Bátarnir eru komnir suður
Í síðasta pistli fór ég aðeins inn á bátana sem eru enn á veiðum fyrir norðan og austan. Mikið hefur breyst síðan síðasti pistill kom, því nú eru allir bátarnir komnir suður sem voru á Skagaströnd. Þegar þessi pistill er skrifaður er Geirfugl GK á leiðinni suður, en á undan honum komu Hópsnes GK og Óli á Stað GK og fóru þeir til Sandgerðis, eins og Geirfugl.
Fyrsti Einhamarsbáturinn er kominn suður og er það Gísli Súrsson GK sem kom til Grindavíkur.
Hvernig hefur bátunum gengið? Jú, það hefur verið frekar rólegt hjá Gísla Súrssyni GK. Hann hefur farið í tvær landanir út frá Grindavík og landað tæpum 8 tonnum. Dúddi Gísla GK hefur verið bæði í Sandgerði og Grindavík og hefur landað alls um 31 tonni í 6 róðrum. Það er svo jöfn skipting á milli róðra og afla í Sandgerði og Grindavík hjá bátnum, þrír róðrar og um 15,5 tonna afli á hvorum stað.
Vel hefur gengið hjá Fjölni GK, en hann er kominn með 68 tonn í 11 róðrum og þar af er tæpum 11 tonnum landað í Grindavík, restinni í Sandgerði. Nýi báturinn Guðbjörg GK hefur verið í Sandgerði allan desember og hefur gengið nokkuð vel hjá bátnum. Báturinn er kominn með 52 tonn í 6 róðrum og þar af 17 tonn í einni löndun. Hópsnes GK kom suður rétt áður en þessi pistill var skrifaður og fyrsta löndun hans í Sandgerði var 4,8 tonn. Þar áður var báturinn búinn að landa 15 tonnum í 4 róðrum á Skagaströnd. Óli á Stað GK kom til Sandgerðis líka en var ekki búinn að landa þegar þessi pistill var skrifaður, enda var báturinn að taka tvær lagnir.
Margrét GK hefur verið í Sandgerði allan desember og hefur verið við veiðar bæði út frá Sandgerði og síðan í Röstinni. Margrét GK hefur landað 53 tonnum í 9 róðrum og mest tæpum 12 tonnum.
Röstin og Húllið
Talandi um Röstina, þá er Röstin mjög þekkt svæði í útgerðarsögu Suðurnesja og þá sérstaklega frá Sandgerði og Grindavík. Saga veiða þar er nokkuð löng, en þetta er svæði sem er oft kallað Húllið og liggur á milli Reykjaness, eða svo til við Reykjanesvita, og út að Eldey. Þetta er mjög straumótt svæði með grýttan botn og getur verið erfitt að stunda þar veiðar vegna straumanna sem þar eru.
Í tugi ára hefur ufsinn reyndar gefið sig ansi vel í Röstinni, og þá helst á handfæri og í netin. Nefna má til dæmis tvo þekktustu handfærasjómenn landsins sem í hátt í 20 ár stunduðu handfæraveiðar þar, en það voru Kristján, eða Stjáni, sem átti Skúm RE og Svanur sem átti Birgi RE. Samhliða þeim voru þarna líka til dæmis Oddur Sæm (Stafnes KE), Guðjón Bragason (til dæmis Grímsnes GK, Vatnsnes KE og fleiri bátar), Grétar Mar Jónsson (Bergur Vigfús GK og Sæborg RE) og Tómas Sæmundsson á Hafnarbergi RE. Það áttu þeir allir sameiginlegt að stunda þarna netaveiðar og voru þá að eltast við ufsann.
Veiðar með netum í Röstinni og veiðar með færum í Röstinni fara frekar illa saman. Vanur færasjómaður sagði meðal annars að oft legðu netabátarnir netin sín á milli færabátanna og vegna þess hversu mikill straumurinn er þá ráku færabátarnir oft þannig að þeir voru að festa króka sína í netunum. Í raun er ekki hægt að vera þar þegar netabátarnir eru þar.
Mikið hefur breyst á undanförnum árum og netabátunum hefur fækkað mikið sem sækja í Röstina. Til að mynda er enginn netabátur í Grindavík, en þar voru til dæmis Geirfugl GK, Gaukur GK, Þorsteinn GK og fleiri sem allir sóttu líka í Röstina.
Núna árið 2025 er það aðeins einn bátur sem fer í Röstina og það er Sigvaldi á Friðriki Sigurðssyni ÁR, en hann kom síðast með um 31 tonn í land úr aðeins fimm trossum.
Færi og net fara illa saman
En þó svo að báturinn hafi mokveitt, þá var sá galli á gjöf Njarðar að færabátarnir sem höfðu verið þarna, og þá sérstaklega Hawkerinn GK sem ég hef skrifað nokkuð um í þessum pistlum, áttu erfitt uppdráttar. Hann hefur sótt duglega í Röstina og náði til dæmis 1,8 tonna róðri áður en brælutíðin skall á, sem var í nokkra daga. En vegna þess að það var kominn netabátur í Röstina, þá var þetta vonlaust fyrir Hawkerinn GK að stunda þar veiðar með færum.
Eins og maðurinn sagði við mig, sem hefur stundað veiðar í mörg ár í Röstinni á færum, þá hefur þetta alltaf verið svona, að netabátarnir henda niður trossum þarna innan um færabátana.
Einhverra hluta vegna er saga veiða í Röstinni, og þá sérstaklega ufsaveiða, mjög löng. Ufsanum líkar greinilega vel við þetta svæði því hann kemur alltaf þarna aftur og aftur og bátarnir geta alltaf sótt í ufsa þarna. Þó svo að færi og net fari ekki vel saman á þessu svæði þá er þetta kannski spurning, eins og einn sagði, að fyrstur kemur, fyrstur fær.
Annars er þetta síðasti pistill fyrir jól og vil ég nota tækifærið og óska lesendum Víkurfrétta og lesendum þessara Aflafréttapistla gleðilegra jóla, með þökk fyrir árið. Ég hef verið í samskiptum við ansi marga sem lesa þessa pistla og það er ánægjulegt að finna að ykkur líkar við þetta sem ég er að gera, og fyrir það er ég mjög þakklátur.






