun með streptókokkasýkingu í hálsinum var ekki ákjósanlegasta leiðin til að byrja árið. Ég hafði reyndar fundið fyrir eymslum þegar ég reyndi að kyngja rauðvínslögginni frá Rioja-héruðunum yfir skaupinu kvöldið áður en gafst fljótt upp og fékk mér vatnsglas.

Það voru enn tveir tímar í opnun vaktarinnar og gretturnar við að reyna að kyngja munnvatni virtust ætla að skilja eftir sig varanlegar hrukkur. Nýtt ár, nýjar hrukkur. Ég taldi niður mínúturnar og náði þriðja lausa tíma dagsins. Á vaktinni tók á móti mér ung stúlka, sem að öllum líkindum hafði aldrei heyrt um hvorki kasettur né geisladiska. Dásamleg var hún þó og talaði ljúfum rómi við vongóða móðurina sem vorkenndi stúlkunni þessi líka ósköp að þurfa að vera á vakt svona á nýársdegi – sem og sjálfri sér fyrir að þurfa að byrja árið á þessum fjanda. Ég sem ætlaði í fyrsta göngutúr ársins.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Þarf ég virkilega að bíða til morguns til að leysa út sýklalyfin? 1. janúar og allt lokað. Heilar 24 klukkustundir framundan af óbærilegum verkjum í hálsinum. „Nei, engar áhyggjur, hún Palla ætlar að hafa opið frá fimm til sjö í dag.“ Ég fór heim, settist við eldhúsborðið og fylgdist með klukkunni svo ég gæti nú örugglega mætt á slaginu til Pöllu. Þegar ég mætti fyrir utan apótekið, korteri fyrir, voru fimm bílar á planinu. Allir í sömu erindagjörðum.

Á móti okkur tekur Palla skælbrosandi, hlustar af yfirvegun á kvein hvers og eins og sinnir okkur af sinni einstöku alúð. „Gjörðu svo vel, elskan. Gott að sjá þig!“ Þegar ég gekk út áttaði ég mig á því að þessi hörmungardagur hafði kennt mér eitthvað sem ég átti eftir að taka með mér inn í nýja árið - og líklega mun lengra en það. Þó að Palla hafi ekki þurft að opna þá gerði hún það samt. Fyrir fólkið í bænum sem henni er svo annt um. Hún setur fólkið í fyrsta sæti.

Unnar Sigurðsson
Unnar Sigurðsson