Pistlar

Vetrarvertíðin hafin og bátar í vandræðum
Björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein í einu af fjölmörgum verkefnum sínum fyrir nokkrum misserum. VF/hilmarbragi
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 9. janúar 2026 kl. 11:46

Vetrarvertíðin hafin og bátar í vandræðum

Tíminn heldur áfram, já, nýtt ár er komið í gang, árið 2026, og það þýðir að vetrarvertíðin er hafin og stendur hún til 11. maí, sem er lokadagurinn.

Það verður að segjast að veðrið er heldur betur búið að vera óvenjulega gott í byrjun árs, því að það er búið að vera blíða og svo mikil blíða að meira segja minnstu bátarnir, handfærabátarnir, hafa komist á sjóinn og þeir hafa komist alla leið út á Boða sem er í um 45 til 50 mílna fjarlægð suður frá Sandgerði, út við Eldey.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

En þangað fór títtnefndur Hawkerinn GK og með honum þar var Hafdalur GK sem rær frá Grindavík. Reyndar komu tveir bátar líka þangað frá Akranesi, Guðmundur Þór AK og Sædís AK. Það var ansi langur tími fyrir til dæmis Guðmund Þór AK, en hann tók um 8 klukkutíma að sigla frá Akranesi og þarna út fyrir Eldey.

Reyndar var veiðin þarna út frá mjög treg, en Röstin gaf nokkuð vel, og kom til dæmis Ósk KE með tæp 700 kíló og Hawkerinn GK kom með 1,6 tonn í land.

Reyndar sama dag og þessi pistill er skrifaður þá var nóg um að vera hjá björgunarsveitum í Reykjanesbæ, Grindavík og Sandgerði, en leki kom að báti sem heitir Almar KE, þar sem hann var á leið í Röstina og var báturinn tekinn í tog til Sandgerðis. En skömmu áður þá hafði línubáturinn Hópsnes GK fengið færi í skrúfuna og tók dragnótabáturinn Benni Sæm GK bátinn í tog líka til Sandgerðis og þegar bátarnir komu þangað þá tók báturinn Geirfugl GK við Hópsnesi GK og dró hann að krana til að hægt væri að landa úr bátnum.

Hópsnes GK og Geirfugl GK eru í eigu Stakkavíkur og þegar Hópsnes GK fékk færið í skrúfuna þá voru þeir ekki búnir að draga alla línuna sem þeir voru með í sjó utan við Stafnes og var því þriðji báturinn í eigu Stakkavíkur sendur út til þess að draga línuna og var það Guðbjörg GK sem kom frá Grindavík.

Svo var einn bátur í viðbót sem lenti í vandræðum, já, það er bátur sem ég er ansi oft búinn að skrifa um, en það var Hawkerinn GK. Hann hafði verið hjá Almari KE að aðstoða meðan beðið var eftir að þyrlan kæmi, og hann fór af stað í land á eftir Benna Sæm GK sem var með Hópsnes GK.

Þegar hann var rétt kominn á svipaðar slóðir og Hópsnes GK fékk í skrúfuna þá kom allt í einu mjög mikill titringur í bátinn og Jóhann Haukur, sem er skipstjóri og eigandi að bátnum, fattaði strax hvað var að, og sló að og dólaði síðan til Sandgerðis, og á eftir honum voru síðan björgunarbátar að draga Almar KE í land. En með þolinmæði og varkárni þá tókst Jóhanni að sigla Hawkernum GK til Sandgerðis og þar komu síðan menn frá Köfunarþjónustu Sigurðar og skáru þeir úr skrúfum á Hópsnesi GK og Hawkernum GK en það var ansi mikil flækja í skrúfunni á báðum bátum.

Almar KE kom síðan í tog skömmu síðar og menn frá Köfunarþjónustunni hífðu bátinn upp á vörubílspall en þeir eiga ansi öflugan trukk sem er með öflugan krana á.

Það má reyndar bæta við að þessi bátur, Almar KE, er í annað skipti á innan við 6 mánuðum sem hann er dreginn í land, en báturinn var dreginn í Sandgerði síðasta sumar, en þá kom upp vélarbilun í bátnum við Garðskaga og fór þá Hannes Hafstein út og dró bátinn í land; þá hét báturinn Gunni Grall KE.

Sem sé þrír bátar sem allir lentu í veseni og það var ansi mikil lukka að ekkert alvarlegt gerðist. Þetta sýnir kannski enn og aftur hversu öflugt það er að hafa góðar björgunarsveitir. Reyndar má minnast á það að Hannes Hafstein, sem er eitt af elstu björgunarskipum landsins og er í umsjá Sigurvonar í Sandgerði, hefur margsannað sig í gegnum árin, þótt gamall sé, en núna er stefnan að Sigurvon sem sér um bátinn fái nýtt björgunarskip og er söfnun í gangi út af því.