Pistlar

Upp á æru og trú
Þriðjudagur 30. desember 2025 kl. 06:10

Upp á æru og trú

Upp á æru og trú

Ég hef aldrei verið mikill aðdáandi nokkurs konar heita. Yfirleitt þvert á móti. Þegar meginþorri þessa lands fer að mæta í ræktina í janúar þá kemur mótþróinn upp í mér. Ég mæti frekar í apríl, u.þ.b. sex vikum fyrir bikinítímabil sumarsins og ætla svoleiðis að komast í form á núll einni. Þær fáu lífstílsbreytingar sem ég hef tileinkað mér hafa sjaldnast byrjað á mánudegi. Ekki það að ég hafi endilega staðið við þær allar, en það er bara þessi óþarfa formfesta sem fylgir því að ætla að byrja á einhverju í upphafi ákveðins tímabils sem ég fíla ekki.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk


Ég hef samt sett mér ákveðið markmið fyrir komandi ár: nýtni. Minnka óþarfa, velja notað og einfaldlega kaupa minna. Mér finnst ég stundum vera að drukkna í dóti og fötum, eldhúsáhöldum, skrautmunum og að sjálfsögðu öllu þessu sem „ekki má henda því það gæti komið að góðum notum einn góðan veðurdag“. Þar að auki fæ ég nagandi samviskubit í hvert sinn sem ég fer út með plast- og pappadallinn. Bið til Svíanna í hljóði að breyta þessu rusli mínu í eitthvað nytsamlegt.


Foreldrar mínir, ömmur og afar voru og eru einstaklega nýtið fólk. Ég man að mamma notaði kústskaft til að loka þurrkaranum í nokkur ár því læsingin virkaði ekki. Þegar pabbi sópaði stéttina notaði hann kúst með brotnu skafti svo það náði ekki nema rúmum metra á hæð. Þá bograði pabbi bara með kústinn. Fyrsta minningin mín af stígvélunum sem hann notar til að þrífa bílinn eru síðan áður en ég fór að geta gengið í stígvélum. Hjá ömmum mínum og öfum voru húsgögnin notuð allt þar til þau voru orðin slitin. Þá voru þau bólstruð og notuð áfram í önnur þrjátíu ár. Hlutir sem höfðu runnið sitt skeið fengu ný hlutverk. Á Túngötunni var til dæmis eldgamall örbylgjuofn notaður sem brauðgeymsla. Við krakkarnir lékum okkur á gömlum ljósabekk niðri í kjallara sem notaður var sem sæti eftir að perurnar eyðilögðust. Leikföngin voru svo oftast til frá æskuárum foreldra okkar, sem gerði þau enn meira spennandi.


Ég ætla samt ekkert að lofa þessu upp á æru og trú. En ég reyni mitt besta alla daga – nema mánudaga.


Gleðilegt nýtt(ni) ár!